mánudagur, september 26, 2005

Fallegustu orðin

Hvert er fallegasta orð sem þið vitið um? Án kaldhæðni og sniðugheita, hvað er hljómfagrasta og merkingarfyllsta orð sem þið þekkið, á nokkru tungumáli?

Latneska orðið veritas [sannleikur] er klassík. Þegar á latínuna er litið er gríðarlega mikið af orðum sem virðast sindra í mikilfengleika sínum, nomen [nafn] og flumen [fljót] eru góð dæmi, og svo þau sem allir taka, rex [konungur], lux [ljós], pax [friður] og mörg fleiri, og svo persónulegt uppáhald, mens [hugur]. Þegar litið er til íslenskunnar er sögnin að sindra mjög falleg, þulur og nánd, andvari, hverfull, hvíld, selur - fleiri orð en ég get með góðu móti talið upp. Á toppinum trjónir án vafa orðið von.

Enska hefur gríðarlegt safn af stolnu gulli; symmetry, sieve, thus, syllable, membrane, poplar, pale, fire, wheel, thence, skein; sagnirnar to slay, to sear. Á þýsku: Stürm, Ordnung, Dämmerung, Kreis, Änderung - og ótal önnur orð sem ég hef aldrei lært. Danska er hinsvegar ekki falleg að neinu leiti. En sem lokasvar við ofanspurðri spurningu; oneiros [draumur], grískt orð, sem trjónir án vafa á toppinum þessa stundina.

Fleiri tillögur?

miðvikudagur, september 21, 2005

Déjà vu

Ég var að fara í gegnum My Documents fólderið fyrir tilviljun, og rakst á ritgerð úr tíunda bekk, þar sem við áttum að fjalla um umræðuefnið 'Margt af því sem mikilvægt er að læra verður ekki lært af bókum'. Þessi ritgerð var að mestu leiti leirburður og kjaftæði, en lok hennar eru ansi sniðug, finnst mér. Skrifað áður en stafsetningarfasismi þriðja bekkjar MR fór í gang, svo hér leynast örugglega villur, vitsmunalegar og málfræðilegar.


Til dæmis um kenningar mínar get ég nefnt ungan og ráðvilltan dreng sem veit ekki fyrir lifandis muni hvað hann ætti að gera við sokkinn sem nú hefur komið gat á. Við köllum hann 'Bóbó.' Þessi sokkur veldur Bóbó hugarangri miklu og hann vill vita lausnina á þessu dæmi. Hvað skal til bragðs taka? Drengurinn lítur í bókasafnið, enda er bók betri en kók eins og foreldrar hans hafa kennt honum, og leitar dyrum og dyngjum að bókum sem fjalla um sokka. Hann finnur nokkrar nútímaskáldsögur eins og 'Sokkurinn og kaffikannan Gunnar í teboði kardinálans af Grettisbæ' og nokkrar í unglingahillunni sem bera gríðarlega gáfulega titla á við 'Sokkurinn eða smokkurinn?'eða 'Sokkar og jónur, melur!', hann fann meira að segja hina sjaldgæfu 'Sokkur er fótarfari' eftir hinn byltingarsinnaða Tsjokkovskí, en ekkert sem sagði honum um hvað ætti að gera við götótta sokka.

Niðurbrotinn og sneyptur gengur hann heim og segir föður sínum og móður að hann hafi ekki getað fundið svar við þessu í neinni bók, er allt sem þau hafa sagt honum lygi? Er kók betra en bók? En nei, foreldrar hans segja að margt verður ekki lært af bókum, og segja honum að fleygja sokknum götótta í ruslatunnuna! Og sjá, Bóbó gerir svo, og sokkavandamál hans er leyst, og sannreynt varð að kók er betra en bók.

miðvikudagur, september 14, 2005

Haloscan pósturinn

Ég var sem sagt að setja inn Haloscan og ég verð víst að halda þessum pósti hér. Ég er hinsvegar of hugmyndalaus til að láta hann vera um eitthvað, og ætla því að nærast á annarra snilld.

"He Wishes For the Cloths of Heaven"

HAD I the heavens' embroidered cloths,
Enwrought with golden and silver light,
The blue and the dim and the dark cloths
Of night and light and the half light,
I would spread the cloths under your feet:
But I, being poor, have only my dreams;
I have spread my dreams under your feet;
Tread softly because you tread on my dreams.

W.B. Yeats (1865 - 1939)

þriðjudagur, september 13, 2005

Hugsun dagsins

Ég var að muna eftir atviki þegar ég var að ganga til hans Darra félaga míns eftir stígnum hérna meðfram ströndinni í Skerjafirðinum. Ég var kominn u.þ.b. hálfa leið þegar ég leit niður og sá að köttur nokkur svartur gekk á móti mér. Við litumst stuttaralega í augu og héldum svo áfram.

Það var ekki fyrr en þá sem að ég áttaði mig á því að þessi köttur hafði hagað sér nákvæmlega eins og manneskja í öllum minnstu smáatriðum mannlegs atgervis, og mér fannst það andskoti fyndið. Ég leit við, og hann var ennþá trítlandi burt, hægt og virðulega eins og köttum er vant.

Ég ákvað að hann hefði allan rétt á friðsæld einkalífsins og gekk áfram.

Já, ekki merkilegt, svosem, en eitthvað sem maður man alltaf eftir.

mánudagur, september 12, 2005

Hvernig stendur á því...

Að enginn hefur nokkurn tíman fæðst sem hefur einn minnsta snefil af prómill af þeirri málsnilld sem Shakespeare notaði við jafnvel svo ómerkilegar athafnir svo sem að hnerra eða æla? Þessi maður fær mig til að vilja skrækja eins og smástelpa og gerast grúppía...

Annars var ég að klára við að horfa á Band of Brothers á DVD aftur (Band of Brothers verandi Shakespeare tilvitnun, natürlich...) og ég kemst aldrei yfir það hversu stórkostlegt efni þetta er. Sjónvarp hefur alltaf verið fyrir kvikmyndafallista en þessir þættir breyta því algjörlega...

Að sjálfsögðu eru þeir þó um bandaríska herinn, því að bandaríski markaðurinn er sá eini sem er nógu stór til að styðja svona hluti, og þeir hafa aðeins áhuga á sínum eigin löndum. Án þess að draga úr þætti þeirra í styrjöldinni, þá væri afskaplega gaman að sjá þátt eða jafnvel kvikmynd a la Flags of our Fathers um mennina á þessari ótrúlegu ljósmynd - sovésku hermennina sem reistu hamarinn og sigðina yfir Reichstag.

Persónulega kýs ég þessa ljósmynd fram yfir hina frægu Iwo Jima mynd sem flestir kannast við - það er varla hægt að forðast frumkraftinn í þessari. Svo er skemmtileg saga sem ég las einhversstaðar um þessa mynd, að sovéskir áróðursmeistarar hafi fitlað við hana til að fjarlægja þýska Luger skammbyssu sem að hermaðurinn sem reisir fánann hafði víst stolið af dauðum, þýskum hermanni - eitthvað sem var afskaplega vinsælt hjá hermönnum í seinni styrjöld.

Addendum - yfirleitt hef ég ekki verið mikið fyrir Best Of diska, en ég er að hlusta á afurðir af The Essential Bob Dylan, og djöfull er þessi listamaður undirkynntur - lögin til að hlusta á ef maður vill kynna sér Dylan eru bara alls ekki þau sem flestir heyra með honum. Hlustið á Jokerman, Not Dark Yet, Tangled Up In Blue, Dignity, Changing of the Guards og Blind Willie McTell, allt lög sem eru ekki meðal hans frægustu en svo sannarlega meðal hans bestu.

mánudagur, september 05, 2005

Mania

Eftir nýjasta veikindakastið sem hendir mig reglulega með um það bil þriggja ára millibili sit ég hér heima líklega minn síðasta frídag vegna þessa og reyni að læra það upp sem ég hef misst af. Og ég hef komist að einu - aldrei hefði ég haldið að það skipti svo miklu máli í tungumálaæfingum hvert innihald textans nákvæmlega er, þetta er allt fyrir beygingar og þannig mál: En það var rangt...

Því að ég GET EKKI þýtt ANNAÐ ORÐ um BÖLVAÐA FOKKING UXANA HANS DIKAIOPOLISAR. Ég skil ekki AF HVERJU þessi BÖLVAÐI SAMYRKJUBÓNDI STEIKIR ÞÁ EKKI og ÞRÆLINN MEÐ og ÉTUR. Hann getur stofnað til ÁTVEISLU ofan á bölvuðum PLÓGINUM. Ég sé fyrir mér kaflann:

'ó Dikaiopolis húsbóndi,', kallar ó Xanþías, 'af hverju steikur þú mig og étur? Því að ég er ekki latur og ég ber nú þegar plóginn á akurinn.' ó Dikaiopolis hlær og segir: 'Því að þú ert þræll, ert mér óæðri og hefur í ofanlág enga sál. Ég ét læri þín með Vernersósu og augun í eftirrétt.' 'Ó Dikaiopolis húsbóndi' stynur uxinn, 'ég á fjórtán kálfa í meðhjálp og uxynja mín hefur herpes, sýndu mér vægð. Ég flýti mér nú þegar.' Kallar þá ó Dikaiopolis á Seif og dansar tryllingslega svo fallus hans skekst ákaflega, sker hann svo af sér geirvörturnar og étur að lokum sinn eigin haus til dýrðar guðsins.

Eða eitthvað. Þetta þurfti að komast út úr kerfinu.