mánudagur, september 12, 2005

Hvernig stendur á því...

Að enginn hefur nokkurn tíman fæðst sem hefur einn minnsta snefil af prómill af þeirri málsnilld sem Shakespeare notaði við jafnvel svo ómerkilegar athafnir svo sem að hnerra eða æla? Þessi maður fær mig til að vilja skrækja eins og smástelpa og gerast grúppía...

Annars var ég að klára við að horfa á Band of Brothers á DVD aftur (Band of Brothers verandi Shakespeare tilvitnun, natürlich...) og ég kemst aldrei yfir það hversu stórkostlegt efni þetta er. Sjónvarp hefur alltaf verið fyrir kvikmyndafallista en þessir þættir breyta því algjörlega...

Að sjálfsögðu eru þeir þó um bandaríska herinn, því að bandaríski markaðurinn er sá eini sem er nógu stór til að styðja svona hluti, og þeir hafa aðeins áhuga á sínum eigin löndum. Án þess að draga úr þætti þeirra í styrjöldinni, þá væri afskaplega gaman að sjá þátt eða jafnvel kvikmynd a la Flags of our Fathers um mennina á þessari ótrúlegu ljósmynd - sovésku hermennina sem reistu hamarinn og sigðina yfir Reichstag.

Persónulega kýs ég þessa ljósmynd fram yfir hina frægu Iwo Jima mynd sem flestir kannast við - það er varla hægt að forðast frumkraftinn í þessari. Svo er skemmtileg saga sem ég las einhversstaðar um þessa mynd, að sovéskir áróðursmeistarar hafi fitlað við hana til að fjarlægja þýska Luger skammbyssu sem að hermaðurinn sem reisir fánann hafði víst stolið af dauðum, þýskum hermanni - eitthvað sem var afskaplega vinsælt hjá hermönnum í seinni styrjöld.

Addendum - yfirleitt hef ég ekki verið mikið fyrir Best Of diska, en ég er að hlusta á afurðir af The Essential Bob Dylan, og djöfull er þessi listamaður undirkynntur - lögin til að hlusta á ef maður vill kynna sér Dylan eru bara alls ekki þau sem flestir heyra með honum. Hlustið á Jokerman, Not Dark Yet, Tangled Up In Blue, Dignity, Changing of the Guards og Blind Willie McTell, allt lög sem eru ekki meðal hans frægustu en svo sannarlega meðal hans bestu.