þriðjudagur, október 21, 2008

Sauðyrði

Stundum koma upp fréttamál sem sautsvartur almúginn (ég með talinn) skilur ekki, þótt þau komi honum samt sem áður mikið við.

Efnahagsmál eru í eðli sínu afskaplega flókin. Ekki einu sinni hagfræðingar eru áreiðanlegir um þau, ég hef afar sjaldan séð tvo sem voru í nokkru sammála um nokkuð. Starfsgrein þessi virðist klofin.

Þessa dagana hafa allir eigin fjölmiðil og misskilda skyldu til að básúna eigin skoðanir á öllu milli himins og jarðar, þar með talið á því sem það skilur ekki. Notar fólk þá í staðinn tilbúið lingo, frasasafn sem tjáir einfaldar tilfinningar (gott, vont) frekar en merkingu.

Þessa frasa hafa óheppnir Íslendingar, sem slysast hafa til að fylgjast með fréttum undanfarið, heyrt aftur og aftur og aftur. Ég fullyrði að ég muni missa vitið ef ég heyri aftur um:
  • Hjól atvinnulífsins
  • Fárviðri í efnahag þjóðarinnar
  • Að veðra af sér storminn
  • Þjóðarskútuna (ég skýt, ég skýt næsta mann sem segir þetta orð)
  • Þjóðarsátt
  • Efnahagsástandið
  • Útrásarvíkingana
  • Að sigla á önnur mið
  • Að einkavinavæða (aaarrrrrr!!!!!!)
...og margt fleira sem ég man ekki.

George Orwell samdi bestu ritgerð sem ég hef lesið: Politics and the English Language, sem fjallar um hvernig á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar hafði enskan orðið svo lituð af pólitískri umræðu að merking hennar var hreinlega að hverfa.

Sé ég hér skýra samleið!

laugardagur, október 18, 2008

Dauði nei! Líf já!

Ég skrifa, skrift mín er til staðar, hún er heilleg og villt. Ótrúlegt er það hversu mikið minna ég skrifa með aldrinum. Heilasellur deyja og lifur leysist upp. Hyggjuvit víkur fyrir ófrjósemi og gigt.

Þó verður að segjast að ég telji mig hafa einn fjölbreyttasta vinahóp sem um getur. Þar kennir flestra grasa. Gras má reykja, beita fyrir mjaltadýr; sem svo sjá mér fyrir lífsþörfum flestum úr blíðum júgrum sínum, mér vinveittum.

Útskýringar nei.

þriðjudagur, október 07, 2008

Þótt mig gruni að ég hafi tapað mínum dygga lesendahópi

Í þeirri holskeflu efnahagsfrétta sem á mig hefur dunið og því næst sem grafið sig inn í öll mín skástu skynfæri, finn ég eilitla fróun í því að hlusta á Exile on Main St með Rolling Stones. Af einhverri furðulegri ástæðu er eins og hún hafi verið samin um þessa tíma, ég bendi á nokkra lagatitla þessa til sönnunar:

Rip This Joint, Rocks Off, Tumbling Dice, Torn And Frayed, Sweet Black Angel, Turd On The Run, Let It Loose, All Down The Line, Soul Survivor...

Og síðast en ekki síst Stop Breaking Down.