þriðjudagur, júní 26, 2007

Vinnuvæl

Ég er aldrei mjög ánægður við vinnu, sama við hvað ég fæst, enda sé ég vinnu á fremur daufan og margir mundu segja (og hafa rétt fyrir sér í því) barnalegan hátt.

Svo vill til að menn eiga það til að deyja. Það er meira að segja nokkuð undantekningalaust. Tími okkar í þessum heimi er takmarkaður og sannarlega, eins og sést á elliheimilum út um allt, er allt lagt í sölurnar til að auka þann tíma (á röngum enda lífsins.) Tíminn er það dýrmætasta sem við eigum.

Þessi tími er það sem vinnuveitendur kaupa af okkur. Nám okkar eða hæfileikar spila stundum inn í, en á heildina séð er sá sem er viljugur til að fórna meiri tíma ráðinn. Við seljum líf okkar utanaðkomandi fyrir fé. Það er bara eitthvað... sem ekki virkar við þetta fyrir mig. Ég fæ samviskubit, finnst ég vera að gera eitthvað af mér.

En þetta elst líklega af, eins og flest gott í lífinu...

föstudagur, júní 22, 2007

Reditus has imagines divulgo, (in nomine Pontificis Maximi)

Bono (56) var með í för en kallaði sig Inga Vífil (sem er Bono líkt. Svei!)
Piazza del Popolo, miðpunktur alheimsins. Hinn nafntogaði staður hvert allar götur leiða víst.
Lengi lifir í gömlum glæðum eins og sjá má á þessu veggjakroti úr Villa Borghese garðinum.
Mörg hin merkustu skáld hafa verið rænd á spænsku tröppunum en ég var því miður ekki þeirra á meðal
Árelíusarsúlan er svo mikið Sigmund Freud að ég verð sposkur á svip
Mig langar að segja eitthvað kaldhæðið og skondið um Pantheon en ég get það ekki. Þetta er magnað. Meira magnað en Magni (49)
Innan í Pantheon er Oculus, eða augað, gat fyrir sólina í miðju hvolfþakinu sem skín niður á svo þverglæsilegan hátt að ég var gráti næst. Aldrei hefði ég haldið að gat í þakinu gæti verið svona tilkomumikið.
Ragnhildur (19), böðuð tilliti Oculi, finnur eingöngu til léttúðar.
Forum Romanum. Sjaldan hef ég verið jafn mikil gelgja og þegar ég sá þetta. Ég var eins og fermingarbarn á tónleikum með 50 Cent (2)
Sæt fornleifafræðistúlka einhver hvílir sig á Forum Romanum.
Lucius Servilius Iubba (26) fann upp tímavél í fornöld og lætur nú taka myndir af sér fyrir framan Colosseum fyrir fé. Skárra en að drepa Galla, segir hann (melius quam Gallos interficere)
Vatíkanið. Stórkostlegt dæmi um það hversu illa vestrænir menn kunna að fara með peninga.

Innan úr Péturskirkju. Eins og sjá má er ég mikill aðdáandi oflýsingar

Kaþólsk kirkja nokkur þar sem hinn gullna hauskúpa Kangaxx (4005) er tignuð með barnfórnum og flösusjampói

Gamli kentárinn, grísk bronsstytta og eitt mesta listaverk sem ég sá í Róm.

Ég er ekki alveg viss um af hverju, en þetta er ein af uppáhalds uppstillingunum sem ég náði í Róm. Eitthvað flott við þessa mynd, þó ef það væri aðeins kvenfólkið eða hin forláta Polaroid myndavél sem Brynhildur (20) heldur á.

Þessi ferð var ótrúlega mikið æði. Æði pæði. Jafnvel æði pæði, huhu, sæði. Látum það nægja.

þriðjudagur, júní 12, 2007

Farinn til Rómar

In qua urbe laetitia celata manet.

sunnudagur, júní 10, 2007

Fokking frón

Ég fyllist ávallt sadískri gleði er íslenska landsliðinu gengur illa í einhverri íþrótt!

'Your country is just the place where your parents fucked.'
-Bill Hicks

fimmtudagur, júní 07, 2007

Arbeitslösigkeit und deswegen Lebensdämmerung

Þetta er tilraun til þess að blogga með kött næstum því ofan á lyklaborðinu svo erfitt er að skrifa. Hann er slíkur nautnaseggur að ekkert gat stöðvað hann í að hlamma sér á þennan stað fyrir framan mig þar sem ég hef ekkert annað um að velja nema að þekja hann athygli.

Eftir útskrift úr MR er ég atvinnulaus. Ég tel þetta vera góða ávísun á framtiðina. Ég held þó enn í vonina með íslenskum þetta-hlýtur-að-reddast hugsunarhætti og hef fleiri atvinnuumsóknir í gangi en ég get hæglega talið. Dögunum eyði ég í að lesa Sjálfstætt fólk, sem er snilld hingað til. Seint verður Laxness ofmetinn. Eða kannski, jú, hann er ofmetinn á Íslandi, enda yfirleitt lýst sem einskonar konungi hugans með yfirskegg og hreim. En innan skynsamlegra marka er hann algóður penni.

Af þeim ástæðum er ég búinn að skrifa það sem virðist mér vera hundruðir af atvinnuumsóknum og ég hef ekki hugmynd um hvort ég sé að gera það rétt. Þar hrósa ég sjálfum mér í hástert við hliðina á mynd þar sem ég virðist sem freðinn Schwarzenegger með fúlskegg. Ég tala óhóflega mikið um einkunnir mínar. Það er spurning hvort ég ætti ekki að taka upp líflegri stíl og fara að lýsa glæstum líkamsburði að auki (allt af hverju væri lygi, en það á líka við flest í atvinnuumsóknum.) 'Magnþrungin fegurð mín glitrar við minnsta sólskin og svo virðist viðstöddum sem sólin sjálf blikni við hliðina á ásjónu minni sem skín heimsljósi sínu í gegn um skeytta veggi hugans og oft er eins og í sálu manna vakni fugl, gullgagl mikið sem hefst á loft þegar og syngur frelsissöng sinn í átt að hinum hlekkjandi himinguðum og segir þeim 'fú! fú!' Út á slíka umsókn mundi ég ráða mann á stundinni. Eða hneppa í þrældóm jafnvel.

(eftir þennan punkt verður færslan sóðaleg. Forðist, forðist! Bjargið geðheilsu ykkar og frjósemi frá yfirvofandi hættu og lesið ekki eftirfarandi.)


Hatur mitt á hægðum er geigvænlegt. Þessi grunnþörf mannkynsins er óværa og bölvun. Ég á í miklum erfiðleikum með að viðurkenna að ég sé siðað dýr og siðmenntað gáfumenni þegar á sama tíma ég neyðist til að stunda þessa siðlausu athöfn. Hugsið ykkur; já, foreldrarnir kúka, Jesús kúkar, páfinn, Davíð Oddsson. Halldór Laxness, David Bowie og Bob Dylan. Ó! Sá er mér herra og dróttinn hver sá sem er af þessu frelsaður. Komi sá hinn sami og setji á lista hinna viljugu, við hlið sauða en ekki geita.

sunnudagur, júní 03, 2007

Svei mér þá

Já, svei mér þá. Þau orð lýsa útskriftarferlinu best.