miðvikudagur, október 31, 2007

Í tilefni af endurútgáfu bókarinnar 'tíu litlir negrastrákar'

Nú veit ég að 'búhú pólitísk rétthugsun er vond' kórinn mun ráðast allharkalega á mig. Þessi kór er nefnilega orðinn stærri en 'búhú þetta er svo politically incorrect' kórinn (sem ég tilheyri í þessu máli). Svona eru Íslendingar.

Anyway. Nýendurútgefin bók um dauða tíu negrastráka veldur þessa stundina miklu hugarangri á íslenskum heimilum. Foreldrar sem voru aldir upp við þessa yndislegu sögu um heimska blámenn skilja hvorki upp né niður í þessu, að hér sé vegið að þessum máttarstólpa barndóms þess, og raular háum rómi negrastrákalagið er það spásserar niður Laugarveginn í baráttuhug. Breytir það því svo snarlega í hósta þegar einhver svartur labbar hjá, muldrar 'já drullist til Afríku' og dregur hakakrossinn í lófa sinn með mjórri löngutöng.

Sá samanburður hefur verið gerður að ef bókin héti 'tíu litlar húsmæður' mundi hún aldrei fást útgefin í dag, þótt það hafi verið fullkomlega rétthugsandi þegar bókin kom út. En til að kunna fullkomlega að meta merkingu bókarinnar í nútímanum ættum við frekar að endurskrifa hana sem 'tíu litlir Hitlerjugend', enda eru til fáar betri táknmyndir fyrir hinn hvíta kynstofn. Ég er slappur í öllum rímfræðum en ef einhver hefur hugmyndir að versi um tíu litla Hitlerjugend sem deyja hver á eftir öðrum á sársaukafullan hátt væri það vel þegið. Það mundi a.m.k. kenna börnum sitthvað gagnlegt.

Aaaah!

PS. Frábær grein um þetta í fréttablaðinu í dag.

þriðjudagur, október 23, 2007

Holland

Svo vill til að ég var í Hollandi með kór menntaskóla hverjum ég tilheyri ei meir.

Tilefni þessa var kóramót sem við höfðum ákveðið að taka þátt í. Það var haldið í Eindhoven, en þessu komst ég reyndar ekki að fyrr en við fórum til Eindhoven. (Ég er afskaplega á móti upplýsingum þegar þær gætu komið að gagni.) Reyndar var þetta allt hið flóknasta mál, því við gistum á stað sem hét Baarschot, sem var stutt frá borginni Veldhoven, sem er svona Kópavogur af Eindhoven. Þetta vildi allt ruglast.

Líklega það besta í ferðinni var þegar við, hálfþunn eins og alltaf, sungum eins og englar í kaþólskri messu og fengum líkama krists að þökkum. Var hann þurr bragðsins. Endaði þetta svo allt á að við lentum í þriðja sæti í flokki klassískra kóra, sem verður nú að teljast ágætt, þar sem eitt lag var svo erfitt að við náðum fyrst að syngja það í gegn á æfingu tíu mínútum fyrir frumflutning í keppninni.

Það merkilega við Holland var hversu fáránlega, fáránlega, fáránlega sætt allt var. Maður fékk klígju upp í kok af því að keyra framhjá röðum eftir röðum af sætum litlum múrsteinshúsum með fullkomnum garði og runnum sem voru klipptir í form sætra smádýra.

Einnig var merkilegt að í Hollandi virtust vera afskaplega fáir Hollendingar, en þá sáum við bara í stórborgunum. Í Baarschot, sem var alveg átætlega stór bær sem hafði heljarinnar bar og veitingahús var bara ekki kjaftur á nokkrum þeim tíma sem við vorum þarna. Endrum og eins sáum við þó lítil, sæt börn ríða um á fáránlega litlum og sætum smáhestum, en önnur merki mannlífs sáust varla. Grunar mig ráðabrugg.

Ég auglýsi eftir ljósmyndum úr ferðinni (mín myndavél er því miður dauð.) Myndefni af smáhestum vel þegið.

föstudagur, október 12, 2007

Raunveruleg tilviljun af bloggi bókstafstrúaðs Íslendings sem heitir Janus

Ég var orðinn um fertugt, þegar ég sá þetta og að ég þarfnaðist Drottins Jesú sem frelsara. Og þá skynjaði ég, að ég þurfti að gera iðrun og snúa frá mínum vondu verkum og það þurfi ég að gera hvern dag. Eins og Pétur postuli sagði: "Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar." Post. 2,38. Eftir þetta varð ég brennandi í trúnni og fór að boða Jesús sem frelsara minn. Og hvað gerðist þá? Flestir vildu ekkert með mig hafa. Þar á meðal börnin mín, sem litu á mig í fyrstu sem mann er hefði hreinlega ruglast. Þau forðuðust mig eins og heitan eldinn. Og ein dóttir mín, sagði við mig eftir að hún frelsaðist: "Pabbi, þegar þú birtist, þá reyndi ég strax að koma mér í burtu, því allt sem þú sagðir var svo óþægilegt að heyra. Allt þetta tal um Jesú og Guð fór bara í taugarnar á mér."

Úff.

Vesalings maðurinn. Hann veit hvernig hommum í Íran líður.

Bráðum munu þeir halda svona 'Christ-Pride' og marsera niður Laugarveginn í engu.

miðvikudagur, október 03, 2007

Fréttaljósmyndir

Á Íslandi er engin hefð fyrir því að birta góðar fréttaljósmyndir í prentmiðlum og því verðum við að leita á náðir internetsins til að finna slíkar.

Omayra Sanchez festist í húsarústum eftir aurflóð í Kólumbíu árið 1995. Það tókst ekki að ná henni út.

Fórnarlömb jarðsprengna í Angola.

Kona og barn hennar falla úr brunastiga árið 1975. Konan lést en tók við fallinu af barninu, sem lifði.

Stúlka við Kent State University háskólann í Bandaríkjunum stendur yfir líki vinar síns, eftir að bandaríska heimavarnarliðið hafði skotið á mótmælendur úr röðum nemanda.

Fræg ljósmynd eftir Robert Capa úr spænska borgarastríðinu sem sýnir lýðveldissinnaðan hermann verða fyrir óvinaskoti.

~

Það er mjög erfið siðferðisleg spurning á bak við störf fréttaljósmyndara. Þeir eiga að sýna hlutina eins og þeir eru en ekki breyta, bjarga eða bæta þá illsku og eymd sem fyrir linsuna ber. Einskonar vísindamenn að safna gögnum um mannlega hegðun með hlutlausum augum. Á móti kemur að í raun getur ljósmyndarinn í fæstum tilfellum gert eitthvað til að bjarga viðfangsefnum sínum eða bæta stöðuna - en samt fyllumst við stundum reiði í þeirra garð; kannski vegna þess að okkur finnst við fremja glæp í sjálfu sér með því að stara á svo hryllilega hluti sem eru stöðugt að gerast, jafnvel á meðan ég skrifa þetta, og gera ekkert í því nema að finna til.

Við höfum nefnilega allt þetta á samviskunni, innst inni. Það er kannski órökrétt og fáránlegt, en ég hef samt skynjað það nógu lengi til að vera orðinn afskaplega daufur fyrir öllum hörmungum annarra. Þetta er ekki 'hryllingur' fyrir mér eða fréttaljósmyndurunum lengur - þetta er bara mannlegt eðli, þetta eru afleiðingar tilveru minnar sem og alls mannkynsins. Þess vegna eru svona ljósmyndir í raun eins og listaverk frekar en fréttaflutningur. Mannleg eymd er allstaðar, ljósmyndari þarft bara að leita hana uppi. Hann vill verða vitni að öllum mest spennandi senunum í hinu mannlega leikriti og gefa síðan okkur aukaleikurunum smá nasasjón af þvi sem við missum af. List gerð úr einum ramma af lífi annars fólks.

Annars veit ég ekki alveg hvernig ég á að enda svona rambl þrátt fyrir að hafa lengi reynt að finna upp á leið. Því enda ég þetta bara hérmeð og lofa glaðværari pistli næst.