sunnudagur, ágúst 15, 2010

Staðan

Afsakið, pólitísk færsla: þeir sem hafa ofnæmi fyrir slíku (sem er fáránlega skiljanlegt, ég vildi að mér gæti verið sama um allt það andskotans rugl) skulu endilega hætta lestri! En.

Á Íslandi í dag virðist bara vera til ein stétt fólks sem einhverju er talin skipta: Miðaldra efnað fólk með húsnæðisskuldir.

Ungt fólk, eins og ég, öryrkjar og gamalmenni (þ.e. skuldlaust fólk) skipta hinsvegar nákvæmlega engu og hafa einfaldlega ekki tekið þátt í þjóðfélagsumræðunni frá því að hrunið varð. Smá sást til ungs fólks í búsáhaldabyltingunni sjálfri - en það voru anarkistar og við áttum að vera hrædd við þá.

Í búsáhaldabyltingunni var nefnilega allt þetta unga fólk sem var að berjast fyrir hugsjónum - hvort sem það voru anarkistar eður ei. Hugsjónirnar voru ýmsar, allt frá stjórnleysi til bara lands laust við Sjálfstæðisflokkinn (fólk gleymir allt of oft hversu mikið afrek það er að halda honum bara þetta lengi frá völdum!) Ég er hinsvegar alltaf að færast meira á þá skoðun að meirihlutinn sem tók þátt í þeirri byltingu eða hvatti hana áfram hafi verið miðaldra og hugsað aðeins um eitt: sína eigin hagsmuni, sínar eigin skuldir, sinn eigin rass.

Eftir búsáhaldabyltinguna hefur eitt merkt komið í ljós: án ungs fólks með hugsjónir er ekki hægt að mótmæla svo vel sé. Húsnæðisskuldarar hafa oftsinnis, örugglega oftar en hundrað sinnum, stofnað til mótmæla með búsáhöld fyrir utan Alþingi, og senan er alltaf jafn grátleg: Örfátt, önugt fólk með rándýra wok-pönnu og IKEA-sleif, sem þegir af feimni en tjáir sig frekar með blogglegum kröfuskiltum á stangli og nokkrum ferskeytlum á miða. Manni verður strax svo fullkomlega ljóst: þessi aldurshópur einfaldlega getur ekki mótmælt, hann er allt of skuldugur og allt of niðursokkinn í eigin hagsmuni til geta þóst hafa réttlætiskenndina til mótmæla.

En þetta fólk er landið, er okkur talin trú um. Meirihluti allra frétta þessa dagana snúast um þessa húsnæðisskuldara, einhver mál sem skipta engan máli nema þá. Aftur og aftur. Svo vill til að fréttir á Íslandi koma mér bara ekki við og hafa ekki gert í fáránlega langan tíma. Hvernig gerðist þetta?

Málið er að þessir skuldarar skipta mig máli bara að einu leiti: Þeir eru að berjast fyrir einhverju formi af þjóðnýtingu húsnæðisskulda sinna, þ.e.a.s. að skuldirnar dreifist frá þeirra herðum yfir á herðar allra Íslendinga, skuldugra sem skuldausra, í formi skatta. Þessu ættu raunar ungt fólk, öryrkjar og gamalmenni að berjast gegn af öllum lífs og sálar kröftum, í krafti þessarar heilögu réttlætiskenndar sem gerir mótmæli kröftug og getur breytt heilu samfélögunum á einu bretti: en nei. Þöggunin um það sjónarmið er gjörsamlega fullkomin, og ég sé ekki annað en að lobbý skuldaranna muni fá sínu fram á einhvern hátt algjörlega án þess að nokkur rísi gegn þeim. Og maður getur bara horft á og hrist höfuðið, og hugsað: ég þyrfti eiginlega að fara að fá mér húsnæðisskuld, þá myndi einhver nú fara að taka mark á mér á þessu landi.