föstudagur, mars 30, 2007

Getur einhver plís skotið mig í ennisholurnar?

Ennisholubólga er sjitt. Það er eins og stöðugur, slæmur hausverkur sem kemur í bylgjum með fimm sekúndna millibili. Einnig setur sá sársauki tárakirtil annars augans á fullt, sem þýðir að ég er einstaklega aumkvunarverður þessa stundina. Fólki langar til að gefa mér smápeninga eða klappa mér á kollinn. Þessu svara ég hinsvegar með urri og tilraun til að bíta viðkomandi. Síðan hleyp ég út í horn á fjórum fótum og híri.

Þótt furðulegt megi virðast hefur þetta kast, sem og hið þriggja mánaða kvef sem leitt hefur upp að þessu, sannfært mig um að ég bara geti ekki búið á Íslandi það sem eftir er ævi minnar. Hvar sem er annarsstaðar, þar sem er hlýtt og enginn framsóknarflokkur.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Fyrir alla sem séð hafa Star Wars

The Backstroke of the West.

Látið myndirnar loadast og lesið niður.

miðvikudagur, mars 21, 2007

Skömm

Ég hefi ákveðið að segja viðurstyggilega sögu af mér í tilefni margra mánaða langra veikinda minna. Ef hún veldur hjá lesandanum óbjóð og ógleði, býð ég honum að spýja úr sér magasýrum ofan í næsta kar og því næst varpa í þind mína spjóti.

Eitt sinn sat ég í þýskutíma, um hávetur, og ég, eins og flestir í kring um mig, var fárveikur. Við erum í hinu stórfenglega lestrarhefti Keine Panik. Ég hlusta dauflega. Sit einn, margir veikir.

Frá útvarpinu æpir Nina, aðalpersóna hins magnaða ævintýris, Keine Panik, á systur sína. Hún er að fara á geðveikt deit með 'dem Taxifahrradfahrer.' Í lágdeyfð minni finn ég skyndilega fyrir árás hnerrans koma, hraðar en ég fæ honum stjórnað.

En það skyldi þó ekki vera! Hnerri þessi þeytir, án nokkurrar stjórnunar, geypilegri slettu af fagurgrænu nefslími ofan á Keine Panik heftið mitt.

Ég stari, furðu lostinn, í sjokki, án þennan verknað, í svosem tíu sekúndur. Blaðsíðan var gegnsósa. Hugur minn var fullur af upphrópunum, svo sem 'Hvur djöfullinn! Ég er viðurstyggð! Ég kýs dauðann frekar en aðra sekúndu af lifnaði eftir þessa óför!'

Já, staðan var desperat. Ég leit til hliðar við mig, hægt. En heppnin var með mér. Enginn virðist hafa séð þennan voveiflega atburð. Ráðgaðist ég þá með sjálfum mér. Við þessu var aðeins ein lausn.

Ég tók Keine Panik heftið varlega upp og hagaði því svo, að hin nefflædda hlið sæist sem minnst. Svo stóð ég upp og gekk löngun skrefum að hurð stofunnar á leið á klósettið. Kennarinn, Kristín okkar Kötterheinrich, sá þessa för mína.

'Hvert ertu að fara, Þorsteinn?'

'Á klósettið.'

'Og ætlarðu að taka Keine Panik með þér!?'

'Sannarlega,' brosti ég, skellti aftur hurðinni, og var endalega... borgið.

föstudagur, mars 09, 2007

Hinn aldni boðberi fréttanna hefur brugðist mér hrapallega

Ég veit ekki hvort ég sé einn um þetta, en það er ný ritstjórnarstefna við lýði á morgunblaðinu sem er farin að ganga fram af mér. Það versta er að ég í raun get ekki kvartað, ég þori því ekki, því þeir ganga fram af mér í slíkum málum að mér leyfist ekki að mótmæla þessu samkvæmt þeim gildum sem er haldið uppi í samfélagi dagsins í dag. Það er líka án vafa svona sem þeir hjá mogganum hugsa þetta.

Þetta er nefnilega hinar fáránlega grófu fréttir af nauðgunum og misnotkun á börnum.

Í samfélagi samtímans höfum við séð allt. Öll tabú eru að falla eins og spilaborgir og BDSM og opinber nekt eru einfaldlega viðteknir hlutir og maður er nú frekar bara einhver lúði ef maður klæðist ekki leðri endrum og eins og kallar sig Abob í æstum kynlífsleik við rostung. Þetta hefur í för með sér að það er ekkert sem sjokkerar og ekkert sem kallar virkilega fram viðbrögð hjá fréttaneytendum í dag.

Þegar ég blaða í gegnum moggann er afar fátt sem ég stoppa við og les, það eru bara fyrirsagnirnar og svo er flett. Svifryk er ekki að vekja áhuga minn og mér er, eins og sagt er, fokksama um Baugsmálið. En þá demba þeir á mann frétt: Einhver afi einhversstaðar hefur verið sakfelldur fyrir að nauðga barnabarni sínu sem er tólf ára. Þetta nær augunum og maður les af einhverri ástæðu áfram í gegnum mjög nákvæma lýsingu á atferli þessa manns gagnvart þessari stúlku. Þið kannist kannski við fréttina.

Þetta er algjörlega sjúkt. Svona viðburðir gerast og hafa alltaf gerst. Í hundruðir ára höfum við verið bændadurgaþjóð sem stundaði kaup-og sölu hjónabönd, að sjálfsögðu hefur verið bölvaður pervertismi hér alla tíð. Menn hafa legið með dætrum, rollum, húsdýrum af öllum gerðum, hinum ýmsu fulltrúum plönturíkisins og fleiru. En það er fyrst núna sem menn þora að nota þessa sorglegu staðreynd og færa beint fram í dagsljósið til þess eins að fá einhver neytendaviðbrögð.

Ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég vil aldrei nokkurn tíman aftur heyra minnst á leggöng tólf ára stúlku í grein í mogganum. Fjandinn hafi það, þetta er ógeðfellt og ég skammast mín fyrir það eitt að vera að skrifa þetta hér og birta opinberlega. Sumt er bara ágætt að sé tabú því það kemur bara fokking engum við. Hver er bættur fyrir þessa frétt? Ég er verri fyrir að hafa lesið hana og það sama gildir um fórnarlambið og sökudólginn.

En brátt mun þetta líða hjá og þetta fer að verða daglegt brauð. Þá mun mogginn leggjast útaf og fríblöð munu standa eftir, þá orðin 90% auglýsingar, og þessar fréttir allar um nauðganir. Fólki mun þykja það jafn sjálfsagður hlutur og hryðjuverk í Írak eða sjálfsmorðsárás á Gaza. Fokksama. Þá fyrst mun þetta verða vandamál.

En hvað er þá hið rétta í þessu máli? Að vita ekkert um þetta? Að vita allt um þetta? Að vera algjörlega sama? Ég get svei mér ekki svarað þessu, en fyrsti möguleikinn hljómar ágætlega þessa stundina. 'Tilfinningaklám', þetta er gott orð. Það er allt, allt gert til að kreista smávegis tilfinningu út úr okkar svörtu sálum, raunveruleikasjónvarp og kastljósið er eins, mogginn og barnaklám á netinu.

Það má segja að þetta sé allt birtingarmynd þess sem neytendur kalla á, framboð og eftirspurn. Ef svo er get ég sannarlega sagt að mig dauðlangar til að vera eitthvað annað en manneskja.

Kannski kettlingur.

sunnudagur, mars 04, 2007

El Laberinto del Fauno

mundi vera frábær mynd sem mér tókst loksins að sjá. Vel má meðmæla og hæla.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Gott er að enda á Yeats

  • Si haberem vestes auratas,
    Factas ex luce aurata ac argentea,
    vestes caeruleas ac atras ac obscuras
    Noctis ac lucis ac aurorae,
    Tenderem sub tuos pedes vestes:
    Ego autem pauper modo mea habeo somnia,
    Tetendi mea sub tuos pedes somnia;
    I leviter , nam super somnia mea is.