föstudagur, mars 12, 2010

Þjóðsöngur

Þjóðverjar hafa þessa miklu byrði að þurfa bæði að skammast sín og samt vera stoltir, innan skynsamra marka, af því að vera Þjóðverjar, og þar kemur upp vesenið með þjóðsönginn. Orðin "Deutschland Deutschland über alles" eru orðin fræg, og ekki af góðu: Þetta eru talin nasísk orð, og vissulega eru það, en aðeins í anda: þetta vers var einnig þjóðsöngur Weimar-lýðveldisins frjálslynda sem nasistar byltu, og nasistarnir sjálfir kusu frekar hið hörmulega Horst-Wessel-Lied sem þjóðsöng eigin ríkis.

Þjóðverjar dagsins í dag nota því ekki fyrsta erindið sem inniheldur þessa línu "Deutschland Deutschland über alles", heldur aðeins það þriðja, sem er fremur saklaust og snýst bara um hin steingeldu hugtök "Einigkeit und Recht und Freiheit" (einingu, réttlæti og frelsi). Það að hafa eins vers þjóðsöng er eilítið sorglegt, og einnig dálítið táknrænt fyrir þjóð sem veit ekki alveg hvar hún stendur á þessu þjóðarstoltsmáli öllu.

En hvað nákvæmlega er nasískara við "Deutschland über alles" en "Íslands þúsund ár" (Nasistaþýskaland átti einmitt að endast í þúsund ár, "das tausend-jährige Reich") eða "L'étendard sanglant est levé" úr franska þjóðsöngnum (hinn blóðugi fáni hefur verið reistur), annað en bara sagan? Eru ekki allir þjóðsöngvar raunar nasískir?

A.m.k. að mínu mati er svarið augljóslega já. Til er hinsvegar alternatív: Bertold Brecht skrifaði aðra útgáfu af þýska þjóðsöngnum, sem mér finnst eiginlega alveg stórkostleg lausn á þessum hnút; eitthvað sem er ekkert nasískt og ekkert þjóðrembulegt, en samt eitthvað sem vekur upp stolt og einingu - og er að sjálfsögðu ekki þjóðsöngur dagsins í dag:

Anmut sparet nicht noch Mühe
Leidenschaft nicht noch Verstand
Dass ein gutes Deutschland blühe
Wie ein andres gutes Land.

Dass die Völker nicht erbleichen
Wie vor einer Räuberin
Sondern ihre Hände reichen
Uns wie andern Völkern hin.

Und nicht über und nicht unter
Andern Völkern wolln wir sein
Von der See bis zu den Alpen
Von der Oder bis zum Rhein.

Und weil wir dies Land verbessern
Lieben und beschirmen wir's
Und das Liebste mag's uns scheinen
So wie anderen Völkern ihr's.

-- (slöpp snörun)

Þokka ei sparið né strit
ástríðu né skilning
svo gott Þýskaland megi blómstra
sem önnur góð lönd.

Svo þjóðir ei fölni
sem frammi fyrir þjófi
heldur rétti okkur hönd sína
sem annarri þjóð.

Vér öðrum þjóðum ofar
né neðar viljum vera,
allt frá Ölpunum til sjávar
frá Oder til Rínar.

Og því við bætum þetta land
þá elskum við það og hlífum því,
og hið kærasta vill það oss virðast,
sem öðrum þjóðum eigið land.

föstudagur, mars 05, 2010

Aflandsey

Tortóla, uppáhaldsorð allra, hefur mér lengi verið hugleikið. Ég vona að ég geti flutt frumlegri pistil um hana en hinir fjögur þúsund bloggararnir - plís, gefið mér séns.

Tortóla er smáeyja, með 23.000 manna íbúafjölda, partur af Bresku Jómfrúreyjunum. Þær eru allar með tölu þekktar sem svokölluð skattaskjól, en Tortóla hefur af einhverjum ástæðum fengið þessa sérstöku merkingu fyrir Íslendingum sem eyja alls ills. Þar, segir fólk, eru nefnilega peningarnir. Stundum fær maður það á tilfinninguna að þeir séu hreinlega einhversstaðar grafnir í hinn suðræna sand eyjarinnar - fólk sér þetta greinilega fyrir sér sem Kanaríeyju, enda eru þær einu aðrar eyjarnar sem Íslendingar þekkja - og það sé bara einfalt mál að skreppa þangað og ná í þá (og það að það hafi ekki verið gert er víst merki um landráð ríkisstjórnarinnar). Sumir, sem tala aðeins alvarlegar, vilja þó meina að þeir séu þar í bönkum frekar en ofan í jörðinni, en sama hugmynd blívar: Förum til Tortóla og náum í peningana okkar! Ekki seinna en í gær!

Tortóla hefur því fengið á sig symbólíska merkingu: því eyjan er tákn alls ó-íslensks og ills. Því þar ku vera hiti, sandur, töluð enska, pálmatré og landlæg spilling, þ.e.a.s. bara svona andi yfir eyjunni sem veldur því að allt sem þaðan kemur er illt (ég held að fremur illskulegt nafnið spili hér inn í.) Enda er það þessi eyja sem útrásarvíkingarnir eru kenndir við: þeir eiga að hafa dvalið þar langdvölum og þar náð í spillinguna eins og kynsjúkdóm. Ennfremur: þeir eru þar núna (þetta eru allt beinar tilvitnanir í íslenskan netheim), með kokkteil sér við hönd og peningana okkar, að lifa góða lífinu og hlæja að þjóðinni. Þeir eru, í stuttu máli sagt, ekki lengur Íslendingar, heldur Tortælingar - karabísk illmenni, útlendingar, sjóræningjar, hundtyrkir!

Allt byggist þetta á því að "peningarnir okkar" séu s.s. þar geymdir. En lítum á.

Tortóla er vissulega það sem kallast skattaskjól eða aflandseyja. Það sem það þýðir fyrir Íslendingum er: þar eru vondir bankar fullir af illa fengnu fé, stolnu af saklausu fólki sem þeir ginntu með djöflabrögðum. En raunveruleikinn er: það er varla stakur banki á Tortóla. Ef einhver er, þá er það banki heimamanna, þessara 23.000. Það sem er á Tortóla og gerir eyjuna svona vinsæla fyrir alþjóðlegan viðskiptaheim er allt annað: nefnilega afar ónákvæm reglugerð um hvernig skal stofna fyrirtæki. Á Tortóla getur maður beisíkallí, skilst mér, sent bréf til einhverrar ríkisskrifstofu þar þar sem stendur: ég ætla að stofna fyrirtækið Völsungur Holdings, undirritað Jón Jónsson - og þar með er það fyrirtæki til: Engir vottar, ekkert tékk, og nær engir skattar.

Þetta nýttu Íslendingar sér óspart. En peningar þessara "fyrirtækja" voru alls ekki á eyjunni. Nei, þessi félög, þessi "fyrirtæki" áttu nefnilega bankareikninga sína á öðrum og verri stöðum - stöðum þar sem eftirlit með bankareikningum var ekkert, þar sem fjölskyldutengsl og klíkuskapur eru ríkisstjórnin í hnotskurn og þar sem fólki var skítsama um allt sem viðskiptaenglar sínir tóku sér fyrir hendur. Þar sem allir braskarar voru óskabörn þjóðarinnar. Tvö lönd: Annarsvegar Lúxemborg, og svo Ísland.

Þetta er það sem mér finnst að þurfi að koma fram. Öll þessi lýsing á Tortóla, sem íslenskir bloggarar taka sér svo sterklega í munn, er raunverulega lýsing á okkar eigin fokking landi. Það er hér sem er landlæg spilling og fólki er alveg sama. Það er hér sem peningabraskarar eru álitnir hetjur. Það er hér sem þeir eiga fjölmiðla. Það er hér sem þeir eiga stjórnmálaflokka. Það er hér sem þeir lifa í lystisemdum á 101 hótel með kokkteila og pólska þjóna.

Fjandinn hafi það! Tortóla er Ísland og Ísland er Tortóla, getum við fengið það á hreint!?

Þessi tilraun til að frelsa Ísland og gera Tortólu seka finnst mér afar lýsandi fyrir eftir-byltingar-tíðarandann. Fólk er svo ótrúlega langt frá því að geta viðurkennt það sem augljóst er: Útrásarvíkingarnir voru engir "illir útlendingar". Þeir eru heimabakað vandamál, þeir voru og eru enn óskabörn þjóðarinnar. Við vildum þá, við sköpuðum þá, við eigum þá enn, þeir eru hvergi farnir né erum við saklaus af þeim. Það að þvo hendur okkar af þeim krefst endurskrifunar á sannleikanum. Á hinu nýja Íslandi eru þeir "hættir" að vera óskabörn þjóðarinnar út af einni ástæðu og einni einungis: Þeim mistókst. Þeir voru frábærir árið 2007, en árið 2009 voru þeir vondir: því þeir höfðu farið á hausinn. Óskabörn þjóðarinnar gætu ekki farið á hausinn. Það geta hinsvegar framandi Tortælingar auðveldlega gert - því sjá, þeir voru bara afætur, þeir voru að blekkja okkur allan tímann, þeir voru aldrei neinir Íslendingar. Þeirra tap er ekki alvöru tap - það er stuldur, fjárnám til Tortóla.

Notkunin á Tortóla til þess að hreinsa mannorð Íslands finnst mér óheiðarleg og meira en lítið geðsýkisleg. Það mun aldrei nokkuð batna hér á þessu landi ef fólk getur ekki viðurkennt að hér - og ekki bara hafi verið - eitthvað mikið að. Og reynt að laga þetta, á annan hátt en þann að reyna bara aftur að verða "alþjóðleg viðskiptamiðstöð", og takast það í þetta sinn.

Ég hef ekki aðgang að íslenskum kvikmyndum héðan en ég hef heyrt mikið um kvikmyndina Maybe I Should Have. Eftir því sem ég hef lesið um þá mynd þá er hún annarsvegar á ákveðinn hátt að eyðileggja bloggmýturnar: Hann fer til Tortóla og finnur engan Íslending, hann heimsækir breska skattgreiðendur sem Íslendingar höfðu rænt, en Íslendingum finnst gaman að mála sig sem einu fórnarlömb hrunsins. En! Svo heyrði ég einnig um lokaatriði myndarinnar, þar sem mér skilst að að undangengnum ættjarðarsöng út í íslenskri náttúru úr digrum karlbörkum gangi fjallkonan inn í ramma og byrji að spila harmrænt á fiðlu. Áhorfendur fara snarlega að gráta syndaaflausnartárum, og ganga út dæsandi, Ó! Ég er svo stoltur af því að vera Íslendingur.

Hér er eitthvað að. Þetta einfaldlega fokking gengur ekki. Skilaboðin eru: Þetta er ekki alvöru Íslandi að kenna. Alvöru Ísland spilar bara á fiðlu og er sjarmerandi úti í náttúrunni - Sigur Rós-þjóðin, meydómsþjóð, saklaus, köld og fögur. Er einhver sem gengur út úr bíóinu með þessa þægilegu tilfinningu í maganum að fara að breyta einhverju til hins betra - að viðurkenna að Ísland Tortóla, með samþykki eigin þegna?

Eins og er bent á í þessari grein, þá þarf þetta nefnilega að breytast og það sem fyrst ef ungt fólk á að haldast við á Íslandi... ef einhver áhugi er raunverulega til fyrir því, annar en sá að brátt kynni að fara að skorta ungar, fallegar, ljóshærðar og meyjarlegar fjallkonur fyrir næstu léttfasísku kreppuklámmynd...

Rúnkefni fyrir Tortælinga þessa lands.