miðvikudagur, september 21, 2005

Déjà vu

Ég var að fara í gegnum My Documents fólderið fyrir tilviljun, og rakst á ritgerð úr tíunda bekk, þar sem við áttum að fjalla um umræðuefnið 'Margt af því sem mikilvægt er að læra verður ekki lært af bókum'. Þessi ritgerð var að mestu leiti leirburður og kjaftæði, en lok hennar eru ansi sniðug, finnst mér. Skrifað áður en stafsetningarfasismi þriðja bekkjar MR fór í gang, svo hér leynast örugglega villur, vitsmunalegar og málfræðilegar.


Til dæmis um kenningar mínar get ég nefnt ungan og ráðvilltan dreng sem veit ekki fyrir lifandis muni hvað hann ætti að gera við sokkinn sem nú hefur komið gat á. Við köllum hann 'Bóbó.' Þessi sokkur veldur Bóbó hugarangri miklu og hann vill vita lausnina á þessu dæmi. Hvað skal til bragðs taka? Drengurinn lítur í bókasafnið, enda er bók betri en kók eins og foreldrar hans hafa kennt honum, og leitar dyrum og dyngjum að bókum sem fjalla um sokka. Hann finnur nokkrar nútímaskáldsögur eins og 'Sokkurinn og kaffikannan Gunnar í teboði kardinálans af Grettisbæ' og nokkrar í unglingahillunni sem bera gríðarlega gáfulega titla á við 'Sokkurinn eða smokkurinn?'eða 'Sokkar og jónur, melur!', hann fann meira að segja hina sjaldgæfu 'Sokkur er fótarfari' eftir hinn byltingarsinnaða Tsjokkovskí, en ekkert sem sagði honum um hvað ætti að gera við götótta sokka.

Niðurbrotinn og sneyptur gengur hann heim og segir föður sínum og móður að hann hafi ekki getað fundið svar við þessu í neinni bók, er allt sem þau hafa sagt honum lygi? Er kók betra en bók? En nei, foreldrar hans segja að margt verður ekki lært af bókum, og segja honum að fleygja sokknum götótta í ruslatunnuna! Og sjá, Bóbó gerir svo, og sokkavandamál hans er leyst, og sannreynt varð að kók er betra en bók.