laugardagur, ágúst 13, 2011

Litlu neytendurnir í London

Nú hef ég fylgst með fréttunum frá London undanfarið. Svona óeirðir eru nú svosem ekkert nýtt og þetta fylgir að ýmsu leiti nákvæmlega uppskriftinni: lögregluórétti sem kveikir í kraumandi óánægju undir niðri meðal lægri stétta. En það merkilega er að hér er eitthvað sem brýtur sig frá munstrinu og gerir það miklu erfiðara að beina fingrum eða krefjast einhverra breytinga til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig. Í óeirðunum í Los Angeles (eftir því sem ég les) eða Brixton eða hvar sem þær nú urðu finnst manni einhvernveginn orsökin í einhverjum takti við afleiðingarnar. Það virðist hinsvegar blasa við nú að svo er ekki. 100 manns í Tottenham safnast friðsamlega fyrir framan lögreglustöð og biðja um svör - klukkutíma síðar er hverfið farið að brenna, daginn eftir helmingur London, og loks er England allt orðið að hættusvæði. Hvernig í ósköpunum gat eitt leitt af öðru?

Vinstrimenn hafa hingað til getað tekið svona óeirðir og hampað grunnmálstað þeirra - baráttu gegn lögregluóréttinu, rasismanum, fátæktinni. Þeir hafa hingað til haft umboð til að tala fyrir hönd þeirra sem verða fyrir ríkisofbeldi. En það sérstaka í dag er, held ég, að þetta hefur ekkert með vinstri að gera, og það er ansi magnað að fylgjast með því hve ráðvilltir hinir hefðbundu talsmenn hinna vinnandi stéttra eru - þeir virðast varla koma upp einu skynsömu orði, allt er í getgátum og litað af maybe og perhaps.

Því það sem óeirðirnar snúast um er ofar öllu öðru eignanám. Og ekki á framleiðslutækjunum, ekki á brauði eða smjöri alþýðunnar, heldur strigaskóm og flatskjám - heldur á því sem er auglýst í sjónvarpinu sem nauðsynjavörur okkar tíma. Marx virðist ekki hafa svar við þessu. Þetta er einfaldlega ekki vinstrihegðun, heldur einmitt andstæðan.

Það er nefnilega grunnspeki innan kapítalismans að neytendur fylgja hagsmunum sínum og þeim eingöngu. Menn fylgja lögum ekki því þannig farnast samfélaginu best - samfélagið er hvort sem er ekki til, eins og Thatcher sagði - heldur því annars eru meiri líkur en minni að það myndi fá refsingu sem gerði það að útlögum, hefði neikvæð áhrif á lífsgæði þess frekar en jákvæð. Þegar lögleysi brýst út, þegar samfélagssáttmálinn brestur, þá skyndilega hafa lögbrot engar afleiðingar lengur - eða allavega verða afleiðingar miklu ólíklegri. Þegar allir gera það er það ekki glæpur.

Það er því fullkomlega röklegur kapítalismi að brjótast inn í Argos og ræna sér flatskjá ef mann langar í flatskjá, frekar en að kaupa hann - svo lengi sem afleiðingarnar eru ekki líklegar til að verða neikvæðar fyrir mann sjálfan. Áhrifin á samfélagið skipta engu. Og þegar þú hefur náð þér í þinn flatskjá þá skiptir heldur engu hvort þú brennir búðina til grunna - það dregur ekki úr þínum lífsgæðum; þú átt þegar allt sem þú vilt úr þessari tilteknu verslun. Og það er gaman að fá útrás - þess vegna erum við háð tölvuleikjum þar sem maður fær að gera nákvæmlega þetta.

Ég held að það sé augljóst að fátækt fólk í London, eða a.m.k. fátæk ungmenni, upplifir ekki lengur neina einustu tengingu við sósíalisma eða vinstri eða hugmyndir um samstöðu hinna vinnandi stétta. Áróður hægrimanna, í gegn um fjölmiðla og auglýsingar, er hinsvegar alltumlykjandi og ég sé ekki betur en að þessi hegðun á götum London sé rökrétt afleiðing af honum. Ég man að eftir að skjálftinn varð í Japan undruðust vestrænir miðlar það mjög hve lítið bar á eignanámi - þeir sáu það greinilega, réttilega, að ef þetta gerðist á Vesturlöndum yrðu fáar búðir eftir standandi. En kannski hefur hugmyndafræðilega þróunin þar orðið önnur og betri hvað varðar upplifun fólks á því að tilheyra samfélagi.