þriðjudagur, janúar 27, 2009

Slappasta 'bylting' heimssögunnar

Einungis þeir sem hafa horft til falls ríkisstjórnarinnar með hestlegri einbeitni og þröngsýni geta hugsanlega fagnað nú.

Samfylkingin hefur nú farið í gegn um stórkostlegasta hvítþvott Íslandssögunnar. Þetta var víst aaaaaaaaallt Sjálfstæðismönnum að kenna. Samfylkingin var valdalaust leikfang í hrjúfum höndum auðvaldsins, en hefur nú risið, líkt og fönix, úr öskustónni til að koma bleikum einhyrningum hins góða að valdastólum samfélagsins.

Fokk jú er allt sem ég get sagt við þessu. Fokk Samfó, fokk VG, fokk Framsókn, fokk Sjálfstæðisflokkur, fokk it oll.

Þetta er fyrsta athöfnin í þriggja mánaða komandi kosningabaráttu. Miðað við hversu ótrúlega illa úthugsað þetta fyrsta útspil var, má vænta enn verri hluta á komandi mánuðum.

Ennfremur hafa mótmælendur vanist valdi sínu. Komandi örseturíkisstjórn situr í þeirra náð og mun gera allt til þess að koma í veg fyrir að styggja þá - og frekar reyna að spreða í þá til að öðlast þeirra atkvæði þegar loksins að lýðræðislegum kosningum kemur.

Vitið til - þetta þriggja mánaða stjórnartímabil mun verða ein stór kosningaauglýsing. Það mundi ekki koma mér á óvart að fyrsta tilskipun stjórnarinnar verði þess efnis að mánuðirnir fram að kosningum verði allir almennir frídagar... kannski kaupir ríkisstjórnin Coldplay til landsins, Íslendingum að kostnaðarlausu! (Fyrst þá mundi ég byrja að kasta eggjum.)

Nú mun Seðlabankastjórnin hinsvegar rekin, þremur mánuðum fyrr en hún annars hefði verið. Það er það eina góða við þetta húllumhæ sem ég sé... og ekki er það mikils virði.

Ég skal aðeins samt hemja ýkjurnar: Ísland mun enn verða á sínum stað, enginn mun deyja eða örkumlast af þessa völdum, allt mun halda áfram sinn gang. Ég held að þessi stjórn muni ekki drekkja landinu frekar en nokkur sem áður hefur setið. En tvennt situr samt eftir:

Hið einskæra tilgangsleysi alls þessa, og sú leiða staðreynd að einhverjum skuli detta í hug að fagna því.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Nýtt land


Í mínum allfirrta hug kom það fyrst upp, þegar ég sá þessa mynd, að Arnold Schwartzenegger nýtti sér þessa byssu (með góðum árangri) í kvikmyndinni Terminator 2.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Byltingin er bjartsýni

Nú krefjast margir algerra breytinga á íslensku stjórnkerfi, og ekki að ástæðulausu.

Mér finnst þó persónulega það fremur hjákátlegt að fyrst skuli það koma til umræðu nú vegna slæmra banka, en ekki vegna margs annars verra sem undan hefur gengið, en jæja, látum það liggja milli hluta.

Mér þykir stundum að hvatningarmenn þessarar byltingar lifi ekki á sama landi og ég. Ég tel mig búa á Íslandi. Þeir hinsvegar þykja mér búa í töfralandinu Narníu.

Í töfralandi Narníu mun regnbogagaldrakraftur skógardýranna hrekja brott (en ekki meiða!) míníónir hins illa Gákrills, seiðmanns yfir Horodíu, og mun þá einhyrningakonungurinn Beveus endurheimta konungstign sína, er rænt var af honum af svikaranum Gíólusi afhyrnta.

Synir Beveusar, krónprinsarnir Akel og Jút langhorna, svífa inn í bankana með þöktum vængjum (og verða þeir strax að gullhöllum!) Litlu skógardýrin koma úr hellum sínum og fagna með dansi og söng í kring um varðelda til varnar vetrinum, sem er að hverfa.

Í raunveruleikanum snýst þessi byltingarvon um það að í næstu kosningum munu koma fram ný framboð sem svo þurfa að ná hreinum meirihluta á þingi. Það mundi svo neyða hina flokkana til að breytast og nýja stjórnin gæti á meðan breytt stjórnarskránni á 'byltingarkenndan' hátt.

Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvort mótmælendur séu að miða að því að leysa þetta mál á Íslandi yfirleitt? Mér sýnist þeir einmitt staðsettir í miðri Narníu, og blindaðir af þeirri hugsýn, sjá þeir engan veginn hvað þeir eru að gera við eigið fæðingarland.

mánudagur, janúar 19, 2009

Ég monta mig mörgum tungum

Ég tala íslensku,
I speak English,
Jeg snakker dansk,
Ich spreche Deutsch,
Loquor latine,
Ελληνíζω,
Я говорю по-русски,
Je parle français,
Parlo italiano.

Ég vil svo geta sagt þetta á sanskrít og spænsku og þá verð ég sáttur.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Bölvuð sé kynhvötin

Ég hefði verið fokking ÆÐISLEGUR castrato.

sunnudagur, janúar 11, 2009

Hér er engin hætta á ferð, róið ykkur

Nú kl. 03:05 get ég ekki annað en velt því fyrir mér

1) hversu afburða leiðingleg tilvera mín er

2) hversu gersamlega það er mér að kenna.

foux!

sunnudagur, janúar 04, 2009

Pæling um hagvöxt

Eins og margir hef ég verið að velta því fyrir mér hvað það í rauninni er sem hefur rænt svo marga Íslendinga geðheilsunni á síðustu mánuðum. Reglur samfélagsins um hvað er í lagi og hvað ekki eru á fleygiferð fram og til baka - það er t.d. ekki lögbrot lengur að hóta lífláti eða eyðileggja eigur annarra, ef bara nógu margir standa manni að baki eða í kring um mann. Þetta er það sem kallast múgræði eða ochlokratía upp á grísku.

Hvað í fjáranum veldur? Fólk hefur alltaf haft þetta úrræði á valdi sínu og hefur einnig alltaf vitað að svo sé. Það nagar mig hinsvegar að í sögunni og í listunum hefur ávallt verið einhver afar, afar góð ástæða fyrir svona hræringum; óréttlátt stríð, fasísk stjórnvöld. Ástæða sem ég sé ekki að sé til staðar nú.

Mögulegar réttlætingar eru líklega einhverjar af eftirfarandi:

Skuldir fólks hafa aukist gífurlega og orðið því næst eða algjörlega óyfirstíganlegar; þetta veldur óstjórnlegri reiði. Hér kemur tough love svar til ímyndaðs grímumanns: Það var enginn sem neyddi þig til að taka lán. Og hana nú. Það var þín eigin ákvörðun og er á þinni eigin ábyrgð. Kannski er þægilegt að kenna öðru, skyndilega al-illu fólki um, en það gefur alls ekki ástæðu til svona ofsafenginna viðbragða.

Sjokkið að fara úr því að vera súperríkasta og bestasta þjóð heims í að verða stór mistök er svo mikið að úr hlýtur að koma óreiða. Já, veistu, get over it. Það er án vafa það jákvæðasta við allt þetta húllumhæ að álit Íslendinga á sjálfum sér skuli fara minnkandi. Það var orðið svo stórkostlega uppblásið að, svo að ég vitni í félaga minn, það hálfa væri nóg fyrir tvo.

Ríkisstjórnin sýnir af sér þvílíkan hroka í að neita að reka neinn, að til örþrifaráða, svo sem ofbeldis, verður að koma. Þessi ríkisstjórn var ein sú vinsælasta í sögu íslenska lýðveldisins einni klukkustund áður en þetta fór af stað. Klukkustund síðar ein sú óvinsælasta. Vissulega er eins og að þetta hafi gerst of hratt fyrir hana og það er erfitt að skilja að þeir skuli ekki hafa rekið eitthvað fólk til að sefa lýðinn - þótt það mundi, eins og ég hef áður básúnað, ekki laga þetta neitt.

Reyndar mun ekkert bara "laga" þetta. Meðal þeirra sem yfirleitt leita að leiðum til þess hafa komið upp ýmsar svokallaðar patentlausnir sem allar eiga að svínvirka og endurreisa forna frægð landsins. Fæstar meika nokkurn sens. Nokkrar vinsælar ætla ég að telja upp: endurnýja flokkakerfið; bylta ríkisstjórninni; mynda þjóðstjórn; ganga í ESB; taka upp Evru einhliða; stækka kvótann; neita að borga; reisa álver; afskrifa skuldir; taka upp norska krónu.

Öllu er stungið upp á, nema því sem nú er að gerast, þ.e.a.s. að taka allt á ríkissjóð og borga þá skuld upp yfir tíma.

Ég held að hugmyndafræðilega deilan snúist að afar miklu leiti um einfaldlega hvort ofangreind lausn sé eitthvað röng. Að mínu mati er hún a.m.k. miklu, miklu skárri heldur en öll hin vitleysan. Lítum á:

Ríkisskuldalausnin er ljót, langdregin, niðurlægjandi og lyktar af uppgjöf (en er reyndar ekki nærri því jafn slæm og ótrúlega mikið af fólki kemst upp með að halda fram.)

Hitt er einfalt, ljúft, væmið, innantómt, heimskulegt og rangt, sett fram í ótrúlegri bjartsýni sem minnir á Birtíng eftir Voltaire. Svona lausnir aðhyllast margir og skiljanlega, enda mikið huggulegri en okkar núverandi braut.

Verri er þó einn ákveðinn hópur, sem einmitt stendur helst fyrir þessu múgræði.

Í umrótinu er kominn einn flokkur fólks sem hefur misst meira vit en aðrir og er hreinlega ekki að leita að lausn yfirleitt. Þennan hóp má kalla anarkista þótt þeir kalli sig það ekki sjálfir. Þorstinn í sekt þar á bæ er svo mikill að hann er við það að drekkja allri skynsemi í umræðum hér á landi og grafa niður alla yfirvegaða breytni - þetta er fólkið sem hótar ráðamannamorðum í riti og ræðst harkalega að þeim í verki með matvörum og bareflum.

Til þess að kasta eggi í Alþingi, reisa þar Bónusfána, brenna útsendingarkapal eða að verja einhverjar slíkar gjörðir er þörf á miklum hugsunarskorti. Allt þetta táknar algjöra firringu gagnvart því hvað raunverulega skiptir máli í þessari deilu, þ.e. hvernig á að laga þessa stöðu sem við erum í.

Hvað þýðir það að kasta eggi í Alþingi í því samhengi? Eða að brenna útsendingarkapal?

Ég held að þetta fólk vilji enga lausn. Það vill einn hlut og einn hlut eingöngu: Hagvöxtinn til baka.

Eggið í Alþingi er merki um þá trú þessa fólks að Alþingi hafi tekið af því hagvöxtinn, sem sá því fyrir því lífi sem það var vant. Eggjakastið er hefndarstarfsemi fyrir að bregðast hagvextinum, fyrir að viðhalda ekki þessari sjálfsögðu þjónustu við sig: Að viðhalda hagvexti.

Já, hægt er að færa rök fyrir því að það sé hlutverk stjórnvalda. En þessi réttlæting fyrir ofbeldi - sem að mínu mati er hin raunverulega réttlæting þessa fólks - er svo veik og svo hreinlega ógeðfelld að engum frekari rökræðum verður komið að.

Sumir segja 'the end justifies the means' - að ef þetta ofbeldi fær fólk til að taka ábyrgð sé þetta fínt. Ég er ósammála. "Anarkistar" þessir eru "Gamla Ísland" - þess helstu elskendur, sem munu ekki sætta sig við neinn nýjan raunveruleika. Þeir eru tilbúnir til að gera flest við hverja þá sem þeim þóknast að kenna um, og þeir eru nógu margir til að komast upp með það. Þeir munu vera á móti stjórnvöldum svo lengi sem hagvöxtinn skortir.

Þetta fólk er nýtt og feykiöflugt pólitískt vald á Íslandi sem ég vona og bið að hverfi sem fyrst. Ídeal lausn væri að sjálfsögðu að hagvöxturinn margumtalaði sneri aftur eins og Schwarzenegger, sem mundi snarlega enda mótmælahreyfinguna eins og hún leggur sig. Það er hinsvegar ólíklegt að gerist. Mér sýnist því valið á pólitíska markaðnum í dag standa á milli nýrra geðsjúklinga annars vegar, og siðlausu hefðarinnar hins vegar.

Eitt verður að minnsta kosti sagt um þá fyrrnefndu, þeir hafa fengið mig til að styðja ríkisstjórnina í fyrsta sinn á ævi minni. Hún hefur sjaldan átt það jafn lítið skilið, en af tvennu illu...

Ég vona að hér sé fullskrifað um þetta mál. Ég vil nefnilega feginn hætta að hugsa um þetta en alltaf vakna ég upp við að landið sem ég ólst upp á hefur breyst eitthvað í skrýtnar áttir.