mánudagur, september 26, 2005

Fallegustu orðin

Hvert er fallegasta orð sem þið vitið um? Án kaldhæðni og sniðugheita, hvað er hljómfagrasta og merkingarfyllsta orð sem þið þekkið, á nokkru tungumáli?

Latneska orðið veritas [sannleikur] er klassík. Þegar á latínuna er litið er gríðarlega mikið af orðum sem virðast sindra í mikilfengleika sínum, nomen [nafn] og flumen [fljót] eru góð dæmi, og svo þau sem allir taka, rex [konungur], lux [ljós], pax [friður] og mörg fleiri, og svo persónulegt uppáhald, mens [hugur]. Þegar litið er til íslenskunnar er sögnin að sindra mjög falleg, þulur og nánd, andvari, hverfull, hvíld, selur - fleiri orð en ég get með góðu móti talið upp. Á toppinum trjónir án vafa orðið von.

Enska hefur gríðarlegt safn af stolnu gulli; symmetry, sieve, thus, syllable, membrane, poplar, pale, fire, wheel, thence, skein; sagnirnar to slay, to sear. Á þýsku: Stürm, Ordnung, Dämmerung, Kreis, Änderung - og ótal önnur orð sem ég hef aldrei lært. Danska er hinsvegar ekki falleg að neinu leiti. En sem lokasvar við ofanspurðri spurningu; oneiros [draumur], grískt orð, sem trjónir án vafa á toppinum þessa stundina.

Fleiri tillögur?