laugardagur, maí 01, 2010

Erster Mai

Það fyrsta sem ég sá í dag úti á götu var sveit af óeirðalögreglumönnum, grænklæddum, með hvíta hjálma, brynvarðir á eilítið kómískan en jafnframt einkar ógnandi máta sem minnir bæði á hokkíleikmenn og Stormtroopers úr Star Wars – arm- og legghlífar, gaskútar, þykk stígvél og hanskar úr leðri og skambyssan sem allar löggur hér bera. Þeir ganga í hálfmarseringu, hægt, til enda götunnar, þar sem ég sé reistan vegartálma og auða breiðgötuna handan við hann.

Fyrsti maí í Berlín, ólíkt sinni íslenskri hliðstæðu, er eldfimur. Á hverju ári er það nokkurn veginn víst að það muni koma til óeirða í vinstrihverfunum Kreuzberg og Neukölln, í það minnsta, ef ekki fleiri stöðum. Hverfið mitt krúttlega, Prenzlauer Berg, sleppur víst yfirleitt, enda inniheldur það aðallega barnafólk og hvíta, velmegandi útlendinga – hópar taldir seinþreyttir til að kasta sér öskrandi á þýskar lögreglukylfur. Í ár er því hinsvegar öðruvísi farið. Nýnasistar, 3.000 talsins samkvæmt áróðrinum, höfðu í ár í huga að halda göngu frá Bornholmer Straße-lestarstöðinni sögufrægu niður Schönhauser Allee – í gegn um hjarta Prenzlauer Berg og framhjá minni eigin þöglu litlu götu, Kuglerstraße.

Í Berlín eru vinstrihreyfingar mýmargar og geysivinsælar hjá ungum innfæddum, sem eru langþreyttir á því hvernig stjórnmál og menning Þýskalands, með sinn kengöfuga aldurspýramída, verða stöðugt fjarlægari og ómerkari hvað ungt fólk varðar. Slíkar hreyfingar eru að sjálfsögðu sundurleitar og passa illa saman pólitískt (umhverfisverndunarsinnar, autonomar, hústökur, marxistar, trotskýistar...), en eitt sameinar þær allar: antifa, stytting annaðhvort á hinu þýska Antifaschismus eða hinu spænska antifascista – hvernig sem því er farið, þýðir þetta and-fasismi í þeirri merkingu að ungt fólk setur á sig grímur og skipuleggur sig í sellur til að slást við aðra, nokkuð minna vinsæla unghreyfingu, nýnasistana.

Þessi hreyfing (þ.e. antifa) nýtur vinsælda og athygli sem er erfitt að ímynda sér að nokkur hreyfing eða slagorð muni nokkru sinni hafa á Íslandi. Út um alla borg eru þúsundir ofan á þúsundir antifa-plakata sem kalla eftir því að þessi eða hinn antifascista verði látinn laus úr haldi, kalla eftir mótmælum gegn þýska hernum, kalla eftir “Nazi-Free-Zone” og allt þar fram eftir götunum. Þetta eru þau plaköt sem mesta athygli vekja í Berlín – mér virðast þau miklu fleiri en tónleikaplaköt eða auglýsingaplaköt (hér er ég nota bene að tala um þá gerð plakata sem er límd á lestarstöðvar og rafbox yfirvöldum til ama), þótt það geti einfaldlega verið áhrif þess að þau plaköt sem um ræðir hafa þó nokkuð meira að segja en hin. Heilu barirnir hafa hreint og beint antifa-þema, eins og einn sem er í miklu uppáhaldi hjá vinahópnum og kallast Morgenrot (Morgunroði) hér í Prenzlauer Berg.

Áróðurinn sem gaf að lesa á Morgenrot daginn fyrir 1. maí var ansi magnaður, enda hafði nú antifa loksins eitthvað stórt að gera. Ég las þar bækling með ritstíl sem var staddur einhversstaðar mitt á milli menntaskólablaðs og gamla Þjóðviljans, nema á þýsku, sem gerði þetta enn þurrara og furðulegra. Þar var kallað eftir brottrekstri nasistasvínanna, niðurbroti kapítalismans, og baráttu fyrir lokatakmarkinu, einkar metnaðarfullu sem slíku: fagurs lífs (ein schönes Leben für alle!)

Þetta fagra líf virtist lögreglan í það minnsta ekki styðja til mikils - er maður horfði upp Schönhauser Allee var hreinlega meira en að segja það að telja lögreglubílana, og gjörsamlega ómögulegt að telja lögreglumennina. Það var bíll við bíl, flestir pakkaðir af brynvörðu fólki, eftir gervallri breiðgötunni báðum megin. Þyrlur flugu yfir, til hvers má guð einn vita. Ef maður gekk stuttan spöl upp yfir á Wisbyer Straße, þar sem risahópur mótmælenda sat gegn risahópi lögreglu, mátti sjá ýmsa hanakambaða menn með iPod-snúrur í eyrunum skyndilega fara að tala í falin munnstykki og hverfa inn í annars óathyglisverða bíla fulla af öðrum líkt klæddum og iPodduðum mönnum – þetta voru óeinkennisklæddir lögreglumenn við njósnir, eins fáránlega og eins paranoid og það kynni að hljóma. Við vegartálmann sjálfan halda löggur (í búningi) aftur af geltandi hundum með múla – sem væri nógu ógnandi út af fyrir sig ef ekki væri fyrir að lögregluhjálmarnir hafa munnstykki á sér sem er eiginlega alveg eins og hundamúlinn, og verður þetta dálítið gróteskt fyndið fyrir vikið.

Hér er rapp spilað og óþægilegt andrúmsloft yfir öllu – ein löggan ýtir mótmælanda úr vegi lögreglubíls en hrasar svo sjálfur við á konu með barn á hjóli. Konan nær að halda jafnvægi en bregst sármóðguð við, og mótmælandinn byrjar fúríus að munnhöggvast. Lögreglan byrstir sig til baka, “hab’ ich das gewollt, wa’!?” (var ég að reyna þetta, eða!?) Svona hlutir geta breyst í algjört rugl mjög fljótt, og þar að auki sá ég ekkert handan við vegartálmann vegna bílaskarans, svo ég hvarf aftur yfir á rólegheitin á Kuglerstraße, þar sem ég taldi mig munu geta séð hlutina betur.

Þar standa aðeins um fimm lögreglumenn af minnst brynvörðu sortinni, og hafa það aðallega að djobbi að útskýra fyrir pirruðum Berlínarbúum að umferðaræðin þeirra sé í dag einfaldlega lokuð. Þarna er ein eldri lögga með yfirvaraskegg sem er að brillera í PR-hlutverkinu, segir brandara og talar rólyndið inn í hópinn sem stendur og horfir út yfir auða götuna, flest eldra fólk. Ein lögreglukona stendur þarna og er með hjálminn á sér, og ég tek eftir því hvernig þessi ómennska sem yfirleitt kemur yfir fólk sem hylur andlit sitt og er í einkennisbúningi virkar ekki almennilega í hennar tilfelli, því í gegn um hjálminn sér maður að hún er með augnskugga og vandlega plokkaðar augabrýr; hluti sem maður tengir ekki við hina ómennsku valdstjórn.

Við stöndum og bíðum, eilítið fliss kemur upp í hópnum er lögreglukonan segir einum kollega sínum að ef hann ætli á klóið ætti hann að fara núna, og sest svo niður á steintyppi með fernu af einhverju sem mér fannst líkjast kókómjólk. En svo leit ég af tilviljun við og sá að það var fólk á leiðinni – svartklæddur massi af fólki. Löggurnar taka hægt og rólega eftir þessu og biðja okkur um að færa okkur upp gegn húsveggjunum, nokkuð sem maður er eiginlega ekkert að fara að tefja þegar massi fólks tekur á rás, rekur upp heröskur og hleypur eins og fætur toga í átt að vegartálmanum. Ég man eftir því að hafa séð gömlu lögguna slá út kylfuna í fulla lengd áður en massinn helltist á girðinguna - einn tók langstökk yfir og ofan á löggu sem þeyttist í götuna, og svo hvarf allt í mergðinni.

Nokkrum sekúndum síðar man ég það fyrst að einn antifascista hleypur grátandi á móti mér og biður um Wasser, eftir piparúðasprey í framan. Á meðan einhver sturtar því í augun á honum hann byrjar hópurinn að hörfa aftar undan liðsauka af óeirðalögreglu sem loksins er hlaupinn til. Er gatan hægt og hægt tæmist og verður hljóð aftur taka vegartálmalöggurnar sér sömu stöðu og áður, slíðra kylfurnar og standa þarna, einkar tens eftir þessa litlu einnar-mínútu-árás. Innan skamms ganga tvær löggur sem höfðu elt hópinn niður Kuglerstraße til með einn úr honum lúpulegan á milli sín og fara með hann yfir vegartálmana, til handtöku.

Enn ekki alveg búinn að ná að taka þetta inn rölti ég aftur yfir á stóru samkomuna á Wisbyer Straße, og rekst á leiðinni á fyrrnefndan hóp, sem nú er á leiðinni aftur inn á Kuglerstraße en beygir í þetta sinn í hina áttina, frá vegartálmanum. Hann ætlar sér líklega gegn einhverjum öðrum tálma neðar við Schönhauser Allee. Hann hleypur áleiðis í marseringartakti, þ.e. allir svona hálfhlaupa með staðföstum fótatökum, og kyrja allir taktfast það sem mér heyrðist vera “a-le-lu-a – ant-i-fa-sci-sta!” Allir eru ennfremur í svona ófullkomnum einkennisbúningi; svartklæddir, með sólgleraugu, hettur og svarta, rauða og hvíta (þótt ótrúlegt megi virðast) antifa-fána á peysunum sínum. Ég var mjög feginn að þau skulu hafa verið að stefna í átt frá heimkynnum mínum, eins borgaralega og það kynni að hljóma.

Eftir þetta gerðist fátt markvert. Ég beið og beið eftir nýnasistunum eins og allir, en þeir ætluðu ekkert að láta sjá sig. Eftir þrjá tíma gafst ég upp og fór niður í Kreuzberg að virða fyrir mér húllumhæið þar, sem er alls ekki í jafn miklar frásögur færandi. En það merkilegasta fannst mér samt eftirfarandi:

Í það fyrsta, hvernig þarna var ýtt saman þessum þremur hópum: nýnasistum, andfasistum, og óeirðalögreglunni, sem eiga í rauninni svo margt sameiginlegt: notkun á skipulögðu ofbeldi, hernaðarlega tilburði, einkennisbúninga, þennan skort á virðingu fyrir skoðunum annarra utan þeirra hóps.

Í það annað, hvernig í fjarveru nýnasistanna gátu þeir sem komu þarna til að slást einfaldlega skipt þeim út fyrir löggurnar og ráðist á þær í staðinn – fyrir þeim virtist það vera svosem alveg sama. Óvinurinn er nú einu sinni kapítalisminn.

Í það þriðja, hvernig viðbrögðin við því að tveir hópar öfgaungmenna vilji slást skuli vera þessi, að breyta götum Berlínar í quasi-hernaðarsvæði – og hversu fáránlega mikið það kallast á við ástandið rétt fyrir valdatöku nasista, eins og hvert þýskt barn lærir líklega allt um í skóla. Nú er ég bæ ðe vei alls ekki að spá fyrir valdatöku nasista hér, það er alls ekki neinn möguleiki á því, en maður hlýtur að hugsa, fatta þeir ekki sjálfir hvaða myndir þeir eru að vekja upp með þessu húllumhæi?

Nú hef ég lesið mér til eftir að ég kom heim að mótmælendum hafi sannarlega tekist ætlunarverk sitt – nasistarnir voru svona lengi því leiðin var girt af sitjandi mótmælendum allstaðar, og þeir komust með miklu basli og miklu færri en í upphafi aðeins eitthvað um hálfa leið áður en það var ekki hægt að halda áfram lengur. Myndir og myndskeið má sjá á Der Spiegel. En ég get ekki annað en hugsað það með mér að bara það að svona spektakel hafi yfirleitt gerst sé ákveðið tap fyrir Þýskaland, og skipti þá ekki öllu hvort nasistarnir hafi gengið heilan eða hálfan kílómeter - fortíðin var kölluð upp í jafn ríku magni, og engin hlið hefur, að því er manni sýnist, nokkuð hið minnsta lært.