þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Fuss, nóg af pólitík og efnahag

Ég hefi óþol gagnvart þessum tvemur ofangreindum hlutum sem stendur og ætla því að skrifa um daginn og veginn.

Ég kláraði loksins og skilaði umsókn minni um Erasmus-nám í Þýskalandi. Ég hef gert vandræðalegar tilraunir til þess áður, uppfullar af misskilningi og heimsku, svo lok þessa fremur einfalda ferlis urðu eiginlega eins og heilagur grall í huga mér.

Ég tók reyndar eina mögulega afdrifaríka ákvörðun í ofurflýti á meðan ég var að fylla þetta út, þ.e. að vera tvö misseri úti. Ég hef verið varaður við að það sé miklu erfiðara en ég geri mér grein fyrir... en ég vildi reyna. Ég hlýt reyndar að gera tekið það til baka ef útlöndin fara að gera út af við mig.

Þetta mun allverulega snúa lífi mínu á hvolf, sem það þarf sannarlega á að halda. Ég er of vanur því að hafa það sem ég hef og ekkert meira en það sem ég hef. Sem stendur er ég á afar ómerkilegum stað í tilverunni, sem skal nú vonandi flyst búferlum yfir á meginland Evrópu. Vonum að þar sé svall.

Vinir, köttur, gítarar og kaffihús eru uppistaða föðurlandsástar minnar sem stendur. Fráhrindandi eru hinsvegar Egill Helgason, Ólafur Ragnar, Alþingi, Kastljósið, Moggablogg, mótmælendur, Sjálfstæðismenn, Samfylkingarmenn, pólitík, niðurrifstal, stöðugur kuldi, bölsýni, rasistar, Háskóli Íslands og fleiri hornsteinar hámenningarinnar. Hið almenna geðsýkisskap sem öllu virðist tröllríða.

La folie collective du peuple
kallaði ég þetta við franska stúlku um daginn, og uppgötvaði þá þennan einstæða hæfileika frönskunnar til að láta hvað sem er hljóma eins og sögulega staðreynd í virðulegum doðranti.

Ég mun án vafa skrifa meira um Erasmus-ferlið allt er það fer af stað. Mér er satt að segja annt um fátt annað sem stendur!

mánudagur, febrúar 09, 2009

Guðdómlega fyndið

Þetta viðtal er yndislegt.

Sameiningartákn þjóðarinnar eru húrrandi geðveik!

PS. Nú stoppar hann ekki einu sinni þar heldur móðgar gervallt Þýskaland með því að tjá þeim hve hann skilur ekki skiptingu nýju og gömlu bankanna.

Vill einhver plís ganga þessu mannkerti í móður stað, leiða hann í örugga hirslu og leggja loks þetta embætti hans niður í kyrrþey?