mánudagur, janúar 22, 2007

Einnig

Það er auðvelt að skemmta sjálfum sér, eins og ég var að komast að með því að fara á archive-flipp og skoða gamla bloggpósta mína. Óskaplega er ég sniðugur, hugsaði ég á óskaplega sniðugan hátt. Verra er að þetta er alltsaman deyjandi og ég hef tekið eftir því að varla neinn á linkalistanum mínum starfrækir enn fjölmiðling sinn. Þetta er vont, því þá stend ég einn eftir og er asnalegur, en ekki óskaplega sniðugur eins og forðum daga.

En í gamalgrónni uppreisn ætla ég að halda þessari ritstarfsemi áfram. Það hefur verið sagt að internetið sé nú bara bóla, og ég vona að þetta blogg endist svo stutt sem bólan sú.

Einnig, guð er fáklætt afkvæmi hins heftarans sem og Guðmundur.

Í jarðarför minni

Vil ég að spiluð verði þriðja symfónían eftir Henryk Mikolaj nokkurn Górecki. Hún er æði, hún er snilld, hún er verðug þess stórviðburðar sem verður dauði minn.

Þó fer ég varlega í þetta. Í heimi klassískrar tónlistar þykir víst fegurð það síðasta sem tónlist þarf á að halda og mér skilst að þetta verk sé alls ekki kúl. Ég skal þó þola þá skömm, enda verð ég önnum kafinn við að rotna og/eða reyna að brjótast út úr kistunni, sem skúrkar hafa troðið mér ofan í vegna tengsla minna við Indiana Jones.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Hér eftir fylgir stefnulítil aðdáunargrein á Bob Dylan

Það er erfitt að ímynda sér að maðurinn á bakvið texta og lög eins og Mr. Tambourine Man, A Hard Rain's A-Gonna Fall, og It's All Right Ma, I'm Only Bleeding, hafi einhverntíman verið krakki og heitað asnalegu nafni eins og Robert Allen Zimmerman.

Bob Dylan er tónlistarmaður sem fyrir suma, jafnvel marga, er erfitt að skilja. Hann er í fyrsta lagi fremur slappur söngvari. Ég reyndar tek ekki eftir þessu nú til dags, þar sem ég hef hlustað á of margar vikur af tónlist með honum til að heyra það lengur, heldur hvílir það sem fjarlæg minning um mitt upprunalega mat á honum - fordómafullt og grunnt eins og það vill oft vera. En í öðru lagi, þá er hann ekki besti gítarleikari heimsins. Hann strömmar nær eingöngu, og spilar aðallega í opnum gripum, sem tónlistargagnrýnendum finnst víst óttalega ófínt.

Í þriðja lagi skilja sumir engan veginn textana hans. Þeim finnst þeir meika ekkert sens og vera fátt annað en einhver hraðpáruð orð án samhengis. Þetta er svo um það bil nákvæmlega sama ástæða fyrir því að mér og mörgum öðrum finnst að þessi maður sé mikilsverðasta núlifandi skáld heimsins.

Then take me disappearin' through the smoke rings of my mind,
Down the foggy ruins of time, far past the frozen leaves,
The haunted, frightened trees, out to the windy beach,
Far from the twisted reach of crazy sorrow.
Yes, to dance beneath the diamond sky with one hand waving free,
Silhouetted by the sea, circled by the circus sands,
With all memory and fate driven deep beneath the waves,
Let me forget about today until tomorrow.

Mr. Tambourine Man er það lag sem ég dái hvað mest í sögu þeirrar tónlistar sem hefur borist mér til eyrna. Við fyrstu sýn er þetta alltsaman absúrdismi - og þegar ég les texta sem þennan þá skil ég strax hvernig hann skrifar. Þetta er einnig strax greinilegt ef maður gluggar í ljóðabók hans, Tarantula. Þetta er 'stream of conciousness' skrif, sem margir líta á sem 'cop-out', auðvelda leið út frá því að skrifa alvarlegan, þungamiðaðan texta. En þetta er sannarlega mjög erfið leið til að skrifa og ekki á allra færi.

Það sem gildir hér er að festa sig algjörlega inn í einhverri ákveðinni tilfinningu eða minningu, og skrifa án þess að hugsa fyrir næsta orði. Í Mr. Tambourine Man er þessi mynd, fyrir mér, mynd af jafn einföldum hlut og svefnleysisgalsa. Dylan ímyndar sér stund þegar hann gengur á draumhraða í gegnum tóma og kyrra borg, eltandi hljóminn úr tambúrínu. Áhyggjuleysið, fegurðin í hinum nýorðna morgni og frelsið sem hann fyllist af eru greinileg í textanum og hinum einfalda, létta hljómi lagsins.

En við fyrstu sín er þetta psychadelia, merkingarlaus orð. Margir hafa coverað lagið og margir af þeim hafa tekið þann sama pól í hæðina og spilað það í augljóslega psychadelic búningi - en það er enn eitt dæmið um að bæði flækja og einfalda Dylan á sama tíma. Dylan, sjáið til, er ekki að reyna að kalla upp neitt hjá okkur. Hann vill ekki að við fyllumst af psychadelískri tilfinningu, 'speisaðri' tilfinningu (íslenskan er að bregðast mér hérna), heldur er þetta eigingjörn listsköpun, hann er bara að setja þessa litlu, einföldu tilfinningu sína niður á blað og svo þýða þær í hljóðbylgjur. Og það er það sem gerir hann svona magnaðan - hann er að tjá einfalda hluti, og eins og allir sem hafa reynt fyrir sér í skapandi skrift vita þá er fátt erfiðara að tjá en það. En þegar ég hlusta á Mr. Tambourine Man eða jafnvel bara les textann þá finnst mér ég vera með Dylan þarna á hljóðu stræti, félagi hans og ferðalangur, eltandi hljóðar bjöllur tambúrínunnar, með höfuðið fullt af sólskini og bros á andlitinu.

Það er eitthvað persónulegt við þetta, enn persónulegra heldur en opinberunarlög (confessional songs). Það að útskýra eitthvað persónulegt fyrir mér er ekki það sama og að einfaldlega bjóða mér með, bjóða mér þangað. Dylan segir ekkert hvernig þetta tengist sínu lífi - hvar, hvenær, með hverjum - enda kemur mér það ekki við. Dylan er að spurja með bros á vör 'manstu eftir þessu?' og bjóða okkur upp á að endurupplifa eigin minningar sem við kannski áttuðum okkur ekki einu sinni á hversu sérstakar þær voru fyrr en nákvæmlega þá.

Ég kann honum margar þakkir fyrir og þakka honum fyrir að gera þetta enn - því Modern Times er mjög góð og vel virði nafns hans á umslaginu. Ef lesendur hafa ekki hlustað á hann fyrr, plís, endilega nælið ykkur í Bringing It All Back Home eða Blonde on Blonde eða The Freewheelin' Bob Dylan eða Blood on the Tracks eða um það bil hvað sem er úr gömlum skáp hjá foreldrum, vinum eða afa og ömmu, og njótið hans á meðan hann er enn ofan moldu, svo að þið skiljið hve gríðarlegur missir það mun vera þegar hann kveður þennan heim og skilur okkur eftir við mikinn skort.