þriðjudagur, september 27, 2011

Skyn og sturlun

Ég get ekki alveg ákveðið mig hvort það sem nú er í gangi í heimshagkerfinu sé rökrétt og skynsamlegt eða klikkun.

Á yfirborðinu er þetta greinilega markaðssturlun sem er í gangi. Markaðspanikk þykir mér varla nógu sterkt orð. Fjölmiðlar reyna að skýra þetta með ýmsum mishlægilegum aðferðum, en það er mikilvægt að átta sig á því að þetta eru eftiráskýringar. Markaðurinn er í panikki út af því að markaðurinn er í panikki. Grikkland kemur málinu ekkert við, skuldir ríkja, sem eru nákvæmlega eins eða minni en 2007, koma málinu ekkert við, skuldaþak Bandaríkjanna kemur málinu ekkert við, meira að segja bankarnir per se koma málinu ekkert við (öfugt við kreddukenndar fullyrðingar sumra þá hafa þeir gríðarmiklu að tapa á þessu). Það er mýtan um hinn skynsama, kerfisbundna markað sem fær fjölmiðla til að leita að þess konar skýringum í raunheiminum, sem er vonlaust. Og nokkrir nýta sér þetta ástand í enn ömurlegri tilgangi: til að krefjast einhverra pólítískra breytinga sér í hag; nýta sér markaðinn eins og handrukkara eða fjárkúgara. Markaðssturlun er hinsvegar essentíal partur af kapítalismanum og það sem nú er að gerast á ekki að koma neinum á óvart, enda ekkert nýtt.

Markaðurinn gæti farið í klessu núna á næstu dögum eða mánuðum, eða alveg jafn líklega lafir hann áfram. Mögulega geta aðgerðir stjórnvalda haft áhrif á þetta. En þessi þjónusta og þessar buktanir fyrir markaðnum, eins og hann muni hugleiða alvarlega stöðu sína í ljósi stærðar bjargarsjóða Evrópusambandsins og relatívrar skuldaáhættu miðfranskra banka, og jafnvel ákveða að breyta til betri vegar sinni órökréttu hegðun, eru innantómar. Markaðurinn er ekki rykfallinn hagfræðingur í skrifstofu og honum er andskotans sama; þessir hlutir snerta hann ekki neitt. Markaðurinn fer í panikk af býsna skýrum ástæðum. Það er enginn munur á framleiðslugetu landa (sem er það sem peningar eru raunverulega gerðir úr) frá árinu 2007 til ársins 2011, en braskarar vita samt vel að markaðurinn er skynlaus og líklegur til að panikkera. Sá sem síðan panikkerar fyrstur bjargar mestu fé; því er gífurlegur hvati til að panikkera, en fátt sem letur mann frá því. Þetta panikk er því skynsamt í hinum mjög svo þrönga hugarheimi braskaranna, en þó sturlun í víðara samhengi, því afleiðingarnar (fall lífsgæða út um allan heim) eru ekki í nokkru einasta samhengi við orsökina. Þetta er eins og að lesa stjörnuspekiblogg og fara svo út og myrða forsetann.

Þó er hægt að setja þetta upp sem skynsemi á einn annan hátt: það sem er raunverulega að riða til falls er þetta lánahagkerfi, langt fyrir ofan raunhagkerfið sem við flest hrærumst í, og einkenni þessa lánahagkerfis er (og þetta hvorki er né hefur verið leyndarmál, ólíkt því sem sumir halda fram) að það er ekki raunverulegt. Augljóslega er markaðurinn því of hátt skráður - í heilbrigðu hagkerfi væri yfirleitt engin kauphöll og það væri ekkert Goldman Sachs og svo lengi sem þetta tvennt stendur þá er það á sama tíma um það bil að falla. Þess vegna er það bara skynsemi að Dow Jones-vísitalan liggi beinustu leið niður á við; eða allavega meiri skynsemi en ef hún lægi upp á við.

Svo hér get ég ekki ákveðið mig. Einn partur af mér segir að heimurinn öðlist betri tengingu við raunveruleikann með hverri hlutabréfalækkun; falli þau því sem mest. Hinn segir að þetta muni hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir lífsskilyrði gríðarlega margs fólks, því þetta ímyndaða lánahagkerfi hefur náð að tengja sig sinni raunverulegu hliðstæðu og sýgur þaðan raunveruleg lífsgæði ofan í svartholið. Þá svarar hinn parturinn, það er bara fórn sem er þess virði að færa, því þetta þarf allt að hverfa til að klippa á þessi óheilbrigðu tengsl raunveruleikans og hinnar sjúku hugsmíðar braskaranna; fyrr gerist það ekki. Þá svarar hinn að nú hljómi ég eins og íslenskur húsnæðislánaróttæklingur sem er sama um alla aðra en sjálfan sig. Þá öskrar móðgaði róttæklingsparturinn kaldhæðið í falsettu, er enginn að hugsa um börnin!? Og ég veit loks ekki hvað ég á að hugsa.