föstudagur, júní 17, 2011

Um orð

Vandamálið er yfirleitt orð, og orðið, eins og allir vita og hafa heyrt allt of oft, er “kreppa”.

Þetta orð er þrungið merkingu. Eitthvað við hljóðfræðina í því og undirliggjandi líkinguna kallar upp mjög sterka mynd af erfiðleikum og hættulegu ástandi. Og allra helst kallaði það áður upp mynd af þessu: Link

Þar til árið 2008 táknaði orðið “kreppa” þetta og aðeins þetta; Kreppuna miklu í Bandaríkjunum, sem hratt fasismanum af stað í Evrópu, orsakaði yfir 30% atvinnuleysi í heimalandinu, kallaði þar á mesta byltingarástand sem orðið hefur í nútímasögu landsins, sem var svo bælt harkalega niður: súpubiðraðir, fjöldamorð lögreglu, kommúnismi, fasismi – þarna liggja raunar orsakirnar á bak við allt okkar núverandi sögulega ástand. Þetta er einn merkasti viðburður mannkynssögunnar.

En eftir 2008 breytti orðið um merkingu. Það fór að þýða þetta.

Hér hefur eitthvað mjög skrýtið gerst sem þarf nauðsynlega að útskýra. Þetta er ekki eðlileg merkingarbreyting orðs. Ísland í dag líkist ekki á neinn hátt – ekki á neinn mögulegan hátt – Bandaríkjunum á kreppuárunum. Líkingin er fábjánaleg. En hún er algild í okkar tungumáli og ég hef stundum á tilfinningunni að íslenska “kreppan” sé að taka bandarísku “kreppuna” yfir – köllunin hafi varanlega færst eftir þrjú ár af stanslausri hömrun: kreppa! efnahagslegar hörmungar! fátækt! örbirgð!

Enn er það þannig, eftir því sem ég fæ best séð, að grunnatburðir íslenska efnahagshrunsins eru rifjaðir upp a.m.k. einu sinni í hverju einasta dagblaði sem komið hefur út síðan 2008. Einhver lesendagrein mun áreiðanlega byrja á einhverju eins og “...árið 2008 hrundu íslensku bankarnir til grunna eftir stanslausa græðgisvæðingu nýfrjálshyggjunnar....” eða “...síðan þrír stærstu bankar þjóðarinnar lögðust á hliðina vegna spillingar hinna svokölluðu útrásarvíkinga”... til hvers er þetta skrifað? Af hverju þarf enn ein greinin að rifja þetta upp sem allir vita?

Íslendingar hafa nefnilega allt frá því að hrunið margumtalaða varð – og það er ekki orð sem hefur neina ýkta merkingu, skal taka fram; hér varð vissulega hrun – tekið sig til við söguskrifun okkar tíma eftir að þráðurinn flæktist svo ógurlega árið 2008. Nú skal byrjað á Stunde Null, og það er eiginlega algengara að sjá tímatalið “eftir hrun – fyrir hrun” í íslensku máli en hliðstæðuna Krists.

Og á eftir þessari fyrstu hömrun á atburðunum sem leiddu okkur hingað, þá fylgir yfirleitt einhverskonar lýsing á örbirgðinni og jafnframt er tekist á loft í beina átt frá sannleikanum. Hér eru nefnilega læknar horfnir, matarbiðraðir langar, lánastofnanir ósanngjarnar, ríkisstjórnin kommúnísk (en þó þræll auðvaldsins), traustið ekkert og lífið hræðilegt; í stuttu máli þá er hér allt eins og í Bandaríkjunum 1930.

Ótrúlegustu hópar hafa sameinast um að sjá hlutina í þessu ljósi. Hægrimenn sjá hér örbirgð af völdum kommúnistastjórnarinnar, vinstrimenn örbirgð af völdum kapítalistastjórnarinnar, þjóðernissinnar örbirgð af völdum alþjóðasinnuðu rýtingsstungustjórnarinnar, róttæklingar örbirgð af völdum hins alþjóðlega kapítals, stuðningsmenn Geirs Haarde örbirgð af völdum sviptivinda hins alþjóðlega markaðar og svo má lengi telja. Það eru allir pólítískir aktívistar sammála um aðeins eitt: hér er kreppa. Alvöru kreppa!

Nú vil ég fá að fullyrða eitt og rökstyðja mig einfaldlega með því að biðja fólk um að líta út um gluggann sinn. Hér er engin kreppa. Hér keyra allir um á bíl, sem er munaður. Hér kaupir fólk enn rafmagnstæki eins og enginn sé morgundagurinn, hér er sérstök búð sem selur ekkert nema iPhone, hér eru, les ég, fjórtán hundruð milljarðar króna sem liggja inn á bankainnistæðum Íslendinga – misskiptir milljarðar, vissulega, en fáránleg upphæð engu að síður - hér er, for fokks seik, gígantísk nýreist glerhöll fyrir symfóníuna af öllum hljómsveitum – og þrír risabankar. Alveg eins og áður.

Hér er kannski eitthvað sem má kalla góðærisskort. En ei meir.

Vissulega hefur hér hinsvegar eitthvað breyst frá því fyrir 2008. En hér er samt ekki neinskonar örbirgð. Íslendingar rændu heiminn en björguðu sjálfum sér (óvart), og í kjölfarið kom eitt stærsta pólítíska sjokk í íslenskri stjórnmálasögu – Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur átt þetta land með húð og hári í svo að segja fimmtíu ár, datt úr stjórn. Svona hlutir hafa áhrif. Þegar bankahrunssjokkið reið yfir þá hélt ég og héldu allir að einmitt, nú kæmi kreppa eins og bandaríska kreppan. Og það staðfestu hagfræðingar: hér er kreppa, sögðu þeir. Og allir bjuggust við fasisma, kommúnisma, súpuröðum, lögregluofbeldi, bjuggu sig undir að brenna peningaseðla sér til hita og hamstra niðursuðudósir, þetta er allt vel þekkt. Því hér myndi verða kreppa.

En ekkert þannig gerðist. Það kemur nefnilega í ljós að orðið “kreppa” hefur þriðju merkinguna í heimi hagfræðinnar. Nefnilega, án nokkurrar sérstakrar sögulegrar skírskotunar, ákveðið fall hagvaxtar og kaupmáttar yfir ákveðna prósentu um ákveðinn tíma. Þetta uppfyllti Ísland eftir 2008 sannarlega. En fræðiskilgreiningin er annað en skilgreining fólks, sem misskildi hvað var í vændum og það herfilega - hver sá sem hamstraði Ora-grænar baunir í dós var að gera hlægileg mistök.

Þetta hinsvegar kemur hvergi fram ef maður les blöðin sem komið hafa út seinustu þrjú árin. Þvert á móti virðist sá maður hafa verið stórskynsamur; og þar liggur vandinn. Þetta sjokk eftir árið 2008 virðist hafa haft þau áhrif á gífurlega marga málsmetandi menn að þeir hafa misst allt raunveruleikaskyn og einhvern veginn náð að telja sér trú um að þeir búi við örbirgð, lokaðir inni í einbýlishúsinu sínu með áfasta bílskúrnum og einkabílum (í fleirtölu!) fjölskyldunnar þar fyrir innan. Einhvern veginn telja þeir að fyrst þeir þurfi að borga af þessum eigum til banka þá séu þeir fátækir og jafnvel liður í einhvers konar verkalýðsbaráttu (sem í þeirra tilfelli kallast hinsvegar eitthvað nútímalegra, eins og “baráttu fyrir leiðréttingu” eða “fjölskyldubyltingu” – en orðið bylting hefur einnig misst alla merkingu; engu þarf þessa dagana að vera bylt til að það megi kallast bylting. Raunar þýðir bylting oftast ekkert annað en “stór mótmæli”.)

Einhver vitund er þó um fáránleika þessa. Í mínum eigin vinahring, sem er að sjálfsögðu gífurlega takmarmaður og ekki neinskonar þverskurður af neinu nema ef ske kynni vera ungum vinstrisinnuðum háskólanemum, er orðið “kreppa” löngu orðið að brandara. “Ætlarðu að fá þér [X]? Veistu ekki að það er kreppa!?” eða eitthvað í þeim dúr. Orðið er orðið fyndið í sjálfu sér; það er svo innilega mikil fjarstæða og jafnframt er það að benda á það tabú, sem er þráðbein uppskrift að húmor. Og kreppuklæmingar vita vel af þessu, sem maður sér vel á hinum stöðugt örvæntingarfyllri dæmum sem þeir taka til að réttlæta þetta fixasjón sitt. Eitt af því sem hefur verið mest áberandi eru hinar íslensku matarbiðraðir, en súpuraðirnar í Bandaríkjunum eru einmitt eitt helsta tákn Kreppunnar miklu. Hér eru nefnilega vissulega slíkar raðir; tvær talsins, meira að segja, og eru víst viðkomandi matargjafar í samkeppni um fólkið. Sjáið, segja málsmetandi menn: kreppa í sinni tærustu mynd.

Vissulega. En eins og Ármann Jakobsson benti einna fyrstur á, þá eru þessar biðraðir ekki nýjar af nálinni. Þær hófust ekki árið 2008, og þótt samkvæmt heimildum þær hafi eitthvað stækkað síðan þá, hafa þær ekki stökkbreyst á neinn hátt. Málið er að fyrir árið 2008 voru Íslendingar þeirrar skoðunar að það væri engin kreppa, og þessa sjónarmiðs til stuðnings var aldrei á þessar matarbiðraðir minnst, að einu atviki undanskildu: þegar Davíð Oddsson lýsti fyrirlitningu sinni á fólki sem þá þáði mat í hans kreppulausu Reykjavíkurborg.

Eftir 2008, hinsvegar, breyttist sjálfsmynd Íslendinga, og umfjallanir um þessar biðraðir sprungu út í íslenskum miðlum. Og þetta er, held ég, kjarni málsins. Ísland hefur einkennst og einkennist enn af þessum afar hvimleiða hlut sem kallast ímyndarsköpun í þar til gerðum fræðum. Fyrir 2008 var sú ímynd af hinni fullkomnu frjálshyggjutilraun. Þar var engin fátækt og ekkert atvinnuleysi, og ef merki um annað hvort kom upp var það einhvern veginn þaggað niður. Þá ríkti sátt um Sjálfstæðisflokkinn og gagnrýni á ríkisstjórnina var alltaf sýnd sem eitthvað dálítið hlægilegt fyrirbæri; viðkomandi væru ekki alveg með á nótunum. Þeim var bara mætt með dálítið vorkennandi glotti sem flestir ættu að kannast við af forhrunsvaldhöfum og gætu mögulega hafa tekið eftir að hefur ekki svo mikið sem einu sinni sést á eftirhrunshliðstæðunum. En þar liggur hundurinn grafinn. Sjokkið árið 2008 batt ljótan enda á þessa ímynd; raunar var það hún sem gaf frá sér stærsta skellinn.

Þá myndaðist þessi stutti rammi til breytinga, og ólíkt því sem sumir kreppuklæmingar halda fram, þá breyttist gífurmargt. Hér í fyrsta lagi fóru hinir áður goðskipuðu stjórnendur þjóðarinnar frá og aðrir tóku við. Þá hvarf hugmyndin um þjóðina og ríkið sem standa saman og eftir varð hugmyndin um hina gagnrýnu, hetjulegu þjóð sem stendur saman gegn ríkinu og peningaöflunum. Skyndilega varð gagnrýni á ríkisstjórnina ekki lengur hjákátleg heldur hetjuleg, og það sérstaklega eftir valdaskiptin sjálf – í dag er það hjákátlegt að verja sitjandi stjórn, og ennfremur hefur orðið “ríkisstjórn” fengið á sig ákveðinn merkingarblæ, jafnvel fyrir mig hikandi stuðningsmanninn, sem drýpur af ógeði og klígju. Hún fær enda yfirleitt á sig einkunn, ábendingarfornafnið “þessi” – “þessi ríkisstjórn”. Tilgangurinn í því er að gera hana öðruvísi en allar aðrar stjórnir – hún er sú ógeðslegasta í sögunni, þessi þarna sérstaka og eina. Svona getur eitt orð mörgu breytt.

Loksins byggðist upp hin nýja sjálfsmynd enn frekar með hetjuskap þjóðarinnar gegn erlendum peningaöflum, eða raunar bara útlöndum almennt. Það helst í málefnum Evrópusambandsins og svo ákveðins máls sem ég ætla ekki að nefna á nafn vegna klígju og markar einn ömurlegasta punkt íslenskrar sögu; það byrjar á I. Þetta sameinast svo í ótrúlegra rætinni þjóðernishyggju sem er orðin svo hryllileg, svo antí-intellektúel og svo prótó-fasísk að ég á það til að verða skíthræddur um framtíð minnihlutahópa á þessu landi þegar ég les verstu miðlana.

Síðan er þetta allt hnýtt saman með ákveðnum einbeittum brotavilja til þess að blekkja útlendingana alla aftur upp á nýtt. Nú skal landið kynnt erlendis sem byltingarþjóð gegn peningaöflunum, Spánverjum og fleirum til fyrirmyndar, og það samtímis og allar tilraunir til að draga þau sömu öfl til ábyrgðar á Íslandi sjálfu eru talaðar niður. Ég hef enn ekki séð Sérstökum saksóknara hrósað í íslensku riti. Geir Haarde er að verða að þjóðhetju. I-málið endaði með sigri þeirra sem bera á því ábyrgð. Og wikileaks-skjal, sem íslenskir fjölmiðlar hafa nær gjörsamlega þagað í hel, sýnir hvert plan Sjálfstæðismanna er og hversu vel það gengur – hann gæti tekið völdin, segir Bjarni Benediktsson við Bandaríska sendiráðið, en hann vill það ekki. Hann ætlar að leyfa “þessari ríkisstjórn” að sitja og taka hitann af þessu furðuástandi allt fram að næstu kosningum – og svo ætlar hann að rústa henni.

Það er afskaplega skýrt í dag að það mun takast hjá honum. Þarna er á ferð næsti forsætisráðherra þessa lands.

Ég held að ég neyðist til að enda á framtíðarspá sem mun örugglega verða gjörsamlega úrelt og asnaleg eftir tvö ár, en hvað um það: eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tekur völdin aftur mun þessi gagnrýnisandi sem núsitjandi stjórnvöld hafa þurft að lenda svo illilega fyrir barðinu á koðna hægt og hægt niður. Ég held að stór partur af kreppuupplifun ýmsra byggist nefnilega á þeim óvenjulegheitum að hinn hefðbundni valdaflokkur sé ekki við völd, og að þeir muni missa alla löngun til gagnrýni þegar það breytist. Gagnrýni mun aftur verða að einhverskonar hobbýi svokallaðra atvinnumótmælenda sem á að hlæja að. Og þessir sömu “atvinnumótmælendur” eru einnig að hvetja til þessa, með því að ýta gagnrýnislaust undir þessa fáránlegu ímynd af Íslandi á Spáni og í gervallri Evrópu, með því að beint eða óbeint taka undir með Davíð Odssyni og sitjandi forseta og öllum hinum gömlu valdamönnunum sem eru að byggja hinn íslenska lygamúr upp á nýtt.

Ég hef það er að segja illan grun um að “kreppan” muni hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar Sjálfstæðismenn komast aftur til valda, og það muni skila Íslandi, hægrisinnaðri en nokkru sinni en þó tandurhreinu og meyjarhvítu hvað ímynd landsins varðar í faðm heimsins á ný. Og þá mun þetta allt saman byrja aftur.

Ég held að vinstrimenn af öllum toga verði að reyna að sameinast um eitt og aðeins eitt: að segja hinn sára sannleika um þetta land. Að hér eru engir byltingarmenn. Hér varð engin bylting. Hér er eitthvað mikið að. Hér er alls enga fyrirmynd að finna fyrir einn né neinn.

Og loks að hér er nákvæmlega engin kreppa.