þriðjudagur, október 23, 2007

Holland

Svo vill til að ég var í Hollandi með kór menntaskóla hverjum ég tilheyri ei meir.

Tilefni þessa var kóramót sem við höfðum ákveðið að taka þátt í. Það var haldið í Eindhoven, en þessu komst ég reyndar ekki að fyrr en við fórum til Eindhoven. (Ég er afskaplega á móti upplýsingum þegar þær gætu komið að gagni.) Reyndar var þetta allt hið flóknasta mál, því við gistum á stað sem hét Baarschot, sem var stutt frá borginni Veldhoven, sem er svona Kópavogur af Eindhoven. Þetta vildi allt ruglast.

Líklega það besta í ferðinni var þegar við, hálfþunn eins og alltaf, sungum eins og englar í kaþólskri messu og fengum líkama krists að þökkum. Var hann þurr bragðsins. Endaði þetta svo allt á að við lentum í þriðja sæti í flokki klassískra kóra, sem verður nú að teljast ágætt, þar sem eitt lag var svo erfitt að við náðum fyrst að syngja það í gegn á æfingu tíu mínútum fyrir frumflutning í keppninni.

Það merkilega við Holland var hversu fáránlega, fáránlega, fáránlega sætt allt var. Maður fékk klígju upp í kok af því að keyra framhjá röðum eftir röðum af sætum litlum múrsteinshúsum með fullkomnum garði og runnum sem voru klipptir í form sætra smádýra.

Einnig var merkilegt að í Hollandi virtust vera afskaplega fáir Hollendingar, en þá sáum við bara í stórborgunum. Í Baarschot, sem var alveg átætlega stór bær sem hafði heljarinnar bar og veitingahús var bara ekki kjaftur á nokkrum þeim tíma sem við vorum þarna. Endrum og eins sáum við þó lítil, sæt börn ríða um á fáránlega litlum og sætum smáhestum, en önnur merki mannlífs sáust varla. Grunar mig ráðabrugg.

Ég auglýsi eftir ljósmyndum úr ferðinni (mín myndavél er því miður dauð.) Myndefni af smáhestum vel þegið.