miðvikudagur, október 03, 2007

Fréttaljósmyndir

Á Íslandi er engin hefð fyrir því að birta góðar fréttaljósmyndir í prentmiðlum og því verðum við að leita á náðir internetsins til að finna slíkar.

Omayra Sanchez festist í húsarústum eftir aurflóð í Kólumbíu árið 1995. Það tókst ekki að ná henni út.

Fórnarlömb jarðsprengna í Angola.

Kona og barn hennar falla úr brunastiga árið 1975. Konan lést en tók við fallinu af barninu, sem lifði.

Stúlka við Kent State University háskólann í Bandaríkjunum stendur yfir líki vinar síns, eftir að bandaríska heimavarnarliðið hafði skotið á mótmælendur úr röðum nemanda.

Fræg ljósmynd eftir Robert Capa úr spænska borgarastríðinu sem sýnir lýðveldissinnaðan hermann verða fyrir óvinaskoti.

~

Það er mjög erfið siðferðisleg spurning á bak við störf fréttaljósmyndara. Þeir eiga að sýna hlutina eins og þeir eru en ekki breyta, bjarga eða bæta þá illsku og eymd sem fyrir linsuna ber. Einskonar vísindamenn að safna gögnum um mannlega hegðun með hlutlausum augum. Á móti kemur að í raun getur ljósmyndarinn í fæstum tilfellum gert eitthvað til að bjarga viðfangsefnum sínum eða bæta stöðuna - en samt fyllumst við stundum reiði í þeirra garð; kannski vegna þess að okkur finnst við fremja glæp í sjálfu sér með því að stara á svo hryllilega hluti sem eru stöðugt að gerast, jafnvel á meðan ég skrifa þetta, og gera ekkert í því nema að finna til.

Við höfum nefnilega allt þetta á samviskunni, innst inni. Það er kannski órökrétt og fáránlegt, en ég hef samt skynjað það nógu lengi til að vera orðinn afskaplega daufur fyrir öllum hörmungum annarra. Þetta er ekki 'hryllingur' fyrir mér eða fréttaljósmyndurunum lengur - þetta er bara mannlegt eðli, þetta eru afleiðingar tilveru minnar sem og alls mannkynsins. Þess vegna eru svona ljósmyndir í raun eins og listaverk frekar en fréttaflutningur. Mannleg eymd er allstaðar, ljósmyndari þarft bara að leita hana uppi. Hann vill verða vitni að öllum mest spennandi senunum í hinu mannlega leikriti og gefa síðan okkur aukaleikurunum smá nasasjón af þvi sem við missum af. List gerð úr einum ramma af lífi annars fólks.

Annars veit ég ekki alveg hvernig ég á að enda svona rambl þrátt fyrir að hafa lengi reynt að finna upp á leið. Því enda ég þetta bara hérmeð og lofa glaðværari pistli næst.