miðvikudagur, mars 21, 2007

Skömm

Ég hefi ákveðið að segja viðurstyggilega sögu af mér í tilefni margra mánaða langra veikinda minna. Ef hún veldur hjá lesandanum óbjóð og ógleði, býð ég honum að spýja úr sér magasýrum ofan í næsta kar og því næst varpa í þind mína spjóti.

Eitt sinn sat ég í þýskutíma, um hávetur, og ég, eins og flestir í kring um mig, var fárveikur. Við erum í hinu stórfenglega lestrarhefti Keine Panik. Ég hlusta dauflega. Sit einn, margir veikir.

Frá útvarpinu æpir Nina, aðalpersóna hins magnaða ævintýris, Keine Panik, á systur sína. Hún er að fara á geðveikt deit með 'dem Taxifahrradfahrer.' Í lágdeyfð minni finn ég skyndilega fyrir árás hnerrans koma, hraðar en ég fæ honum stjórnað.

En það skyldi þó ekki vera! Hnerri þessi þeytir, án nokkurrar stjórnunar, geypilegri slettu af fagurgrænu nefslími ofan á Keine Panik heftið mitt.

Ég stari, furðu lostinn, í sjokki, án þennan verknað, í svosem tíu sekúndur. Blaðsíðan var gegnsósa. Hugur minn var fullur af upphrópunum, svo sem 'Hvur djöfullinn! Ég er viðurstyggð! Ég kýs dauðann frekar en aðra sekúndu af lifnaði eftir þessa óför!'

Já, staðan var desperat. Ég leit til hliðar við mig, hægt. En heppnin var með mér. Enginn virðist hafa séð þennan voveiflega atburð. Ráðgaðist ég þá með sjálfum mér. Við þessu var aðeins ein lausn.

Ég tók Keine Panik heftið varlega upp og hagaði því svo, að hin nefflædda hlið sæist sem minnst. Svo stóð ég upp og gekk löngun skrefum að hurð stofunnar á leið á klósettið. Kennarinn, Kristín okkar Kötterheinrich, sá þessa för mína.

'Hvert ertu að fara, Þorsteinn?'

'Á klósettið.'

'Og ætlarðu að taka Keine Panik með þér!?'

'Sannarlega,' brosti ég, skellti aftur hurðinni, og var endalega... borgið.