föstudagur, mars 09, 2007

Hinn aldni boðberi fréttanna hefur brugðist mér hrapallega

Ég veit ekki hvort ég sé einn um þetta, en það er ný ritstjórnarstefna við lýði á morgunblaðinu sem er farin að ganga fram af mér. Það versta er að ég í raun get ekki kvartað, ég þori því ekki, því þeir ganga fram af mér í slíkum málum að mér leyfist ekki að mótmæla þessu samkvæmt þeim gildum sem er haldið uppi í samfélagi dagsins í dag. Það er líka án vafa svona sem þeir hjá mogganum hugsa þetta.

Þetta er nefnilega hinar fáránlega grófu fréttir af nauðgunum og misnotkun á börnum.

Í samfélagi samtímans höfum við séð allt. Öll tabú eru að falla eins og spilaborgir og BDSM og opinber nekt eru einfaldlega viðteknir hlutir og maður er nú frekar bara einhver lúði ef maður klæðist ekki leðri endrum og eins og kallar sig Abob í æstum kynlífsleik við rostung. Þetta hefur í för með sér að það er ekkert sem sjokkerar og ekkert sem kallar virkilega fram viðbrögð hjá fréttaneytendum í dag.

Þegar ég blaða í gegnum moggann er afar fátt sem ég stoppa við og les, það eru bara fyrirsagnirnar og svo er flett. Svifryk er ekki að vekja áhuga minn og mér er, eins og sagt er, fokksama um Baugsmálið. En þá demba þeir á mann frétt: Einhver afi einhversstaðar hefur verið sakfelldur fyrir að nauðga barnabarni sínu sem er tólf ára. Þetta nær augunum og maður les af einhverri ástæðu áfram í gegnum mjög nákvæma lýsingu á atferli þessa manns gagnvart þessari stúlku. Þið kannist kannski við fréttina.

Þetta er algjörlega sjúkt. Svona viðburðir gerast og hafa alltaf gerst. Í hundruðir ára höfum við verið bændadurgaþjóð sem stundaði kaup-og sölu hjónabönd, að sjálfsögðu hefur verið bölvaður pervertismi hér alla tíð. Menn hafa legið með dætrum, rollum, húsdýrum af öllum gerðum, hinum ýmsu fulltrúum plönturíkisins og fleiru. En það er fyrst núna sem menn þora að nota þessa sorglegu staðreynd og færa beint fram í dagsljósið til þess eins að fá einhver neytendaviðbrögð.

Ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég vil aldrei nokkurn tíman aftur heyra minnst á leggöng tólf ára stúlku í grein í mogganum. Fjandinn hafi það, þetta er ógeðfellt og ég skammast mín fyrir það eitt að vera að skrifa þetta hér og birta opinberlega. Sumt er bara ágætt að sé tabú því það kemur bara fokking engum við. Hver er bættur fyrir þessa frétt? Ég er verri fyrir að hafa lesið hana og það sama gildir um fórnarlambið og sökudólginn.

En brátt mun þetta líða hjá og þetta fer að verða daglegt brauð. Þá mun mogginn leggjast útaf og fríblöð munu standa eftir, þá orðin 90% auglýsingar, og þessar fréttir allar um nauðganir. Fólki mun þykja það jafn sjálfsagður hlutur og hryðjuverk í Írak eða sjálfsmorðsárás á Gaza. Fokksama. Þá fyrst mun þetta verða vandamál.

En hvað er þá hið rétta í þessu máli? Að vita ekkert um þetta? Að vita allt um þetta? Að vera algjörlega sama? Ég get svei mér ekki svarað þessu, en fyrsti möguleikinn hljómar ágætlega þessa stundina. 'Tilfinningaklám', þetta er gott orð. Það er allt, allt gert til að kreista smávegis tilfinningu út úr okkar svörtu sálum, raunveruleikasjónvarp og kastljósið er eins, mogginn og barnaklám á netinu.

Það má segja að þetta sé allt birtingarmynd þess sem neytendur kalla á, framboð og eftirspurn. Ef svo er get ég sannarlega sagt að mig dauðlangar til að vera eitthvað annað en manneskja.

Kannski kettlingur.