mánudagur, janúar 18, 2010

Af nurli

Mér er ekkert búið að detta í hug til að skrifa um lengi, svo nú ætla ég einfaldlega að demba mér út í eitthvað banalt til að halda þessari síðu smá við, þ.e. peninga og hvernig ég er skyndilega farinn að skilja þá hér úti.

Það er í raun eitthvað sem mig hefur alltaf langað til að forðast, að hugsa um verð og peninga allan daginn: en það er eitthvað sem gerðist að sjálfu sér eftir að ég flutti út. Það tók tíma - fyrst þegar ég kom hingað kunni ég ekkert að spara. Ég er ekki nógu góður í reikningi til að umreikna allt strax yfir í krónur, og ég hafði ekki nægilega reynslu til að vita hvað er ódýrt í evrum. Ég bjó í einn mánuð í Prenzlauer Berg og undir lok þess tíma var ég farinn að öðlast smá skilning á þessu - hvaða búðir voru ódýrar, og hvernig þær voru ódýrar.

Það breyttist hinsvegar þegar ég flutti tímabundið þar eftir til Wilmersdorf í Vestur-Berlín. V-Berlín er nefnilega öðruvísi - ótrúlega öðruvísi. Byggingarnar eru öðruvísi, þar er vart eitt einasta barn, verðin eru miklu hærri, keböbin verri. Verðskynið hjá mér fór algjörlega í fokk, og bætist það ofan á að það að flytja út af fyrir sig er dýrt - leigubíll til að flytja dótið og allt þar fram eftir götunum.

Eftir tvær vikur í V-Berlín fluttist ég svo aftur búferlum í annað tímabundið húsnæði, í Kreuzberg. Það er einnig í V-Berlín en er eins austur-legt og maður finnur - allt er hrörlegt, fullt af Tyrkjum, verðin rosalega lág, og allt þó nokkuð meira bóhem og sjarmerandi en kapítalismahorrorinn við Ku'damm. Upp á verðskyn var þetta samt aftur tráma - hér var allt svo miklu, miklu ódýrara að ég hreinlega fékk samviskubit þar eftir um allt sem kostaði meira en tvær evrur (sem er afar heilbrigt!)

Loks flutti ég í mitt lokahúsnæði í Prenzlauer Berg, á Kuglerstraße, aftur með skyndilega enn hrikalegri leigubílakostnaði og veseni. Þar þurfti ég að kaupa mér innanhúsmuni - sem betur fer hafði fyrri leigjandi þó skilið margt eftir - og þar helst heilan fokking ísskáp, mér til afskaplegs hryllings.

Eftir þetta er ég farinn að velta sparnaði afskaplega mikið fyrir mér. Nokkur viðmið eru: Kvöldmáltíð á generalt ekki að kosta meira en tvær evrur, og allra best ef ágiskað verð hennar er í kring um eina. Þ.e. 180 kr. á núgengi.

Þetta gengur mjög auðveldlega, mikil uppgötvun fyrir mig, ef maður er grænmetisæta, sem ég þessa dagana er de facto orðinn, flesta daga. 500 gr. af pasta kosta um 30 cent. Lítil rjómadós (Schlagsahne!) kostar einnig um 30 cent. Þetta plús tómatpúrre (heil ferna einnig, þótt ótrúlegt megi virðast, um 30 cent) er orðið að rétti, með smá steiktum paprikum og/eða sveppum (sem kostar einnig afar lítið.) Maður notar hálfan pasta-pakkann og hálfa rjómadósina og ekki þriðjung af tómatpúrre-inu, og svo er það krydd og balsamik-edik - allt hræódýrt stöff. Heildarkostnaður er minna en evra, og þetta er fín máltíð!

Þegar svona ódýrt er borðað verður maður eiginlega að gera sér það upp í drykk - fá sér vín með eða bjór. Kippa af hálfs-lítra glerflöskum af Bergadler-bjór kostar 2.15 evrur út í Lidl. Maður fær rétt undir helming þessa til baka sem skilagjald á flöskunum í sömu búð - svo heildarkostnaður er þá aðeins meira en ein evra fyrir kippu. Ef maður vill fá vín fær maður fína flösku af Montepulciano D'Abruzzo-rauðvíni á 1,99 á sama stað, eða Vin du Pays D'Oc-hvítvín á 1,69. Það er merkt að Ísland er eina landið í gervallri Evrópu þar sem það er ekki inni í myndinni að fá sér almennilegt vín með matnum.

Ef maður þarf kjöt er gott að fá hakk - 1,89 evrur - og skipta því í tvennt, með því að fá sér Spaghetti Bolognese einn daginn og Chili con Carne hinn. 250 gr. af hakki í hvorn rétt skilar sér í afgangi, svo hægt er að fá sér heitan mat í hádeginu daginn eftir. Önnur afar góð notkun peninga!

Þegar vín er svona ódýrt getur maður svo notað það óspart í matargerðina sjálfa, sem eykur enn á evrunýtinguna og þar að auki gerir mat eitthvað svo fansí þótt hann kosti ekki neitt. Þess vegna vil ég halda því fram að þrátt fyrir öll þessi verðvandræði sé ég samt sem áður að éta fjári vandaðan mat.

Þegar maður hinsvegar sparar svona rosalega á venjulegum vikudögum fyllist maður þörf til þess að taka kvöld þar sem maður segir einfaldlega fökkit. Þá fer maður á bar, og kaupir hálfan lítra af bjór á tvöföldu kippuverði - þ.e. 2,70 evrur, og það er vel sloppið! Verð á bar eru allt frá 2,50 yfir í 3,20, á hálfum lítra, en það er bara þannig að maður verður að láta sig hafa það. Barirnir eru frábærir og á þeim er fáránlega gaman. Svo býður maður stundum í mat, allir gera það hér reglulega, og þá er aðeins meira spreðað í réttina - þetta er algjörlega nauðsynlegt svo að maður gangi ekki af göflunum í sparnaðarhugsunarhætti.

Ég er því kominn í þá furðulegu stöðu að ég man verð á helmingi varanna í Lidl-súpermarkaðnum sem ég versla við, ég get gengið niður Kastanienallee og talið upp bjórverðið á helmingi þeirra bara sem á leið minni verða. Ég kann svo verðskrá bakarísins míns utan að. Mér finnst þetta áhugavert. Aldrei hefði ég fyrir mitt litla líf haldið að svo yrði! En þetta er víst partur af því að flytja út.

Ég velti því fyrir mér hvort allar þessar bönlu (beygð mynd af banal) tölur muni haldast í huga mér til dauðadags. Mun ég á elliheimilinu, með Alzheimer á háu stigi, muldra berlínsk bjórverð ofan í pirraðar hjúkrunarkonur, og minnast góðu dagana?

Í heildina þá er mér satt að segja alltaf þeim mun meira sama um upphæð Icesave-samningsins sem ég borga minna fyrir matinn minn. Þetta kynni að vera afskaplega öfugsnúið... en er án vafa einnig einkar heilbrigt.