þriðjudagur, desember 15, 2009

Ég veit að allir hata þegar ég skrifa um þetta, en kommon

Nú er það þegar skýrt að það er raunar býsna margt sem Ísland skortir til að yfirleitt mega kallast heil þjóð.

Við höfum ekkert sameiningartákn: Forsetinn er hataður af öllum og forsætisráðherrann af 50 - 60% þjóðarinnar. Sá hatandi hópur vill Davíð Oddsson aftur í æðstu stöður, sem hin 40 - 50% hatar út af öllu sem heilagt er, ég þar með talinn. Eini Íslendingurinn sem nýtur almennrar virðingar er Vigdís Finnbogadóttir, og hún er löngu hætt að nenna að vera þjóðmóðir. Þar að auki, ef hún aktúelt mundi fara að tjá sig um pólitík yrði henni kastað í skotgröf með öðrum hvorum af fyrrnefndum helmingum þjóðarinnar og rægð til óbóta af þeim sem ekki hana hlytu.

Það er varla til nein þjóðleg skoðun: Íslendingar eru meira að segja ósammála um þjóðsönginn, fjandinn hafi það. Bullandi sektarkennd vegna hrunsins hefur gripið um sig sem lýsir sér því miður helst í því að allir reyna að kenna öllum öðrum um, af þeim mun meiri ofsa sem manneskjan er sjálf sek.

Og í ofanlág: Nú eru tvö mál sem kynnu að lenda í þjóðaratkvæðagreiðslu sem gætu auðveldlega, og það sjá allir, brotið Ísland. Icesave, ef hæstvirtum forseta þóknast, og ESB-aðild.

Ég bara sé það ekki fyrir mér hvernig karakter Íslands getur hugsanlega lifað yfirleitt annað þessa af. Og ef hvort tveggja verður, þá skyndilega fer ég að sjá fyrir mér svona karabískt ástand... Haítí öðrum megin og Dómíníska lýðveldið hinum megin, ef þið vitið hvað ég á við. Líklega bara andlega, en áþreifanlega samt sem áður.

Sá afar raunsæi möguleiki að Davíð Oddsson komist aftur til valda liggur eins og mara á mér og öllum sem ég þekki. Það mundi einfaldlega koma í veg fyrir að ég gæti kallað mig Íslending lengur. Ég mundi þá afar viljandi kalla sjálfan mig og lýsa sjálfum mér sem óvini þjóðarinnar, svo lengi sem Davíð væri höfuð hennar. Og það sama segja ESB-andstæðingar um ESB, og það sama segja Icesave-andstæðingar um þjóð sem hefur lúffað og greitt Icesave.

Allt öfgamenn, sem sagt, og ég því miður í þeirra hópi. Fokk!