miðvikudagur, desember 16, 2009

Bylting

Samsetningin blogg plús kreppan hefur einfaldlega eina merkingu í hugum fólks, og fullkomlega réttilega: ömurð, heimska og skoðanaræpa, eitthvað annað takk. En já, ég er enn með einhverjar skoðanir á þessu sem mér finnst ég verða að koma á framfæri. Ég hef reynt að vinna eftir þeirri reglu að setja ekki tvo pósta í röð inn um þetta efni, en ég ætla að brjóta það hér og vona að eftir þetta sé jafnvel komið nóg.

Mikilvægi búsáhaldabyltingarinnar er mér hugleikið, hvort nokkurt sé, hvort hún sé misheppnuð, etc. Sú spurning er fyrir sagnfræðinga, en sjálfur hvað mig varðar hef ég tekið eftir einu: búsáhaldabyltingin drap endanlega og á blóðugan hátt fyrir mér þá mýtu að peningar skiptu raunar engu máli (skal sungið við lestur.)

Við þessa klisju ólst ég upp, með Disney-myndum og bókum og bara öllu barnaefni, og jafnvel þegar ég var orðinn eldri – á hinu forríka Íslandi var þetta haft fyrir satt, að það skipti engu þótt við værum svo rík, við værum ekkert betri en nokkur annar, alltaf sagt með frómu syndaaflausnarbrosi.

Í þessu andrúmslofti ríkidæmisins gerðust tveir atburðir sem eru mér mjög minnisstæðir og voru svona byrjun nokkurs konar pólitískrar vitundar hjá mér. Eitt: Davíð Oddsson tók þá ákvörðun að Ísland skyldi lýsa yfir stuðningi við Íraksstríðið í desperat tilraun til að halda bandaríska hernum hér á landi, tilraun sem að sjálfsögðu Bandaríkjamenn fréttu varla af og var skítsama um. Öll þjóðin, ger-fökking-völl þjóðin, var á móti. Hann hafði með einu pennastriki drepið allt það stolt sem maður taldi sig geta haft af því að koma frá herlausri og “friðsamri” þjóð sem ekki þurfti að hafa það á samviskunni að hafa sprengt börn í sundur. Davíð Oddsson hafði, fyrir mér, með þessu pennastriki, einfaldlega rúnkað sér organdi framan í íslenska fánann í allra augsýn.

Niðurstaðan var þrír til fjórir mótmælafundir með svona 300 manns þegar mest var. Þeir voru vaktaðir af einum til tvemur dottandi lögreglumönnum og mest sóttir af öldruðum hernaðarandstæðingum og ljótum unglingum svo sem mér.

Númer tvö var svo þegar feitur ræðismaður kínverska kommúnistaflokksins kom hér í eina af þessum viðurstyggilegu snobbheimsóknum sem þjóðarleiðtogar fara í sér til skemmtunar á kostnað skattgreiðenda, og íslensk stjórnvöld hreinlega hentust á hnén fyrir framan stórveldið og brutu öll þau mannréttindi sem það bað um að brotin yrðu, gagnvart saklausum Falun-Gong liðum, sem vildu einfaldlega mótmæla friðsamlega með smá eróbikk-sýningu. Davíð Oddsson aftur sá seki, nú að forsetanum viðbættum.

Ég minnist þess varla að þessu hafi einu sinni verið fjöldamótmælt.

Nú var ég kominn með þann bitra skilning að Davíð Oddsson væri einfaldlega ekki lýðræðislega kjörinn á eðlilegan hátt heldur væri hann týrant sem héldi sýndarkosningar, svona eins og manni skildist að hefðu tíðkast í Sovétríkjunum. Þetta var mér óskiljanlegt. Í báðum tilfellum var öll þjóðin, samkvæmt skoðunarkönnunum, öll á móti þessum uppátækjum – og í báðum tilfellum var henni samt skít, skítfokkingsama.

Nú spólum við áfram, að árinu 2008 - tugir ofan á tugi mótmælafunda með tugum þúsunda manna í hvert sinn, logandi borgarafundir, háværar kröfur um nýja stjórnarskrá og stofnun nýs lýðveldis (!), árásir á lögregluna, nafnbirtingar á lögreglumönnum, þeir almennt kallaðir svín, tilraunir til íkveikju í Alþingi, anarkistar í öllum miðlum, morðhótanir daglegt brauð á netinu.

Ástæðan: þrír lélegir bankar, sem allir höfðu verið gabbaðir til að trúa á, höfðu farið, fullkomlega verðskuldað, á hausinn.

Ég veit ekki hvort ég sé einn um það að finnast þetta sárt og árás á sómakennd mína. Bankar. Já, bankar geta fengið miðaldra Sjálfstæðismenn til að hlaupa inn í piparspreys- og táragasorgíu. En sprengjuárás á íraskar fjölskyldur, eða ólögleg fangelsun á gulum mótmælendum, honum er skítsama. Allt sem máli skiptir er öryggi sparifjárins.

Það varð sem sagt afskaplega skýrt, fyrir hverjum sem á horfði, að það eina sem raunverulega skiptir máli í þessum heimi eru peningar.

Ég sá aðeins eina umfjöllun um þessa spurningu, í Reykjavík Grapevine. Þeir tóku viðtal við nokkra anarkista, sem allir, ég því miður þar með talinn, voru logandi hræddir við. Einn þeirra (hinir voru himinlifandi með þetta allt) sagði, blaðamanni til mikillar furðu, að honum geðjaðist þessi mótmæli engan veginn. Þau snerust bara um peninga. Og ég kinkaði kolli. Það var ekkert byltingarkennt og ekkert anarkískt við þessa byltingu. Hún var smáborgaraleg og drifin af engu nema peningum. Anarkistarnir sáu bara eitthvað tækifæri til að athafna sig í henni, en í raun og veru voru það ekki þeir sem hófu hana og ekki þeir sem héldu henni uppi. Raunverulegu mótmælendurnir voru miðaldra Sjálfstæðismenn, þeir voru fjöldinn, og anarkistarnir stilltu sér bara upp fremst í langri og þunnri línu; framvarðarsveit fyrir smáborgarana, svampur fyrir táragasið.

Vonir fólks fyrir búsáhaldabyltinguna voru allar í sitt hvora áttina og áttu aðeins eitt sameiginlegt: að vilja sitjandi stjórn brott, sem var að sjálfsögðu fullkomlega sanngjörn krafa. Aftur eitthvað sem gervöll þjóðin var sammála um. En um leið og það var gjört kom í ljós hversu sundurleitur hópurinn var; anarkistarnir töldu sig illa svikna, Sjálfstæðismennirnir líka, Samfylkingarmennirnir voru himinlifandi með hve vel þeir sluppu, á meðan Vinstri-Grænir vildu miklu meira út úr þessu, og vonir mestu ídealistanna hurfu svo strax með Borgarahreyfingunni. Nú er helsta byltingarhreyfingin hin svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna, með það á stefnuskrá sinni að þjóðnýta skuldir – eitthvað sem allir voru á móti í búsáhaldabyltingunni sjálfri. InDefence kemur svo í annað sæti, með fótósjoppaðar myndir af grátandi Jóni Sigurðssyni í vopnabúri sínu – smekkleysiskonungar landsins um þessar mundir, án vafa.

Niðurstaðan er sú að búsáhaldabyltingin vissulega náði sínu einfaldasta takmarki, að koma stjórninni frá, en kannski hefði það gerst hvort sem er – kosningum hefði líklega hvort sem er verið flýtt og Sjálfstæðismenn hvort sem er beðið jafn mikið afhroð. Jafnvel hefði þá tekist að setja saman nýja stjórnmálahreyfingu sem eitthvað vit hefði raunverulega verið í, í stað Borgarahreyfingarinnar.

Ég viðurkenni það á mig að ég var einfaldlega saklaus að halda að þetta væri öðruvísi – að peningar skiptu ekki svona miklu máli. Þeir gera það, hafa alltaf gert, munu alltaf gera.

Helstu börn byltingarinnar eru því, að mínu mati, dauði þessarar mýtu (góður hlutur), ákveðin sálarró fólks að það hafi þó gert eitthvað pólitískt gagn (góður hlutur), gífurleg óánægja fólks að byltingin hafi ekki skilað nákvæmlega því sem það sjálft vildi úr henni (slæmur, en óhjákvæmilegur hlutur), og leiðindahausverkur framtíðarsagnfræðinga, sem þurfa að fjalla um atburð sem allir hafa mismunandi og algjörlega skinhelgar skoðanir á.

Vesalings þeir! Ég vissi að það væri vit í að læra ekkert sem væri yngra en 1000 ára gamalt.