laugardagur, nóvember 28, 2009

Eichmann

Á ritunartíma þessa pósts er ég enn netlaus, en sé hinsvegar brátt fram á breytingu þessa. Ég sver og sárt við legg að þessi póstur verði ekki birtur fyrr en ég fæ net heim, þótt ég þurfi að ráðast á Pólland til að ná þessu fram.

Ég hef undanfarið verið að lesa tvær bækur, annarsvegar Eichmann in Jerusalem eftir Hannah Arendt (það er eitthvað svo innilega asnalegt að beygja þetta og segja Hönnuh Arendt) og svo Fall Berlínar eftir Antony Beevor. Báðar Berlínar- og Þýskalandstengdar.

Eichmann in Jerusalem fjallar sem sagt um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann, nasísku möppudýri í Þriðja ríkinu, sem sá um pappírsvinnuna á bak við útrýmingu Gyðinga í Evrópu. Eftir stríð flúði hann, eins og svo margir nasistar, til S-Ameríku, nánar tiltekið Argentínu, sem harðneitaði að framselja nokkurn þeirra, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Ísraelska leyniþjónustan komst að því að Eichmann byggi í Buenos Aires undir fölsku nafni og skipaði David Ben-Gurion, fyrsti forsætisráðherra Ísraels, að honum skyldi rænt, þverbrot á argentískum lögum, og hann fluttur til Jerúsalem til réttarhalds. Þetta var gert.

Hannah Arendt var þýskur gyðingur sem flúði Evrópu þegar nasisminn fór að festa rætur, en missti allt sitt í hreinsununum. Hún leit á þetta sem sitt eina tækifæri til að raunverulega sjá einhvern af þessum mönnum sem frömdu þennan versta glæp mannkynssögunnar, og fór því sem fréttamaður til Jerúsalem til að verða viðstödd réttarhöldin.

Arendt var heimspekingur og dálkahöfundur og var nægilega djúpsýn til þess að sjá réttarhöldin á allt öðru stigi en aðrir – sérstaklega ísraelskir framámenn, sem litu á réttarhaldið sem tækifæri til að uppfræða unga Ísraela og heiminn um réttmæti Zíónisma og Ísraelsríkis. Í það fyrsta sló það Arendt að Eichmann var lítill, veimiltítulegur og veikburða, með nefkvef inn í skotheldum glerkassa á réttarhöldunum, og það sem enn verra var: hann var hálfgerður fáviti. Allar tilraunir til að gera hann að einhverskonar skrýmsli féllu beint á kollinn, því maðurinn var bara svo grátlega einfaldur, hann hafði aldrei nokkurn tíman áttað sig á því að hann væri að gera illt, og hann hafði aldrei að eigin mati gert neitt brotlegt, því lög nasista leyfðu allt sem hann gerði. Enn frekar, þau kröfðust þess. Það hefði verið lögbrot, og því fyrir hinum einfalda Eichmann, siðferðislega rangt, að framkvæma ekki þann glæp að útrýma kynstofni Gyðinga í Evrópu. Þetta var vandamál réttarhaldanna.

Arendt útskýrir fáránlegt mál saksóknarans, sem virtist vera gjörsamlega sama um Eichmann, og færði tugi ofan á tugi eftirlifandi gyðinga frá Evrópu á vitnastallinn sem sögðu hryllilegar sögur af meðferð þeirra í Seinni heimsstyrjöldinni – yfirleitt án þess að á Eichmann væri minnst. Þetta var tilgangur réttarhaldsins fyrir ríkinu og saksóknaranum – að uppfræða heiminn, og Eichmann var bara afsökunin. Þetta fór í taugarnar á Arendt, og hún tekur það persónulega að sér að dæma hann í bókinni, og gerir það á rosalegan hátt, fyrst að saksóknarinn hafði svo lítinn áhuga á því sjálfur.

Hún kemur þar með kenningu sem er orðin þekkt og er að ég held býsna viðurkennd í dag, sem hún kallar á ensku the banality of evil. Það má kannski þýða sem ómerkilegheit illskunnar, sem reyndar er aðeins ofstuðlað á íslensku. Sem sagt, ill verk, sérstaklega verk nasista, sem eru um það bil þau illustu sem um getur, voru alls ekki framin af illustu mönnum sem um getur. Þvert á móti. Þau eru framin af milljón einfeldningum, sem allir réttlæta sitt litla einfalda illskuverk á sinn eigin persónulega hátt – og það nær undantekningalaust. Yfirleitt snerust afsakanirnar um það að gerendur væru bara einn hlekkur í risakeðju og að þeirra gjörðir skiptu engu, að þeim væri skipað þetta, að það að standa á móti væri boð um dauðadóm, að þetta væri allt löglegt, að þeir persónulega finndu fyrir sársauka vegna þessa, en hvað gætu þeir svosem gert í því?

Sem sagt: Einsatzgruppen-hermaður, sem sá aktúelt um að skjóta gyðinga á bak við víglínurnar í Póllandi og Rússlandi, réttlætti þetta fyrir sér með því að hann væri 1) að framfylgja skipunum sem honum væri bannað, sem hermanni, að neita eða efast um, 2) með því að hann greiddi sitt gjald með eftirsjársárum á sálinni, en þetta væri samt hans skylda, og það gerði hann því að enn heiðursverðari hermanni að hann bæri slík sár skyldunnar vegna (þetta er raunverulega ótrúlega algeng réttlæting þessara manna.)

SS-kommandantinn sem skipaði hermanninum þetta notar svipuð rök, sem svo leiðir upp stigann upp að manni eins og Eichmann, sem skipulagði að X margir gyðingar skyldu fluttir (svona var þetta alltaf orðað) á stað Y, og þar skyldu Z margir hermenn taka á móti þeim – þetta voru bara skipanir að ofan, og þar að auki, hann hafði aldrei einu sinni snert neinn af þessum gyðingum, og ekki bað hann um að þeir yrðu drepnir! Svo fer þetta enn ofar, að t.d. Heydrich, sem samdi planið um Die Endlösung der Judenfrage, (heldur aldrei minnst beint á morð) og svo upp að lokum til Hitlers, sem gaf munnlega skipun (aldrei skriflega, í Þriðja ríkinu voru orð Hitlers lög, og urðu eiginlega minni lög ef þau voru skrifuð) um að gyðingum skyldi útrýmt úr Evrópu.

Hversu margir í þessum stiga bera sök? Ég minnist bara á fjóra menn en hérna eru þúsundir – þeir sem ráku gyðingana í lestirnar (sem voru lögreglumenn af gyðingaættum, sem vonuðust til þess að sleppa sjálfir fyrir vikið, sem voru falskar vonir) eða þeir sem óku þeim í útrýmingarbúðir eða fólkið sem sagði til þeirra í byrjun stríðsins, eða kannski gyðingarnir sjálfir fyrir að gera ekki uppreisn? Ef maður breiðir sökinni nógu vítt út er enginn lengur sekur, og ef maður reynir að takmarka hópinn byrjar maður að vera ásakaður um hræsni.

Auðvitað er hvort tveggja óásættanlegt og það verður að draga línu. Þessi lína gæti að einhverju leiti verið ósanngjörn en hún verður að vera til staðar, því annars búum við einfaldlega í bækluðu samfélagi sem getur ekki refsað fyrir glæpi ef glæpurinn er nægilega stór – og þar er Arendt sannarlega á þeirri skoðun að Eichmann sé innan línunnar, sé sekur, þrátt fyrir sína “hreinu samvisku” og skort á glæpsamlegum vilja. Eins og hún orðar það í sínum eigin dómi yfir honum, og ég vil vitna, því mér finnst þetta rosalegur texti:

“...there still remains the fact that you have carried out, and therefore actively supported, a policy of mass murder. For politics is not like the nursery; in politics obedience and support are the same. And just as you supported and carried out a policy of not wanting to share the earth with the Jewish people and the people of a number of other nations – as though you and your superiors had any right to determine who should and who should not inhabit the world – we find that no one, that is no member of the human race, can be expected to want to share the earth with you. This is the reason, and the only reason, you should hang.”

Mér tekst sem manneskju sem er á móti dauðarefsingum yfirleitt að vera ósammála niðurlagi hennar, sem að sjálfsögðu varð að sannleika er Ísraelar hengdu manninn vegna fullkomlega ófullnægkandi dóms, en hún hefur þarna afar rétt fyrir sér að maðurinn er sekur af þessari einföldu ástæðu, þótt málið gegn honum hafði verið rugl.

Maðurinn var nefnilega, þótt ótrúlegt megi virðast, ekki einu sinni gyðingahatari! Það er það rosalegasta við þetta system – maður, sem hatar ekki einu sinni gyðinga, skipuleggur samt útrýmingu á milljónum þeirra, án þess að fá samviskubit, án þess að þola martraðir, án þess að hafa neina skiljanlega og illa ástæðu fyrir því. Því ástæðan “hann er bara skrýmsli” er svo auðskiljanleg – ef hún er fyrir, þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur. Skrýmsli gerir illt því það er öðruvísi en við.

En Eichmann er bara alls ekki öðruvísi en við. Hann er sorglega, sorglega venjulegur, sorglega einfaldur og sorglega sekur. Sú staðreynd að allt Þýskaland hefði getað verið í hans sporum dregur hinsvegar ekki úr sekt hans, og það er það sem Arendt bendir á. Þótt hann hafi ekki einu sinni hatað gyðinga, þá framdi hann ódæði gegn þeim, og þrátt fyrir að hann hafi aldrei áttað sig á að hann væri að gera rangt, þá gerði hann það samt. Hann er gyðingahatari í gjörðum ef ekki í anda, einn sá versti. Og það er sorglegt. Karakter manneskjunnar varð einfaldlega að karakter ríkisins sem hann starfaði fyrir, og hans eigin karakter einfaldlega hvarf, eða var aldrei til staðar til að byrja með.

Allavega, þessi bók er góð, dálítið erfiðlesa lesin, en það er hægt að mæla með henni ef maður hefur þolinmæði fyrir löngu máli. Ég sá á Facebook um daginn að einhver hafði gengið í hóp sem hét eitthvað í áttina við “Frjálsa Ísland” og mælti fyrir einhverri rætinni þjóðernishyggju og varðveislu íslenskra sérkenna. Viðvörunarbjöllur fóru af stað, og ég tel mig ekki vera að fleygja “nasisti” um ábyrgðarlaust eins og margir gera (frekar reyndar “fasisti” hér). Það er ekki langt í það að vera fasisti, það er bara þannig. Nasistar eru ekki sjaldgæf tegund. Það kusu þá milljónir ofan á milljónir manna, og það unnu fyrir þá milljónir ofan á milljónir manna, hugsunarlaust. Þetta er sem stendur einstakt en það er einfaldlega naívítet að halda að svo verði áfram. Það sem þarna var tjáð voru fasískar skoðanir, og ég vona innilega að það sem helst skortir hjá fólki sem styður eitthvað svona sé einfaldlega það að hafa ekki lesið bækur eins og Eichmann in Jerusalem.

Í Falli Berlínar, hinni bókinni sem ég var að klára, eru svo raktar hryllilegar afleiðingar nasismans fyrir Þýskaland; t.d. gjörsamleg, stórkostleg eyðilegging Berlínar (ég trúi því varla að þessi borg sé enn til) og nauðganir á gríðarlegum meirihluta kvenna A-Þýskalands af höndum hermanna Rauða hersins. Og samt mundi Arendt líklega segja, og segir höfundur Falls Berlínar, Antony Beevor, þetta var verðskuldað. Þjóðverjar höfðu, sama hvaða afsakanir þeir höfðu þar fyrir, gert illt, þeir uppskáru það sem þeir sáðu. Þjóðverjum öllum hefndist fyrir linkind þeirra gagnvart nasistum.

Ég veit hins vegar svei mér ekki hvað mér sjálfum ætti að finnast um það, þetta er harkalegt og mikið sigurvegaraattitúd. En svona er sagan. Ekki einfaldur hlutur. Ég er a.m.k. einhvernveginn enn fegnari eftir lestur þessara bóka að ég geti vaknað þessa dagana í Berlín, sem enn stendur uppi, og fengið mér kebab, framreiddan af tyrkneskum innflytjanda, og borgað með evrum í stað Reichsmarka. Ekkert af þessu er nefnilega jafn sjálfsagt og maður myndi hugsa.