mánudagur, október 05, 2009

Liebe und Gewalt

Berlínskar furður:

Þverástfangið rónapar á Ku'damm í slow-motion atlotum, sem mér fannst í alvöru fremur rómantískt,

Vel klæddur ungur maður með dýrt hjól sem skeindi sér með rassinn út í loft í fámennum almenningsgarði,

Heimilislaus maður sem sat og blaðraði við sjálfan sig á Rosa-Luxemburg-Strasse,

Austur-þýskur dansleikur í gömlu Ballhaus við Elvis-tónlist, stundaður meðal annarra af agnarsmáu gamalmenni með hnéskegg, þroskaheftum súperdansara og bústnum lesbíum,

Svartur unglingaþýskumælandi unglingur í fótboltaaðdáendaliði sem blandaði sér og drakk viskí í kók í S-Bahn á leið til Berlin-Hauptbahnhof,

Elskendur, tungum tengdir í S-Bahn, sveigjast um í smáum dansi í takt við hreyfingar lestarinnar,

Gamlir elskendur og rónaelskendur og hippaelskendur og gotaelskendur, líkir sækja líkan heim, öll pör eru líkleg í hinu berlínska almenningssamgöngukerfi,

Þungvopnað lögreglulið með þýskar vélbyssur, ekki minna en fimm bílfylli, vakta þungbrýndir gang Risessunnar frönsku á Unter den Linden,

Glæsilegt nýklassískt hús skrýtt ólíkum textum: annarsvegar hinni ágröfnu latnesku áletrun HANC DOMUM COLENDAE ARTIS CAUSA CONSTITUIT FREDERICUS ANNO MIXCIIIX, og hinsvegar DIE NEUE SUPER-SENSATIONAL SEXY SHOW - BESSER ALS LAS VEGAS,

Maður sem bauð mér konur á gangi heim á leið seint um nótt, ég svaraði með minni dýpstu rödd 'NEIN' og lét vera að segja bitte,

Dúóið Black Lotus á B-Flat-klúbbnum, kínversk, flugþýskumælandi kona að nafni Xiu sem spilaði á kínverska hörpu og banjó og öskraði á meðan trommarinn fór hamförum,

það er mjög auðvelt að upplifa Berlínarrómansinn fræga, þessi orð að ofan bera þess merki. Þó ég ég alltaf að missa af öllu og hef líklega ekki helming þeirra sagna sem aðrir hafa héðan.

Allavega, eitthvað virðist vekja þessa kennd hjá fólki, að rómantísera allt berlínskt. Eitthvað við þessi glæsilegu götuheiti og allt ofbeldið sem skapaði borgina, það gerir það sem eftir lifir að fögrum hlut.

Einhverntíman skrifaði ég íslenskuritgerð um eitthvað hundleiðinlegt efni, þetta var prófsritgerð svo ég hafði engan tíma til að hugsa heldur varð að skila eftir einn og hálfan tíma – ég komst allavega á flug og skrifaði skoðun sem kom sjálfum mér algjörlega á óvart – að öll heimsins fegurð sé byggð á ást og ofbeldi.

Það er nú það.

Þessu velti ég svo alvarlega fyrir mér eftir prófið, hvort þetta væri satt og hvort þetta væri raunverulega mín skoðun sem þarna dembdist út, og ég komst að þeirri niðurstöðu að hvort tveggja væri. Ég man svo ekki hvað ég fékk fyrir ritgerðina, en mér fannst hún býsna merk.

Allavega, Berlín, ást og ofbeldi. Eine Stadt von Liebe und Gewalt.

Toppi rómantíseringunnar er hérmeð náð.