þriðjudagur, nóvember 10, 2009

Múr

Í gær, 9. nóvember, var merkur dagur í þýskri sögu: það eru 20 ár liðin síðan múrinn féll. 20-Jahre Mauerfall sér maður á öllum fyrirsögnum blaðanna og Þjóðverjar virðast ekki geta talað um annað.

Maður hefði jafnvel búist við því, miðað við hversu rosalegt mikilvægi dagurinn hefur fyrir fólk, að hann væri frídagur eða jafnvel þjóðhátíðardagur hins unga, sameinaða Þýskalands, en nei: þetta var afar venjulegur mánudagur á meðan þjóðhátíðardagurinn, Tag der deutschen Einheit, var haldinn fyrr í sumar. Á að giska er þetta dagurinn þegar Austur-og Vesturþýskaland sameinuðust formlega. Alveg eftir Þjóðverjum, samt! Dramadagurinn 9. nóvember er ekki tekinn gildur, en dagurinn þegar stimpli var þrýst á þurran einingarsamning, tja, þá skal aldeilis fagnað í gegn um aldirnar.

Anyway. Í tilefni af þessu öllusaman var eitthvað gífurlegt show planað niðri við Brandenborgarhlið. Við Guðrún Elsa ætluðum að labba þangað og hitta aðra Íslendinga sem þegar voru komnir á slóð herlegheitanna. Þarna áttu að vera ræður frá Gorbatsjoff, frá Merkel, jafnvel honum José Barroso evrókrata, öllum til spennings, að ekki sé minnst á tónlist frá sjálfum Bon Jovi, og svo átti allt að vera toppað með flugeldasýningu.

Nema þegar við Guðrún ætluðum að ganga yfir á Unter den Linden, breiðgötuna sem liggur að hliðinu fræga, fundum við múr, af vopnuðum lögreglumönnum og vegatálmum. Grænir sérsveitarbílar lágu út um allt, í tugatali, og harkaleg rödd öskraði orðaskilslausa skipanaþýsku í megafón, þetta yndislega tæki sem getur breytt hverju mjóróma mannkerti í einhverja fasíska ógn.

Nú skal svo skiljast að skipanaþýska í megafón getur ekki gert neitt annað í þessum heimi en kallað upp myndir af Seinni heimsstyrjöldinni, og vopnuð lögregla með vegartálma sem kemur í veg fyrir að við náum sambandi við vini okkar hinum megin við getur ekki kallað upp neitt annað en myndir af Berlínarmúrnum. Þetta var meira en lítið absúrd. Róni við aldur byrjaði að hrópa gegn lögreglumönnunum “Die Mauer muss weg!”, slagorð sem hefur líklega ekki heyrst á þessum slóðum í ein 20 ár, og stórvöxnum lögreglumönnunum stökk ekki bros. Þeir hafa heldur líklega tekið af honum mynd og skráð í hóp innlendra öfgamanna sem skal fylgst með við mótmæli og kosningar. Kannski tók fjarlæg leyniskytta af honum mið og strauk gikkinn af munúð.

Við leituðum lengra, allstaðar það sama, þetta voru án vafa fleiri kílómetrarnir af vegatálmum og fleiri hundruðir af löggum, allt til verndar fremur aumlegri, miðað við íslenska standarda, flugeldasýningu, leiðinlegum, væmnum ræðum, og Bon Jovi. Í heildina séð get ég sagt að þetta hafi verið, frá mínu fjarlæga sjónarhorni, ótrúlega misheppnuð athöfn, bæði hvað varðar symbólisma og pomp/prakt. Fyrir Merkel, staddri beint undir hliðinu, hefur þetta hinsvegar án vafa verið þrungið hátíðleika, og hið sama fyrir sjónvarpsmyndavélarnar og fréttamennina og þarmeð meirihluta heimsins. Skondið hvernig aktúelt fólk virðist alltaf bara vera fyrir þegar svona seremóníur eru haldnar.

Fórum við Guðrún því kankvís á næsta bar, framhjá auglýsingaskiltum um símafrelsi og kynlíf hinna ríku, og drukkum bjór, til heiðurs valdinu.


Die Mauer muss weg!