föstudagur, mars 12, 2010

Þjóðsöngur

Þjóðverjar hafa þessa miklu byrði að þurfa bæði að skammast sín og samt vera stoltir, innan skynsamra marka, af því að vera Þjóðverjar, og þar kemur upp vesenið með þjóðsönginn. Orðin "Deutschland Deutschland über alles" eru orðin fræg, og ekki af góðu: Þetta eru talin nasísk orð, og vissulega eru það, en aðeins í anda: þetta vers var einnig þjóðsöngur Weimar-lýðveldisins frjálslynda sem nasistar byltu, og nasistarnir sjálfir kusu frekar hið hörmulega Horst-Wessel-Lied sem þjóðsöng eigin ríkis.

Þjóðverjar dagsins í dag nota því ekki fyrsta erindið sem inniheldur þessa línu "Deutschland Deutschland über alles", heldur aðeins það þriðja, sem er fremur saklaust og snýst bara um hin steingeldu hugtök "Einigkeit und Recht und Freiheit" (einingu, réttlæti og frelsi). Það að hafa eins vers þjóðsöng er eilítið sorglegt, og einnig dálítið táknrænt fyrir þjóð sem veit ekki alveg hvar hún stendur á þessu þjóðarstoltsmáli öllu.

En hvað nákvæmlega er nasískara við "Deutschland über alles" en "Íslands þúsund ár" (Nasistaþýskaland átti einmitt að endast í þúsund ár, "das tausend-jährige Reich") eða "L'étendard sanglant est levé" úr franska þjóðsöngnum (hinn blóðugi fáni hefur verið reistur), annað en bara sagan? Eru ekki allir þjóðsöngvar raunar nasískir?

A.m.k. að mínu mati er svarið augljóslega já. Til er hinsvegar alternatív: Bertold Brecht skrifaði aðra útgáfu af þýska þjóðsöngnum, sem mér finnst eiginlega alveg stórkostleg lausn á þessum hnút; eitthvað sem er ekkert nasískt og ekkert þjóðrembulegt, en samt eitthvað sem vekur upp stolt og einingu - og er að sjálfsögðu ekki þjóðsöngur dagsins í dag:

Anmut sparet nicht noch Mühe
Leidenschaft nicht noch Verstand
Dass ein gutes Deutschland blühe
Wie ein andres gutes Land.

Dass die Völker nicht erbleichen
Wie vor einer Räuberin
Sondern ihre Hände reichen
Uns wie andern Völkern hin.

Und nicht über und nicht unter
Andern Völkern wolln wir sein
Von der See bis zu den Alpen
Von der Oder bis zum Rhein.

Und weil wir dies Land verbessern
Lieben und beschirmen wir's
Und das Liebste mag's uns scheinen
So wie anderen Völkern ihr's.

-- (slöpp snörun)

Þokka ei sparið né strit
ástríðu né skilning
svo gott Þýskaland megi blómstra
sem önnur góð lönd.

Svo þjóðir ei fölni
sem frammi fyrir þjófi
heldur rétti okkur hönd sína
sem annarri þjóð.

Vér öðrum þjóðum ofar
né neðar viljum vera,
allt frá Ölpunum til sjávar
frá Oder til Rínar.

Og því við bætum þetta land
þá elskum við það og hlífum því,
og hið kærasta vill það oss virðast,
sem öðrum þjóðum eigið land.