föstudagur, febrúar 19, 2010

Frá Íslandi

Það að koma hingað heim í vikufrí eftir nærri hálft ár í Berlín er eilítið merkt. Í það fyrsta skil ég engan veginn hvernig heilt hálft ár getur hugsanlega verið mögulegt. Í það annað, það er engin leið að bera þessar borgir saman. Í Berlín býr fólk í risastórum íbúðahúsum - stórum byggingum sem innihalda á að giska 50-100 íbúðir og fjögur til sex heimilisföng. Þetta gerir það að verkum að þar er afskaplega hár íbúafjöldi á ferkílómeter, sem gerir það mögulegt fyrir litlar hverfisbúðir að virka. Ef þú setur upp litla ávaxtabúð á einhverri no-name götu sem er nær en næsti súpumarkaður fyrir kannski 200 manns, hefurðu komið þér upp 200 fastakúnnum jafnóðum, og þannig fyrirtæki virðast standa ágætlega undir sér eftir því sem ég sé að utan. Þetta er eilítið annað en Reykjavík þar sem allt sem ekki er Bónus fer á hausinn jafnóðum og menning er eitthvað sem þarf helst að setja inn í búr og undir hitalampa til að fái þrifist.

Svo er Reykjavík svo strjálbýl sumstaðar að það er hrikalegt. Hvert hús stendur eins og eyja í úthafi og ég fékk, eftir Berlín, það furðulega á tilfinninguna að hvert hús stæði í óþökk við hitt, eins og stríðandi fjölskyldur. Borg af stríðandi fjölskyldum. Og hverfisbúðir? Ekki séns. Ekkert menningarlegt getur hugsanlega orðið til í þannig fáránlegu dreifbýli, fólk þarf að leita annað, sem krefst bílaumferðar þar sem engar eru almenningssamgöngurnar, sem mengar og lætur fólk taka bílalán, og í þannig einbýlishúsum er enginn séns á að leigja, svo allir þurfa að taka sér húsnæðislán...

Þetta er eiginlega afskaplega misheppnuð borg, Reykjavík, hvað skipulagningu varðar. Á flestum stigum máls.

Mér líður, eins og minni tilgerðarlegu persónu svo vel hæfir, best í miðbænum. Þar eru kaffihús og barir sem ég fíla, þeir minna mig á Berlín og íbúðina mína á Kuglerstrasse, þar sem mér finnst ég nú eiginlega eiga heima þessa dagana. Á mínu gamla heimili hefur mitt fyrrverandi herbergi verið tileinkað öðrum notum - ekkert miklar breytingar, en nægilegar til þess að ég fíli mig sem gest. Sem er ágætt, annars væri nú lítið varið í þýsku íbúðina og mér alfarið mistekist við að gera hana að eigin samastað.

Nú dettur mér ekkert meira í hug en ég er fáránlega ánægður með að vera kominn til baka. Ég held svei mér þá að þessi heimsókn hafi dregið verulega úr löngun minni til að hallmæla þessu blessaða landi. Með allan sinn vind, alkóhólisma og almennu klikkun.