föstudagur, janúar 22, 2010

Von den Deutschen

Eitt sem ég kem ekki úr höfðinu á mér.

Í tíma um daginn í Griechische Epigrafik (minn uppáhaldstími) var ekki hinn venjulegi prófessor að kenna heldur öllu yngri doktorsnemi hans, sem oft var viðstaddur tímana að vinna og skiptist stundum á bröndurum við okkar stórskemmtilega prófessor. Tíminn snýst sem sagt um grískar grafskriftir, lestur þeirra og úrvinnslu. Hópur nemenda samanstendur af tvemur stórskemmtilegum Þjóðverjum - báðir klæddir eins og herramenn frá árinu 1857, vatnsgreiddir og virðulegir (sem skemmist dálítið í því að annar er bólugrafinn og með unibrow, og hinn með lengsta nef sem nokkru sinni hefur sést á jarðkringlunni) - svo einni grískri stelpu, sem ber forn-grískuna fram með ný-grískum hreim, svo enginn skilur neitt í henni, og loks einum rússneskum skiptinema, sem ber allt fram með rússneskum. Svo er það ég.

Allavega. Doktorsneminn var smá nervös að vera skyndilega orðinn kennari, en þetta er nú ljúfur hópur nemenda. Hann talaði um doktorsritgerðina sína og lét okkur lesa afsteypur, eins og vanalega. En á einum tímapunkti gerðist sem sagt eitt sem mér fannst merkilegt: hann spurði okkur hvort við hefðum heyrt um einhvern ákveðinn fræðing á þessu sviði. Öh, nei, var svarið. Eilítið hneykslaður útskýrði hann manninn, og sagði, já, hann skrifaði heildarsafn um grafskriftir frá Rhodos, og já, hann var gyðingur, og var drepinn af Þjóðverjum árið 1944 - í Auschwitz (wurde 1944 von den Deutschen umgebracht - in Auschwitz.)

Eftir þetta kom eilítil pása, eilítil þögn í hópnum, og svo hélt hann áfram eins og ekkert hefði í skorist. Verkið var tilbúið fyrir en gefið út á þýsku fyrst eftir hans dag, enda voru ekki gefin út verk eftir gyðinga í Þriðja ríkinu. Við nýttum það ágætlega í tímanum. Það merkilega, hinsvegar, fannst mér vera orðalagið von den Deutschen. Af Þjóðverjum. Ekki von den Nazis, von den Nazisten. Deutschen! Ég efast ekki um að þessi doktorsnemi telur sig vera ein Deutscher - en varla var þetta tilraun til að taka sjálfur einhverja ábyrgð á Auschwitz? Eða hvað?

Til eru vissulega rök um að svona hlutir geti erfst á þjóðir yfir langan tíma, yfir kynslóðir, þ.e. að það sé ákveðið réttmæti í því að taka á sig syndir feðranna. Þjóðir eru symbólískar og skömm þeirra er jafn symbólísk. Það að skipt sé um ríkisstjórn þýðir ekki að þjóðin sé laus allra mála frá gjörðum þeirrar fyrri. En svo kemur á móti að það að taka ábyrgð á glæpum annarra og finna fyrir einhverri skömm þar fyrir lyktar að sjálfsvorkun frekar en nokkurri raunverulegri umhyggju fyrir öðrum.

En mér fannst hann sjálfur furða sig á því af hverju hann tók svona til orða, og þess vegna kom pásan. Þetta er náttúrulega alveg rétt! Þeir sem dóu í Auschwitz voru drepnir von den Deutschen - Deutschen þess tíma, en það er ekki beint eitthvað sem maður hendir inn í daglegar samræður.

Ég velti fyrir mér hvort prófessorinn sem venjulega kennir - öllu eldri maður - myndi hafa sagt þetta svona, hvort hann hefði ekki alveg örugglega sagt "von den Nazisten". Þetta er nær honum og pressan er meiri að halda einhverri fjarlægð til haga - því það er alls ekki augljóst að þessi manneskja hafi ekki verið í Hitlerjugend, eða faðir viðkomandi í hernum, eða eitthvað þvíumlíkt.

Og hversu oft skyldi svona koma upp hérna í Þýskalandi? Nákvæmlega einhver svona móment, þar sem einhver þarf að tala um glæpi feðranna. Þá held ég að margt komi í ljós. Það er nefnilega merkt hvernig andstaða við nasista hefur birst hér í Þýskalandi. Í það fyrsta, á meðan landinu var skipt í vestur og austur, þá kenndi hvor aðilinn hinn við nasista - V-Þjóðverjar sögðu, nasismi og kommúnismi eru hvort tveggja alræðislegar hreyfingar, og nasisminn lifir því í austri - og A-Þjóðverjar sögðu, það eru Vesturveldin sem eru fæðingarstaður fasismans, og eins arms hans, nasismans. Þaðan koma hin illu áhrif, en andfasisminn kemur úr Austri - kommúnisminn.

Það er mikið af minnismerkjum gegn nasistum hér í Berlín og þau eru algjörlega ólík eftir því af hvaða ríkisstjórn - Austur-, Vestur- eða sameinaðri - þau voru byggð. Göturnar í Austur-Berlín heita eftir kommúnistum/andfasistum sem voru drepnir í Þýskalandi fyrir stríð - Sredzki og Knaack og allt þar fram eftir götunum. Sumum nöfnum hefur verið breytt eftir sameininguna - allir kommar sem voru ekki beint drepnir af nasistum misstu göturnar sínar og þær þá kenndar við lönd og borgir eða eitthvað álíka saklaust.

Þetta er ekki sú hugmynd sem maður hafði fyrst þegar maður kom hingað um hvernig fólk hefur sæst við fortíðina - það er sannarlega satt að mikið hefur verið gert í því en það hefur verið í svo miklum pólitískum tilgangi. Í það minnsta fær maður alltaf á tilfinninguna að þetta hafi verið allt framið von den Hitlerfaschisten í austri, eða von den Totalitarianisten í vestri, eða stundum í sameiningarbyggðum innismerkjum almennt von den Nazisten.

Í því tilfelli er kannski gott að hugsa til þess að ungir doktorsnemar segi það sem enn sannara er. Von den Deutschen gæti verið það eina sem hægt er að segja í fullkominni, ópólitískri hreinskilni, sem var það eina sem ég skynjaði frá kennara mínum - Þjóðverja annarra og betri tíma.