sunnudagur, september 09, 2007

'Nú þegar lögreglan hefur troðið skrílinn niður og endað óöldina í miðænum, getur hún nú kannski loksins hreinsað burt þessa fjárans gyðinga'

Nýlega hóf Morgunblaðið umfangsmikla umfjöllun um næturlíf borgarbúa og ferðamanna stadda hér á landi. Fólk mátti ekki kasta af sér þvagi í húsasundi án þess að Mogginn harmaði viðburðinn í nákvæmri frétt um hve oft viðkomandi hristi.

Svo vill til að kominn er nýr lögreglustjóri. Hann er víst ungur og óreyndur en hefur greinilega gott sens fyrir almannatengslum, enda hefur hann stöðugt svarað borgaralegum ó-vei hrópum blaðanna og fundið upp á nýjum og nýjum smáborgaralegum árásum á friðhelgi einkalífsins til að friða aldraða miðstéttina.

Það sem oft vill gleymast er að lögreglumenn eru afar fáir, og þeim fækkar stöðugt, vegna lélegra launa, illrar meðferðar og ósætti við yfirmanninn og nýja starfshætti. Nýlega tók til starfa svokölluð greiningardeild Ríkislögreglunnar, sem hefur það ágæta markmið að safna upplýsingum um Íslendinga og þeirra gjörðir. Einnig var fjölgað í sérsveit lögreglunnar, og það var gert að fullu starfsheiti; þ.e. sérsveitarmenn eru alltaf á fullum launum á vakt og vinna ekki sem venjulegir lögreglumenn þegar ekkert er að gera. Sem er oftast.

Eftir ellefta september hefur það ávallt verið vinsælla og vinsælla hjá yfirvöldum á vesturlöndum að koma fram við alla borgara eins og glæpamenn. Fyrst fólk er saklaust uns sekt er sönnuð, skal bara búast við sekt allra. Sigri hrósandi státa lögregluyfirvöld sig af fjölgun eftirlitsmyndavéla, bæði venjulegra og véla sem fylgjast með umferðarhraða. Á sama tíma hafa umferðarsektir hækkað um mörg hundruð prósent. Vélar þessar borguðu sig víst upp á tvemur vikum eða eittvað þvíumlíkt. Ég vil helst ekki hugsa um hvert gróðinn af þessum vélum fer. Ég hef á tilfinninguna að það sé í stærri byssur á sérsveitina og alls ekki í laun hins almenna lögreglumanns.

Það nýjasta nýtt er sem sagt gríðarlegt lögreglueftirlit í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Sérsveitin sér nú um löggæslu í miðbænum (vonandi óvopnuð.) Fólk er handtekið fyrir að henda rusli á götur og pissa. Þeir tala víst um 'færibandsaðferðina' þar sem fólk, fyrir minnstu sakir mögulegar, er eiginlega neytt til þess að borga lögreglunni tíu þúsund krónur. Aftur er ég uggandi um ágóða lögreglunnar af þessu. Einnig er það góð spurning af hverju þessir hlutir verða skyndilega að glæpum á ákveðnum tíma sólarhrings um helgar og hvort einhver lagaleg heimild sé fyrir þessari vitleysu, þessari 'færibandsaðferð'.

Það er einfaldlega ekki rétta aðferðin að bregðast við einhverju svona með Big Brother aðferðinni. Af hverju pissar fólk á göturnar, af hverju sækir það út úr stöðunum til að skemmta sér, af hverju myndast slagsmál, af hverju fer fólk yfirleitt í miðbæinn? Fólk er ekki að gera þetta af fólskulegri illsku eða vegna tengsla við Al-Qaeda. Nokkrar ábendingar til lögreglunnar, sem mun aldrei lesa þetta (eða ef þeir lesa þetta, munu þeir setja mig á einhvern lista yfir 'atvinnumótmælendur' hjá greiningardeild) og annarra smáborgara sem krefjast úrlausnar á 'óöldinni':
  • Drykkja áfengis er ekki ný af nálinni. Mannkynið hefur bruggað bjór (sem er afar flókið ferli) lengur en það hefur baðað sig (afar einfalt ferli.) Það er gjörsamlega árangurslaust að reyna að banna áfengi; þá mun fólk bara drekka landa í staðinn og verða verra fyrir vikið. Að banna eitthvað breytir eftirspurninni ekki neitt.
  • Af hverju fyllast húsasund Laugavegar af hlandi um helgar? Því fyrir útteygðar þvagblöðrur bjórdrykkumannsins er í fá önnur hús að venda, því í miðbænum eru nefnilega engin almenningssalerni.
  • Við fólk sem býr í miðjum miðbænum. Við hverju í ósköpunum bjuggust þið? Þið talið oft um að það þurfi að færa skemmtistaðina úr íbúðahverfunum. Tja, gangi ykkur vel. Ætlið þið að reka þá burt með vopnavaldi? Biðja þá kurteislega?
  • Ástæðan fyrir því að fólk sækir út af stöðunum til að skemmta sér er ein. Reykingabannið. Borgaryfirvöld verða að spyra sig hvort það hafi virkilega verið þess virði og vera nógu skynsöm og hógvær til að skilja að þetta var bara mjög illa ígrundað bann.
  • Það er bara ekki mjög vænlegt til árángurs í kosningum að kalla stóran hóp ungra Reykvíkinga 'skríl'. Bara plís dónt, ég tek þessu persónulega.
Öll þessi umræða er afskaplega lituð af því að þeir sem að henni koma hafa aldrei stigið í miðbæinn um helgar og vita ekkert um hvað það er að tala. Reykjavík er alltaf að verað stærri og stærri og meiri stórborgarbragur að koma á hana, og sömuleiðis hljóta vandamálin að aukast. Erlend blöð eru ekki uppfull af fréttum um hvað lögreglan gerði í drykkjulátum borgarbúa, það eru ekki fréttir neinsstaðar nema hér. Fólk drekkur og fólk lendir í vandræðum og þetta er einfaldlega mannlegt vandamál sem er ekki að fara að hverfa nema með öllu fasískari aðferðum en ég er tilbúinn að lifa við. Leave it alone.