föstudagur, september 21, 2007

Aðgerðin 'Pólstjarnan'

Nú er það mikil frétt að lögreglu Íslands hefir tekist að leggja hald á um sjötíu kílógrömm af amfetamíni sem einhverjir seinheppnir sjómenn sigldu með á Fáskrúðsfjörð. Fyrirsagnir íslenskra miðla eru bráðfyndnar að vanda.

Blaðið er með risastórt "TEKNIR" á forsíðu. Vísir.is var víst með fyrirsögnina 'STÆRSTI FÍKNIEFNAFUNDUR SÖGUNNAR'.

Húrrahrópunum ætlar ekki að linna og nú á víst stofnun ríkislögreglustjóraembættis, greiningardeildar og sérsveitar að vera fullréttlætt. En sumir muna kannski eftir að undanfarið hafa þessi mál komið upp aftur og aftur og aftur... 'stóra fíkniefnamálið' og 'stærra fíkniefnamálið' og 'stóra kókaínmálið' og svo framvegis og svo framvegis. Samt sem áður eru allir sannfærðir um að þetta vandamál sé að ágerast. Hvernig passar þetta saman?

Nú er hugmyndin á bakvið aðgerðir á við þessa að hér sé verið að forða dópistum frá hinu ógurlega eiturlyfjahelvíti sem þeir munu annars sogast enn dýpra í - og með þessu sé einhverskonar sigur unninn gegn hinni illgjörnu eiturlyfjamafíu landsins. Þetta er ákveðinn langvinnur misskilningur um hvernig eiturlyf nákvæmlega koma inn í samfélagið sem við búum í.

Eiturlyfjamarkaðurinn fer eftir öllum lögmálum um framboð og eftirspurn eins og hver annar markaður í kapítalísku hagkerfi. Munurinn er hinsvegar sá að með því að minnka framboð minnkar eftirspurn ekki neitt: Þetta eru fíkniefni, kaupendur eru háðir þeim.

Þar sem lyfin eru ólögleg og áhætta að flytja og selja þau hækkar verðið á þeim langt yfir framleiðslukostnað sem gerir sölu og flutning þeirra að gríðarlegu gróðafyrirtæki. Þúsundir manna vinna við þetta út um allan heim, því að ágóðinn af þessu ákvarðast við áhættuna og yfirvinnur hana; eiturlyfjasalar græða nóg á þessu til að finnast það þess virði að lenda kannski í fangelsi fyrir vikið.

En nú þegar ein sjötíu kíló af amfetamíni hverfa af markaðnum munu nokkrir hlutir gerast og engir þeirra íslensku samfélagi í hag.

  • Verðið á amfetamíni á götunum mun hækka. Amfetamín er dýrt efni og þeir sem eru háðir því eru líklega ekki mjög efnaðir fyrir vikið. Nú hafa margir hverjir líklega ekki efni á skammtinum sínum.
  • Til að fjármagna þennan skort munu þeir grípa til þess að ráðast inn í næstu 10-11 og ógna fimmtán ára afgreiðslustúlkunum með vasahnífum.
  • Svona hlutir misheppnast nær alltaf og þá verða komnir fleiri unglingar í fangelsi og á sakaskrá, og þessir sömu unglingar fá ekki vinnu framar, og hafa eiginlega ekkert frekara að gera í lífinu sér til brauðs en að... já... selja dóp.
  • Í þeim skorti sem nú mun myndast á Íslandi og með þessari verðhækkun, mun innflutningur amfetamíns hingað verða þeim mun gróðavænlegri en áður. Íslenskir 'athafnamenn' munu nú rjúka upp til handa og fóta og drífa sig að flytja meira inn til landsins til að nýta sér þessa stöðu. Ég held satt að segja að afleiðingin verði meira amfetamín en áður á landinu.
Enn önnur afleiðing þessa er sú að hið nýja skipulag lögreglunnar fær athygli og hylli og, guð forði okkur frá því, að það verði jafnvel meira fjármagn veitt embætti ríkislögreglustjóra. Til dæmis um algjöran ofmetnað þessa embættis þessa stundina skal til dæmis nefnt að Blaðið telur yfir fimmtíu lögreglumenn hafa tekið þátt í handtöku þessara sjómanna; flestir þeirra sérsveitarmenn á ómerktum jeppum. (Örugglega svörtum á lit.) Og til að toppa þetta allt fékk þessi 'aðgerð' víst hernaðarheiti; 'Pólstjarnan'.

Íslenska lögreglan er í lögguleik sem hún tekur afar alvarlega. Um daginn kom frétt þess efnis að íslenskir lögreglumenn væru nú á námskeiði hjá bandarískum kollegum sínum í 'mannfjöldastjórnun' (crowd control). Ljósmynd af þeim var birt í Fréttablaðinu, svartklæddir í skotheldum vestum með stóra óeirðaskildi. Það vantar bara nokkra á svörtum hestum með táragasbyssur - þá fer þetta að líta út eins og fréttaljósmynd frá tímum kynþáttastefnunnar í Bandaríkjunum - þegar herlögreglumenn marseruðu um með þessa sömu skildi, sumir einmitt á hestbaki, og börðu upp höfuðkúpur svertingja sem dirfðust að krefjast réttinda sinna.

Ég hef illilega á tilfinningunni að bráðum muni eitthvað hrikalegt gerast í þessu valdaójafnvægi milli lögreglu og borgara. Þú gefur manni ekki byssu ef þú býst ekki við því að hann skjóti einhvern - ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég er skíthræddur við eigin lögreglu og ég er ekki viss um að ég mundi taka þá áhættu að leita réttinda minna gagnvart henni ef hún gæfi mér skipun.

Það er alltaf best að hlýða manni með byssu.