þriðjudagur, september 11, 2007

Tónlistarferill. Stefnulaust

Flestir ættu að kannast við að fá sér geisladisk með einhverjum tónlistarmanni og melta hann - það er fátt skemmtilegra. Ég finn afar mikið fyrir því hversu fáránlega langt ég á eftir, hversu mikið af tónlist ég á eftir að hlusta á sem ég mun elska.

Fyrir um það bil fimm árum hlustaði ég varla neitt á tónlist. Svo datt ég inn í klassískt rokk og varð þessi hroðalegi hlutur, hataður af kúlistum allstaðar - gullaldarperri.

Að sjálfsögðu var það Led Zeppelin til að byrja með. Þetta kannast allir gullaldarperrar við. Þegar maður er þarna þrettán til fimmtán er einfaldlega ekkert svalara til - hljóðfæraspilunin er mögnuð og lögin eru öll grípandi og frábær - hvert og eitt einasta og það eru hundruðir sem þeir sömdu. Fyrir hvern þann sem hlustaði á FM957 á sínum smekklausu barndómsárum var þetta ótrúlegt. Ég vissi ekki að svona tónlistarmenn væru til.
Þá komu Bítlarnir næst. Ef eitthvað réttlæti væri í heiminum væru þeir á undan, en svona er þetta. Það tók mig reyndar langan tíma að hlusta þá alla upp. Það er hinsvegar vel þekkt að aldrei hafa hæfileikaríkari lagasmiðir og tónlistarmenn starfað saman. Maður heyrir strax að þetta eru Bítlarnir, það er eitthvað sánd sem þeir hafa og enginn annar. Það er takmarkandi en einstakt. Eins öðruvísi og Julia og Hey Jude eru, þá eiga þessi lög eitthvað sameiginlegt. Allir Bítlarnir lærðu af hver öðrum og gáfu fram og til baka - Paul skrifaði John-leg lög og öfugt og sama með George. Og, tja, Ringo, býst ég við.

Svo byrjar ballið. Ég varð versta týpan af gullaldarperra; ég heyrði lagið Shine On You Crazy Diamond Part I í útvarpinu (já, allar þrettán mínúturnar) og ég hafði aldrei heyrt neitt svona fallegt - ég varð kolástfanginn af Pink Floyd.

Nú, ég skil vel af hverju þessi sveit er litin hornauga í kúlistahringjum. Þeir eru snillingar, en þeir eru vissulega eins 'pretentious' og hljómsveit verður. Þeir hafa hinsvegar góða ástæðu fyrir því: þeir voru einfaldlega að gera stærri hluti en aðrar hljómsveitir og skammast sín helst til lítið fyrir að segja það. Hljóðfæraleikurinn er ótrúlegur - ekkert hljómar eins og Pink Floyd plata. Þær voru óaðfinnanlega hljóðblandaðar og enn í dag er Dark Side of the Moon notuð til að prófa hljóðkerfi. Einnig eru textar Roger Waters frábærir og ég taldi þá lengi vera toppinn á textasmíði dægurtónlistar, þangað til ég uppgötvaði þann tónlistarmann sem ég met nú líklega mest af öllum.

Bob Dylan, sem fæddist undir nafninu Robert Allen Zimmerman, er magnað ljóðskáld. Hann skrifar í beinni mótsögn við hina beinu, tilfinningaþrungnu og skýru texta Roger Waters. Dylan getur skrifað fullkomlega um tilfinningu með því að skrifa ekkert um hana sjálfa heldur um allt í kringum hana, aðstæður og afleiðingar án þess að tilgreina orsök eða ástæðu. Hann spinnur af sér frasa sem eru svo ótrúlega fjarstæðukenndir en svo stórkostlega rökréttir að þeir festast í huga manns og hverfa aldrei - það er hægt að koma sér upp ágætu orðatiltækjasafni úr Dylan-textum sem ættu að geta þjónað manni við flest tækifæri, þótt áheyrendur ræku líklega upp stór augu. Þessi textasmíð er ekki tilgerðarleg á neinn hátt (finnst mér!)

Þrátt fyrir að vera meðalmaður í hljóðfæraleik og söng hefur hann sankað að sér mögnuðum tónlistarmönnum til að spila með sér á plötum sínum og hafa þær oft náð að gjörbreyta dægurtónlistarheiminum til hins betra með einhverju glænýju. Flestir ljóðrænir dægurlagatextar sem þið hafið heyrt eru innblásnir af Dylan. Tónlist hans er rík og svo glæsileg á svo viðkvæman og tilraunakenndan hátt, ekkert er fullkomið en það gerir þetta svo ótrúlega mikið betra sem hann er að gera.

~

Eftir Dylan (ég á nú samt langt í land með að hlusta á hann allan) hafa önnur bönd verið að uppgötvast á sífellt meiri hraða og fleiri tónlistargeirar. Djass, Miles Davis og John Coltrane, og svo soul og gospel og blús - í klassíska rokkinu eru svo The Band og Rolling Stones og Van Morrison og svo að sjálfsögðu fullt, fullt, fullt af öðru sem ég er ekki að minnast á.

Ég held að ég geti verið þolanlega ánægður með árangurinn hingað til. Ég hef farið úr engu í þó nokkuð en það er ótrúlega mikið eftir. Ég á eftir að sökva mér ofan í klassíska tónlist og ég veit að ég mun elska hana. Hinsvegar langar mig eiginlega varla til þess að fara út í það. Það verður mál. En ég vonast eftir þolanlega löngu lífi sem ég get eytt í þetta hobbí. Þeir eru raunar fáir hlutirnir sem ég vildi frekar eyða tíma mínum í.

Hu. Á öðrum nótum byrjaði ég á þessum pósti til að tala um lagið Acadian Driftwood með The Band. Síðan vatt þetta svona upp á sig.

Anyway, þá er það geðveikt lag.