fimmtudagur, maí 03, 2007

Þessi pistill er um stjórnmál og er langur og leiðinlegur eftir því

Gaman er af stjórnmálaauglýsingamennsku í blöðunum. Yfirleitt byrja þessar greinar á einhverju einföldu, sem allir geta verið sammála um:
  • Nú eru kosningar að hefjast.
Þetta setur rétta tóninn, því að lesandinn skal hugsa 'aha! Sannleikur! Þessari manneskju er treystandi, og hefur líka svo fallegt bindi. Ég mun halda áfram lestri mínum.'
  • Nú er það á ábyrgð okkar Íslendinga, að koma ákveðnum breytingum á.
'Jasso!' Hugsar kjósandinn. 'Þar hittir hann/hún naglann á höfuðið! Ég hafði næstum því ekki efni á síðasta líkamsræktarkorti og er í hefndarhug.'
  • Samfylkingin hefur viljann og styrkinn til að stuðla að betra Íslandi.
'Aha!' Hugsar hinn skarpskyggni kjósandi. 'Þessu trúi ég varlega. Hvað hafa þeir á prjónunum?' spyr hann sig, fullur gáfulegra efasemda, með augabrýrnar upp í loft á lýðræðislegan hátt. Nú hefst leikurinn fyrir alvöru.
  • Samfylkingin styður markvissa eyðingu fátæktar á Íslandi, en rannsóknir sýna að í dag lifa fimm þúsund íslensk börn undir fátæktarmörkum. Einnig viljum við hefja markvissa eyðingu biðlista á spítölum landsins, og auka stuðning og aðhlúningu við börn með geðræn vandamál. Ennfremur viljum við lækka skatta á láglaunafólki, auka hátekjuskatta, auka framlög Íslands til þróunarhjálpar og koma á heimsfriði.
'OMG!' hugsar kjósandinn. 'Þetta er nákvæmlega það sem mér finnst! Ég skrái mig snarlega í flokk.'

Eins og sumir lesendur hafa eflaust tekið eftir er ekki hægt að vera ósammála neinu á þessum lista. Maður spyr sig hvernig standi á því að þessi vandamál séu til staðar ef enginn er til sem veldur þeim og enginn sem ekki vill þau laga. Eina niðurstaðan sem hægt er að komast að er einfaldlega sú að þetta séu vandamál sköpuð af samfélaginu sjálfu, svo illleysanleg að stjórnmálaflokkar geta ekkert gert til að bæta úr. Lítum nánar á þennan lista.

Í byrjun pistilsins má sjá orðið 'markviss'. Þetta ágæta lýsingarorð er alltaf algjörlega merkingarlaust. Svona eins og orðið 'of' í fornum íslenskum ljóðum. Svo er talað um 'eyðingu fátæktar'. Aldrei er minnst á aðferð til þessa og það er vegna þess að engin aðferð er til. Einnig er dálítið þjóðhverft að tala um fátækt á Íslandi, þegar einhversstaðar í hinum stóra heimi sem er vissulega til fyrir utan Ísland liggur barn með uppþembdan maga og skerandi rifbein í sólinni og hrærir sig ekki af vanmætti þótt ormar séu þegar farnir að grafa sig inn í augu þess. Það er dálítið annað en það sem fyrirfinnst meðal þessara 5000 barna á Íslandi. Eitthvað annað orð væri gott hérna, kannski 'alsnægtaskortur.' Hann er visssulega til á Íslandi, og hann má kannski laga. Öllu verra er með hitt, en það viljum við helst ekki leiða hugann að. Flestir sjá að við höfum enga lausn á því.

Annað merkilegt eru stöðugar tilvísanir í 'rannsóknir'. Rannsóknir eru, ólíkt því sem stjórnmálamenn vilja halda fram, þverafstæðar. Alltaf þegar vitnað er í rannsókn hætti ég að hlusta, því það er alltaf til önnur rannsókn sem segir einmitt hið gagnstæða. Stjórnmálamenn reiða sig á að enginn rannsaki rannsóknirnar og tékki á því hvort þær séu unnar með einhverri fræðilegri aðferð eður ei, og ég skil það svosem, því hver nennir því?

Ég held því fram að það sé enginn flokkur á Íslandi sem vilji breyta samfélaginu að neinu verulegu leiti. Eina mögulega breytingin sem getur orðið í kjölfar þessara kosninga er einhver skattahækkun ef VG kemst í valdastöðu. Sjálfstæðismenn (sérstaklega ungir Sjálfstæðismenn sem vita ekki hvað kommúnismi er) halda því statt og stöðugt fram að Ísland muni umturnast í kommúnistaríki ef svo fer, en það er ekki mjög raunsætt sjónarmið. Ísland verður alveg eins fyrir og eftir þessar kosningar. Hinsvegar finnst mér löngu vera kominn tími á að Sjálfstæðismenn prófi smá setu í stjórnarandstöðu. Það drepur engan, það týnist enginn eignaréttur né rísa samyrkjubú, það þýðir bara að rostinn verður smávegis lækkaður í valdhöfum okkar, og þess er sannarlega þörf.

Kosningar eiga að vera hefndarstarfsemi. Ekki kjósa með heilanum, það er röng aðferð. Kjósendur eru alltof margir til að reyna að taka gáfulegar ákvarðanir í sameiningu. Það sem gildir er bara að hefna fyrir þær skyssur sem Sjálfstæðismenn hafa gert í sinni endalausu stjórnartíð, svo sem Íraksstríðið, Falun Gong málið og allt hneykslið með þennan bévítans söngfugl kínverska kommúnistaflokksins sem við sleiktum svo upp að ég fæ ennþá hroll þegar ég hugsa til þess; fjölmiðlamálið allt (sem ég þó studdi) þegar Sjálfstæðismenn vildu breyta stjórnarskránni í sinn hag, og svo ótalmargt fleira.

Svo að lokum bara það augljósa: Það er einfaldlega ekki lýðræðislegt að flokkur sitji svona lengi við völd, og ennfremur er það fáránlegt að fylgislaus flokkur eins og Framsókn hafi setið þetta lengi með þeim. Nú sá ég að þeir eru að auglýsa sig með einhverskonar hipphoppbúfénaði til að höfða til yngri kynslóðar kjósenda. Þetta á víst að sameina þau þjóðlegu, íslensku gildi sem flokkurinn stendur fyrir og um leið sameina þau við nýjasta nýtt frá blámönnum nýja heimsins. Ef þetta sjarmerar ekki unga fólkið, þá veit ég ekki hvað.

Eitt er þó gott að hefur ekki breyst í íslenskum stjórnmálum; frambjóðendur okkar eru enn í dag ljótir. Það er gott að fegurðarbrjálæðið allt sé ekki komið þangað inn og við höfum enn þann kost að kjósa yfir okkur ljótara fólk en okkur sjálf. Þegar það síðasta vígi fellur, veit ég svei mér ekki.