mánudagur, júní 07, 2010

Es lebt!

Ég hef talað of mikið um Berlín og get nú loks tekið mér frí, enda kominn til baka, og þótt maður hafi óttast annað er það frábært. Reykjavík er að sjálfsögðu verri borg per se, en hér er nú allt sem maður elskar, þegar öllu er á botninn hvolft.

Ég bý á Hringbraut 48 þessa dagana, með einn fataskáp, einn bókaskáp, tvær hillur sem fara undir græjur, geisla/DVD-diska og krúttlega æskuhluti (allir verða að eiga krúttlega æskuhluti) og skrifborð með fartölvu á. Þetta nægir mér fullkomlega. Auk rúms. Nægjusemi mín er til fyrirmyndar, svona fyrir utan stanslausa löngun mína í dýran, þýskan bjór.

Sem stendur virðist ég hafa það að atvinnu að stytta og vinna í texta fyrir einhverskonar byggðaþróunarbók fyrir ákveðna sýslu - þ.e. tölvuhandavinna með frjálsan vinnutíma og verktakalaun. Þetta er ég ágætlega sáttur við, ég fæ tíma til að vera í sumrinu, hitta elskhugann og læra portúgölsku, mitt nýjasta málæði. Eu não falo português bem (ég tala portúgölsku ekki vel), segi ég sigri hrósandi með manísku augnaráði. Að vanda hjá mér hef ég lært hingað til aðallega af bossa nova-lögum, og get því mest talað um trega minn og ástarsorg; Tal saudade! Hvílíkur tregi! A tristeza não tem fim / felicidade sim (hryggðin tekur engan enda; en það gerir hamingjan.) Þetta er allt í ágætu, stórskemmtilegu misræmi við raunverulegt skap mitt, sem er afar sátt, og nokkuð, mestmegnis, án saudade til Berlínar eða tristeza um nokkurt.