föstudagur, apríl 09, 2010

Kominn tími á eitthvað

Seinasta prófinu mínu var frestað, enn einu sinni. Námsárangur minn hér úti er enn sorglegur, en hann var nú líka alls ekki pointið.

Ég á u.þ.b. þrjár vikur eftir hér og ég hef frestunaráráttu gagnvart öllu sem ég þarf að klára áður en ég fer heim. Viðkvæðið var alltaf 'eftir síðasta prófið', en nú verður það dálítið erfiðara að réttlæta.

Húsagarðurinn minn er litaður skjannahvítur af kuskinu sem verkamennirnir þyrla upp við renóveringu á húsinu á móti. Í allan vetur hafa þeir hjakkað í veslings gamla leigubragganum (Mietskaserne eins og þessar byggingar kallast á þýsku), fleygt út húsgögnum af efri hæðum með tilheyrandi hávaða og öskrað á hvern annan á berlínarþýsku. Nú er sól og þeir sitja ósköp rólegir við brotið plastborð sem þeir hafa kastað niður í garðinn, drekka verkamannakaffi úr örbylgjuofni (ímynda ég mér) og hlæja digurbarkalega.

Ég hef þann sið að lesa upp fyrir mér í hausnum alla skrifaða þýsku sem á vegi mínum verður, sem oftast þýðir auglýsingar. Þetta er allt fast í mér núna, Einige Acts sind derart heiß, dass sie mit Regenwasser gekühlt werden müssen; Die Show, die aus der Reihe tanzt; von Herz zu Herz; Wir dulden keinen Naziterror!; Sehr geehrte Fahrgäste: beim Aussteigen, bitte beachten Sie die Lücke zwischen Zug und Bansteigkante; Fahrgäste nach Messe Nord, ICC, bitte steigen Sie hier in die Ringbahn um; Ihr Sitz ist keine Mulldeponie!; Antifa-Zone; Nazis RAUS!; Alles muss raus; Alles muss rein; Wir haben die Wahl!; Wie der Film. Nur Anders. Aber alles live. Svo margt annað, svo mikið af ósmekklegri þýsku að það er magnað.

Í þessari heimsókn hef ég unnið mér það til sóma að hafa drukkið tvær ár, skemmt mér fáránlega mikið, kynnst gífurmörgum vinkonum og því næst sem byrjað að hata karlmenn. Ég hef orðið drukkinn á einkar góðum fjölda bara, villst í sporvagni og fleira og fleira. Námslega séð hef ég, tja. Lært að lesa af grískum steintöflum! Það var góður kúrs, og einungis tveggja eininga virði, húdaþönkit.

Ég hef mjókkað verulega, ég verð ekki þreyttur á að tala um það. Útlitsbætingar almennt, og það án þess að reyna. Ég hef lært að elda og að vera gestgjafi; ég hef lært um fáránleika Íslands og borið hann saman við hinn þó verulega fáránleika Þýskalands (ekkert samt miðað við hitt.) Ég hef fengið hugmynd að þúsund greinum og skrifað þær fæstar. Kannski kemur einhverntíman flóðið.

Stundum hefur mér tekist að fá það á tilfinninguna sem satt er að ég er essentíelt að ganga á líkum hér í Berlín. Kannski ekki beint grafin undir manni, en það er satt að segja nokkuð víst að allstaðar sem maður gengur hér um hefur einhver verið drepinn. Þegar maður gengur Unter den Linden er maður að ganga leið sem Hitler hefur gengið. Þegar maður gengur frá Reichstag-torginu yfir á Potsdamer Platz er maður að ganga leið Hitlers frá kanslarahöllinni til neðanjarðarbyrgisins, hans seinasta ganga ofar grundu. Það er ekki eitthvað sem kemur upp í höfuðið á manni viðstöðulaust, en er satt. Ég hef staðið þar sem Hitler skaut sig, eða fyrir ofan, öllu heldur; það verður eiginlega að teljast magnað.

Ég hef í hyggju að annaðhvort splæsa í eða fá lánaða myndavél bráðlega og fara í myndakúrs um þessa borg og taka ljósmyndir af því sem ég elska héðan. Ég held að ég myndi sjá verulega eftir því ef ég gerði það ekki. Og myndi þá birta það hér, uppfullur af portúgölsku saudade.

Meira síðar, meira síðar