laugardagur, apríl 24, 2010

Schönhauser Allee

Fyrir framan Berliner Sparkasse, bankann minn, má yfirleitt finna einn til sex leðurklædda, bleikhærða anarkista af báðum kynjum, og allir með hund eða tvo. Þeir standa þarna, reykja, drekka rónabjór Berlínar, Sternburger Export, og betla hávært og hæðnislega frá kapítalískum viðskiptavinum bankans. Ekkert er gert til að leyna því að það sem betl-peningarnir fara í er Sternburger og döner – nokkuð sem ég virði þá dálítið fyrir, og gef þeim því endrum og eins svosem tíu sent.

Fyrir framan mollið Schönhauser Alle Arkaden, við lestarstöðina, er alltaf troðfullt af fólki – þar er hinn nauðsynlegi þýski pylsustandur, eldra fólk og unglingar streymandi inn og út úr mollinu og inn og út úr lestarstöðinni, og einn eða tveir hópar af atvinnuhugsjónafólki – þ.e. meðlimir dýraverndunarsamtaka eða stjórnmálaflokks sem hafa það að atvinnu að trufla alla sem framhjá ganga og reyna að græða af þeim undirskriftir eða peninga. Þessir eru mikil pirra – maður reynir að ganga bara framhjá en þeir elta og hrópa á mann ‘afsakið herra eruð þér stúdent eruð þér úr Berlín gæti ég áhuga yðar á bágri stöðu angólskra spendýra vakið’ áður en maður nær loks að snúa þá af sér, á hlaupum, með gnægð aulahrolls í farteskinu. Mig hefur alltaf langað til að snappa á verndunarsinnana að dýr hafi étið fjölskyldu mína upp til agna í svaðilför okkar um Austurlönd, ég einn hafi sloppið, og hvernig dirfist þeir, en mig grunar að það tækifæri, eins og svo mörg önnur, sé að renna mér úr greipum.

Hinum megin við útpissaða og veggjakrotaða lestarstöðina er annar pylsustandur sem auglýsir Bio-Wurst – lífrænt ræktaðar pylsur, þýði ég þetta í huga mér, og velti fyrir mér hvort mig sé að dreyma. Þar rétt áfram er döner-staður, sem auglýsir sig með mynd af gígantískum, sveittum kjöthlunki og textanum ‘frisch und lecker!’ þar undir, sem er svo augljóslega absúrd að maður verður að hlæja og lofa sjálfum sér að versla þarna aldrei nokkru sinni.

Þarna eru búðir sem selja fjölbreytt skran sem á það eitt sameiginlegt að kosta allt eina evru stykkið, þarna er búð sem selur pólskar sérvörur, þarna er fremur klámfenginn ljósmyndari (sýnimyndirnar út í glugga eru afar vafasamt semíbarnaklám), kjötsali og Imbiss (beint þýtt = íbit, þ.e. standandi matsölustaður.) Þar eru samkeppnisaðilarnir Schlecher og Rossmann sem virðast oft mynda helming allra búða í Þýskalandi - þær byrjuðu án vafa sem apótek, en eru nú orðnar þessar búðir sem selja allt frá pillunni til einnota myndavéla til rauðvíns til heilsuhnetna. Þessar keðjur eru yfirleitt staðsettar á móti hver annarri og eru held ég a.m.k. þrjú pör á Schönhauser Allee. Í það allra minnsta.

Hér er hommabarinn Bärenhöhle, eða bjarnarhellirinn. Við Hafdís vorum eitt sinn hryllilega bjórþyrst og var þessi sá eini sem var nálægt og opinn. Ég hafði alltaf talið hann einhverskonar berlínska trukkaalkóhólistaknæpu (af þeim er nóg), enda bara horft inn að utan, en annað kom í ljós er inn var komið – hér var allt fullt af miðaldra, feitlögnum hommum sem, mér til eilítilla vonbrigða, virtust ekki hafa neinn áhuga á að reyna við mig, á meðan við Hafdís helltum í okkur bjórunum og hún gerði sitt besta til að fela kyn sitt undir þykkri loðhúfu.

Þarna er tebúðin Teewelt þar sem ég fann loksins mokkakaffikönnu endur fyrir löngu, að hverri ég hafði leitað í nokkra daga – ég missti mig næstum því er hún reyndist selja slíkar, ég meina, tebúð með kaffikönnur? Ég hrópaði upp yfir mig das ist GENAU was ich suchte! og hálflangaði til að faðma afgreiðslukonuna. Því sleppti ég hinsvegar, því ég var auralaus og þurfti að hlaupa út í hraðbanka til að geta keypt könnuna og svalað fíkn minni – ég held að síðan ég keypti blessaða könnuna hafi það ekki brugðist að ég hafi bruggað mér eina könnu og klárað á hverjum morgni. Ég ætti að nefna hana eitthvað krúttlegt og ástúðlegt eftir þessa dyggu þjónustu, en fyrst ég er að fara og skilja hana eftir, þá tekur það því varla.

Hér er Spätkauf (seinkaup, þ.e. búð sem er opin allan daginn alltaf og selur nauðsynjavörur og áfengi, sem ég tel reyndar nauðsynjavöru með meiru) sem er í eigu eins leiðinlegasta manns allra tíma – hann er tælenskur, með gleraugu, skalla og hryllilegasta hreim ever, og virðir viðskiptavini varla viðlits. Þess í stað er hann yfirleitt í símanum að hrópa, og ég meina hrópa, tælensku í radíus yfir gervalla búðina og þá að eilitlu leiti einnig ofan í lúinn símann. Hann veit vel að maður verslar þarna einungis þegar maður neyðist til þess og nýtir sér þá sérstöðu sannlega til hins ýtrasta.

Við krossgötur Schönhauser Allee við Danziger Straße og Eberswalder Straße, sem kallast í þýsku talmáli Ecke Schönhauser, finnur maður Konnopke’s Imbiss, þekktan fyrir Currywurst – þ.e. feita þýska pylsu, soðna og skorna í búta, með tómatsósu og karríi hellt þar yfir. Þetta er einkennisréttur Berlínar og er étinn ótæpilega – þar til gerðu pappabakkarnir og plastgafflarnir sjást út um allar götur og eru án vafa meirihluti innihalds appelsínugulra ruslatunnanna út um allan bæ. Konnopke’s ku hafa bestu tómatsósuna í Berlín. Rekur hún uppruna sinn til skortsins í kjölfar heimsstyrjaldarinnar, en uppskrift hennar er vel geymt leyndarmál. Hann opnar kl. 6 á morgnana, og á víst alltaf þá þegar að vera röð manns að bíða opnunar – eftir akfeitu Currywurst með frönskum kartöflum og majónesi, klukkan fokking sex. Það er önnur berlínsk ráðgáta hvernig fólk lifir þannig af án hjartaáfalls – en ég get um það vitnað að wurstið er indællega gott.

Hér er hávær umferð hjóla og fólks, barir og kaffihús og garðar, graffití, falskir götutónlistarmenn og skítur, og Schönhauser Allee liggur áfram niður í Mitte, til kirkjanna, stjórnarhverfisins, til Reichstag, til landamæranna við V-Berlín, sem enn eru svo fáránlega sýnileg í gegn um Brandenburger-hliðið – og hér þvert á hana er Danziger Straße, liggjandi í átt til Friedrichshain og Kreuzberg, til Tyrkjahverfanna og klúbbanna, til eiturlyfjasölunnar, til knæpanna og þess sem eftir lifir af gömlu Berlín. Og hér er Ecke Schönhauser, minn eigin persónulegi miðpunktur alheimsins.

Ég er svo leiður á að ganga þessa breiðgötu að ég gæti ælt. Ég get talið upp krossgötur hennar í röð í svefni – Erich-Weinert-Straße, Wichertstraße, Paul-Robeson-Straße, etc. – en ég er sannarlega svo uppnuminn af henni og svo vanur henni, þetta er fyrsta breiðgatan sem ég kynnist og það er eiginlega ótrúlega íslenskt að hafa enga slíka þekkt fyrir. Hún er lifandi, hún endurtekur sig fyrirsjáanlega í jöfnum mæli og hún hendir framan í mann einhverju sem maður hefði aldrei getað ímyndað sér og mun aldrei sjá aftur. Ég hef gengið hana í öllum stigum veðurs og drykkju, séð á henni rottur, róna, anarkista, kúlista og allt hið mennska og dýrska litróf - ég mun sakna þessa í drasl, þessa malbiks milli Berliner Straße og Torstraße og lífsins þeirra á milli.