föstudagur, desember 23, 2005

Kyrie Eleison


Hann á víst afmæli á morgun hann Jesús karlinn. Reyndar, þegar á það er minnst, hét hann sjálfur alls ekki Jesús, en það er gríska útgáfan af nafni hans, þar sem nýja testamentið var skrifað fyrst á grísku. Talið er að raunverulega nafn Jesúsar hafi verið Jósúa.

Annars óskum við öll honum til hamingju - verra er að yngri kynslóðin fer að ruglast á þessu öllusaman, telur að Jesús búi á Norðurpólnum í leynilegri kókverksmiðju og sé feitur, hvítur, miðaldra Ameríkani og/eða Bush forseti.

Jólin verða stöðugt minna kristin, og af einhverri ástæðu finnst mér það skemma þau lítið - þau snerust alltaf og munu alltaf snúast aðallega um samveru fjölskyldunnar, sem hefur nákvæmlega ekkert að gera við rangan fæðingardag Jósúa blessaðs, sem ég vil þó fullyrða að ég dáist mikið að - til að taka burt ásakanir um andkristni og eymdarörlög brenndur á báli fyrir guðlast og drottinsníð.