fimmtudagur, desember 08, 2005

Garg!

Íslenskunám það sem okkur er troðið í gegnum er við það að hrekja mig af landi brott. Mig langar að fara til Senegal, læra afrískt smelltungumál og segja aldrei stakt þorn framar.

Íslensk ljóðalist virðist mér snúast að mestu leiti um einn hlut - að sýna hversu vel maður getur fylgt bragarháttareglum eftir. Íslenskt ljóð sem fjallar um eitthvað er vandfundið. Persónuleg ljóð varla til. Atómskáldin okkar voru alltof uppfull af hroka til að einu sinni reyna.

Mér finnst gott dæmi vera einmitt nám okkar núna. Við eigum ekki að lesa klassísk íslensk ljóð og greina merkingu þeirra, rýna í ævi skálda og reyna að finna nýjar merkingar - nei, við teljum atkvæðin í fornu orðasulli og greinum í flokka á mjög íslenskan hátt, því merking ljóðsins er í raun bara tjáning á einhverskonar frumtilfinningum: 'Ég er fullur.' Ég er saddur.' 'Ég er reiður.' 'Mamma, skipta á mér' og annað í þeim dúr.

Ég viðurkenni mig þá vera óþjóðlegan sora, föðurlandsníðing og danadindil - því ég kýs alltaf miklu frekar enska ljóðalist.

-taka skal fram að nú er ákveðið stundarhatur í gangi gagnvart tungumálinu vegna ákveðins prófs sem mig langar svo mjög til að troða ofan í kokið á einhverjum.-