mánudagur, nóvember 14, 2005

Vegna bumbs

Það er víst nýtt klukk að bumba, og skal þá segja frá þremur uppáhaldsdrykkjum og þremur uppáhaldskvöldverðum - Vinur vor Einar hefur kallað þessa yfir heiminn. Ég biðst afsökunar á að hafa verið svo lengi að þessu, Einar, en þú ert nú þekktur fyrir þolinmæði. ;)

Zu trinken:
  • Ískalt kók. Þegar það rennur niður finnur maður fyrir hálfgerðri brunatilfinningu í maganum og maður man skyndilega eftir því að maður er að torga einhverskonar samþjappaðri vessasúpu satans, sem fyllir magann af rotvarnarefnaóbjóði, leysir upp tennurnar og fyllir þvagblöðruna, en manni er einhvernveginn samt alveg sama og drekkur samt. Áhugavert.
  • Brazzi. Á bakvið þetta val er saga. Þegar ég var smámenni hér á tímum risaeðlna, þótti ég mjög stórtækur í matar -og drykkjarneyslu, og benti karl faðir minn mér á að ég mætti ekki þamba eplasafann. Yfirleitt leiða börn svona hluti hjá sér, en í þessu eina tilfelli festist þetta rækilega í mér, og síðan þá hef ég alltaf staupað Brazza eplasafa, og geri það til þessa dags. Þetta þykir mér nógu skemmtilegt í endurliti til að setja drykkinn hér.
  • Drykkur númer þrjú er leyndardómur. Múrmeldýri skal fórnað til Bafómets til að komast að því hver hann er.
Zu essen:
  • Lasagne. Lasagne er byggingarfræðilegt meistaraverk. Öll hönnun þessa ómetanlega neysluklumps er svo stórkostleg að ég tel að hugvit manna hafi hreinlega aldrei fundið upp á öðru eins. Pýramídarnir blikna í samanburði...
  • Calzone sem ég fékk í bæ í Amalfi á Ítalíu. Ég hef sjaldan smakkað annað eins. Annað dæmi um ítalskt hugvit, að leggja pítsuna saman! Hvílíkir snillingar.
  • Crème Brûlée. Besti eftirréttur heims, og annað dæmi um hugvit í mat. Ókei, hér höfum við búðing. Hvað gerum við? Jú, notum logsuðutæki á hann! Frakkar eru sniðugir.
Og já, það er allt. Ég bumba mon Dodd og Katrínu.