þriðjudagur, janúar 27, 2009

Slappasta 'bylting' heimssögunnar

Einungis þeir sem hafa horft til falls ríkisstjórnarinnar með hestlegri einbeitni og þröngsýni geta hugsanlega fagnað nú.

Samfylkingin hefur nú farið í gegn um stórkostlegasta hvítþvott Íslandssögunnar. Þetta var víst aaaaaaaaallt Sjálfstæðismönnum að kenna. Samfylkingin var valdalaust leikfang í hrjúfum höndum auðvaldsins, en hefur nú risið, líkt og fönix, úr öskustónni til að koma bleikum einhyrningum hins góða að valdastólum samfélagsins.

Fokk jú er allt sem ég get sagt við þessu. Fokk Samfó, fokk VG, fokk Framsókn, fokk Sjálfstæðisflokkur, fokk it oll.

Þetta er fyrsta athöfnin í þriggja mánaða komandi kosningabaráttu. Miðað við hversu ótrúlega illa úthugsað þetta fyrsta útspil var, má vænta enn verri hluta á komandi mánuðum.

Ennfremur hafa mótmælendur vanist valdi sínu. Komandi örseturíkisstjórn situr í þeirra náð og mun gera allt til þess að koma í veg fyrir að styggja þá - og frekar reyna að spreða í þá til að öðlast þeirra atkvæði þegar loksins að lýðræðislegum kosningum kemur.

Vitið til - þetta þriggja mánaða stjórnartímabil mun verða ein stór kosningaauglýsing. Það mundi ekki koma mér á óvart að fyrsta tilskipun stjórnarinnar verði þess efnis að mánuðirnir fram að kosningum verði allir almennir frídagar... kannski kaupir ríkisstjórnin Coldplay til landsins, Íslendingum að kostnaðarlausu! (Fyrst þá mundi ég byrja að kasta eggjum.)

Nú mun Seðlabankastjórnin hinsvegar rekin, þremur mánuðum fyrr en hún annars hefði verið. Það er það eina góða við þetta húllumhæ sem ég sé... og ekki er það mikils virði.

Ég skal aðeins samt hemja ýkjurnar: Ísland mun enn verða á sínum stað, enginn mun deyja eða örkumlast af þessa völdum, allt mun halda áfram sinn gang. Ég held að þessi stjórn muni ekki drekkja landinu frekar en nokkur sem áður hefur setið. En tvennt situr samt eftir:

Hið einskæra tilgangsleysi alls þessa, og sú leiða staðreynd að einhverjum skuli detta í hug að fagna því.