þriðjudagur, janúar 20, 2009

Byltingin er bjartsýni

Nú krefjast margir algerra breytinga á íslensku stjórnkerfi, og ekki að ástæðulausu.

Mér finnst þó persónulega það fremur hjákátlegt að fyrst skuli það koma til umræðu nú vegna slæmra banka, en ekki vegna margs annars verra sem undan hefur gengið, en jæja, látum það liggja milli hluta.

Mér þykir stundum að hvatningarmenn þessarar byltingar lifi ekki á sama landi og ég. Ég tel mig búa á Íslandi. Þeir hinsvegar þykja mér búa í töfralandinu Narníu.

Í töfralandi Narníu mun regnbogagaldrakraftur skógardýranna hrekja brott (en ekki meiða!) míníónir hins illa Gákrills, seiðmanns yfir Horodíu, og mun þá einhyrningakonungurinn Beveus endurheimta konungstign sína, er rænt var af honum af svikaranum Gíólusi afhyrnta.

Synir Beveusar, krónprinsarnir Akel og Jút langhorna, svífa inn í bankana með þöktum vængjum (og verða þeir strax að gullhöllum!) Litlu skógardýrin koma úr hellum sínum og fagna með dansi og söng í kring um varðelda til varnar vetrinum, sem er að hverfa.

Í raunveruleikanum snýst þessi byltingarvon um það að í næstu kosningum munu koma fram ný framboð sem svo þurfa að ná hreinum meirihluta á þingi. Það mundi svo neyða hina flokkana til að breytast og nýja stjórnin gæti á meðan breytt stjórnarskránni á 'byltingarkenndan' hátt.

Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvort mótmælendur séu að miða að því að leysa þetta mál á Íslandi yfirleitt? Mér sýnist þeir einmitt staðsettir í miðri Narníu, og blindaðir af þeirri hugsýn, sjá þeir engan veginn hvað þeir eru að gera við eigið fæðingarland.