mánudagur, desember 08, 2008

Skondið

Áðan horfði ég á fréttir. Fannst mér þar merkilegast eitt stutt skot af háværu þinggestunum blessuðu.

Fjórir lögreglumenn, sumir með þennan venjulega lífsþreytusvip sem löggur eru alltaf með en einn með smá bros á vör, bera sín á milli, af einstakri blíðu, mótmælanda út úr Alþingishúsinu.

Mótmælandinn brýst ekkert um, heldur liggur makalega í því sem virðist einstaklega þægileg stelling. Þetta minnir á einhverskonar fögnuð fyrir markaskorara í fótboltaleik. Andlitið vísar niður að jörðinni en er vel sýnilegt í gegn um lögguþröngina. Hann virðist sallarólegur er hann kyrjar, þó lítið eitt fýldur:

'Fasistar, fasistar, fasistar, fasistar, fasistar.'

Ég held að það megi hérmeð afsanna þá fullyrðingu að krúttkynslóðin sé dauð.