fimmtudagur, nóvember 25, 2010

Um hreinan og beinan vilja til þess að gera fólk fátækt

PIGS er nú orðið mjög vinsælt orð yfir þær þjóðir sem herrar Evrópu, lesist stjórnendur Bretlands, Frakklands og Þýskalands, hafa löngum fyrirlitið og fyrirlíta, allgreinilega, enn. Portúgal, Írland, Grikkland og Spánn - hörundsdökkar þjóðir álfunnar eða þá hinir langhötuðu Írar.

Fjölmiðlar fundu upp á þessu hugtaki fyrir nokkru síðan og hafa allar götur síðan haldið uppi megnum áróðri gegn efnahag þessara þjóða. Og eins og frægt er, þá nægir að tala um að þjóð sé á leiðinni á hausinn og spádómurinn, ef nógu margir heyra hann, rætist af sjálfu sér - The Economist tekst þannig að hafa nær aldrei rangt fyrir sér. Og nú skulu svínin falla.

Írland er nýfallið. Nú er rekinn harðvítugur áróður gegn hinum. Og meira að segja er fólk farið að taka Belgíu inn líka - eins og að það bara verði að vera alltaf fjórar þjóðir í einu!

Þetta gæti hugsanlega kallast einhverskonar aðhald eða hlutlaus greining. Það er það ekki. Þetta er rasískur, lítilsvirðandi, ógeðslegur áróður sem hefur eitt og aðeins eitt að markmiði: að gera þjóðir fátækar. Þetta er glæpur, hryllilegur glæpur. The impoverishment of nations. Og gert með fullum, glæpsamlegum vilja þessara siðlausu, sálarlausu manna sem leika sér að saklausum lífum og fá borgað fyrir það.

Mér er þó nokkuð niðri fyrir þegar að þessu fólki kemur.