föstudagur, júlí 25, 2008

Samtíningr

Vinna við auglýsingamennsku er gefandi. Ég er í fyrsta lagi orðinn svo hæfur í prófarkalestri að ekkert fer fram hjá mér lengur (segi ég og geri stafsetningarvillu). Svo er ég nú orðið uppfullur af gagnlegum upplýsingum, svo sem að Tenerife sé fjölskrúðug paradísareyja, að á Kanarí megi finna fjölbreytta og fjölhæfa fjölskylduskemmtun, á dekurströndinni Loro Parque sé mikið úrval mörgæsa, gubb æl gubb svo myndast pollur.

Neinei, þetta er gaman. Besta vinna sem ég hef haft. Ég hef tekið sundsprett í stöðuvatni neysluhyggjunnar og fitna stöðugt. It's time you took a swim in lake you, segi ég og veifa höndum mínum hommalega um. (Margir hafa haft á því orð að ég sé alveg ótrúlega óhommalegur í útliti og sé því þeim mun hroðalegra að horfa upp á uppgerðarhommastæla frá mér en öðrum. Fróðleiksmoli)

Lengi hef ég haldið því leyndu en tónlistarnám mitt er einungis að því miðað að afla mér kvenhylli. Sú tilætlun hefur algjörlega misfarist hingað til og er ég nokkuð ráðalaus í þessu sem öðru. Ljúfir tónar Harvest Moon með Neil Young, silkfönkið Sexual Healing og Let's Get It On með Marvin Gaye, frönsk hálsmælt err í Je suis venu te dire que je m'en vais með Serge Gainsbourg; nei, ekkert virkar. Vanþakklæti kalla ég þetta. Vitið þið ekki áreynsluna sem í þessu felst!? Fullvissuna um árangur eftir sérstaklega glæsilega Marvin Gaye-eftirhermu, sem síðan engu skilar. Fú, þið vitið upp á ykkur sökina. 

Ný og betri taktík skal taka við. Ég er að pæla í gallharðri líkamsrækt svo úr verði nýgrískt goð með skeggrót og lóbótómíu til að verða flón eins og helstu kyntákn samtímans, murr murr, biturð biturð. David Beckham, fyrirmynd mín, er svo daufur að hann hreinlega segir aldrei neitt opinberlega, enda mundi það bara enda illa fyrir mannangann. Svona vil ég vera. Þaga mig í gegn um lífið og breyta heimstískunni jafnóðum.

Það er annars býsna heilbrigt að skrifa hérna inn, ég gleymi að ég get það ef ég læt of langt líða á milli. Það kemur alltaf eitthvað ef maður rembist. Ég þarf nefnilega einhverskonar staðfestingu á því að ég sé ekki ofurseldur setningum eins og 'Kanaríeyjar eru fríhöfn með afar hagstæðu verðlagi...'