fimmtudagur, júlí 03, 2008

Svo svertur að ég er svartur.

Mig langar að starfrækja þennan fjölmiðling áfram. Hann er ágætur, einfaldur í sniði og þolanlega skrifaður - verst er að hann reiðir sig á innblástur frá mínum afar sjaldséðu listagyðjum. Fú þeim.

Hinsvegar ber á því að þessi iðja hefur fengið illt orð á sig, a.m.k. á Íslandi, með tilkomu hins margumtalaða moggabloggs. Þar er samankominn stórmerkilegur þjóðfélagsútdráttur Íslendinga. Moggabloggarar eru nefnilega, í engri ákveðinni röð, og nær undantekningalaust:

fasistar,
grunnhyggnir,
algjörlega án íslenskukunnáttu,
miðaldra,
ófríðir,
atvinnulausir,
bitrir,
hjátrúarfullir,
múgsefjaðir,
ofvirkir
og illir.

Það kemur á óvart að þessi fjölbreyttu einkenni skuli ná yfir svo gífurstóran hóp sem moggabloggarar eru - en svo er raunin. Hver sem er getur komist að þessu með því bara að lesa þrjú blogg í röð. Hvernig á maður að túlka þessa staðreynd? Er moggabloggið lýðræðislegt þversnið? Er þetta lýsandi fyrir hina íslensku þjóð, og er mín eigin reynsla af henni, sem er allt öðruvísi, einfaldlega misvísandi? Eða er það bara afar sérstakur þjóðfélagshópur sem stundar þessa bloggiðju sem táknar ekkert meira en jaðar?

Ég vona eitt. Og held hitt. Gallinn er sá að mér finnst ég ekki eiga neitt sameiginlegt með þessu fólki sem þarna skrifar. Skoðanir þess eru svo rosalegar, svo óábyrgar og svo illar að mig langar oft á tíðum til að flýja burt frá þessu, þá sjaldan sem ég slysast til að lesa eitthvað þarna. Það er ekki heilbrigt, það fyllir mig depurð og óþoli gagnvart eigin þjóð.

Fjölmiðlar hafa hingað til ritskoðað svona fasista út en tjáningarþörf þeirra fær fyrst nú virkilega að blómstra. Þeim mun fasískari sem þú ert því meiri athygli og lestur hlýturðu. Þetta skapar svo afar einfaldar fréttir sem prent- og sjónmiðlar taka óspart upp og veita enn meiri athygli. Helst í sjónvarpsfréttum: HitlerGuð80 skrifaði ljóta hluti! Við förum heim til hans og skoðum heimilisaðstæður hans, en hann býr í hjólhýsi og drekkir hvolpum.

Af einhverri ástæðu tek ég þetta alvarlegar en flestir... ég fæ í fullri alvöru fyrir hjartað er ég heyri um eða sé Íslending sem er virkilega og sannlega með illar skoðanir. Það er ekki minnsta spurning um að rasískar skoðanir eru illar - og illar ekki í neinni húmorískri merkingu. Helförin varð, þegar öllu er á botninn hvolft, aðeins vegna þess að fólk í Þýskalandi hafði annaðhvort rasískar skoðanir eða þolinmæði gagnvart þeim. Ábyrgðin er á endanum hjá fólkinu í landinu og stríðið í hugum þess.

...

Svo næ ég sönsum og byrja að hugsa að þetta sé kannski fullalvarlega á málin litið. Snemma byrja ég að öskra helför. Að öðru!

Viðtal við Sigríði, kerlingu sem ég kynntist á Hrafnistu, í mogganum í dag... eitt hennar helsta einkenni var afar há, hvellandi og brotin rödd, sem barst oft á dag í gegn um herbergissímkerfið með hina ódauðlegu línu '...ég þarf að fá pústið mitt!!', svo húsið skókst. Hörkukelling, annað verður ekki sagt. Fullviss um að ég væri á leiðinni að verða læknir... mér tókst aldrei að sannfæra hana um annað. Stundum er best bara að láta það liggja.

Aðrar skemmtilegar kellingar: þar var ein blind kona sem hét Sabína, algjör dúlla, pínkulítil og stöðugt hlæjandi. Ég minnist þess sérstaklega að hún gerði alltaf morgunæfingar við RÚV á morgnana, og svo var mjög merkilegt og afar skrítið hvernig blind kona raðar hlutum í herberginu sínu. Uppáhald allra. Svo var kona sem ég man ekki hvað hét... en var þekkt fyrir að tuldra sitt ódauðlega viðkvæði alltaf þegar eitthvað var að gerast: 'do do do' eða 'du du du', eða 'dé dé dé', jafnvel 'dó dó dó', endalaus tilbrigði við þetta. Já, svei mér, do do do, það er nú þannig, já já, dú dú dú.

Þessar konur mundu verða hinir ágætustu bloggarar, tel ég.