föstudagur, febrúar 25, 2005

Fyrsti maðurinn stígur varlega niður úr trénu, og finnur fyrir mjúkum jarðveginum milli hárugra tánna í fyrsta sinn. Hann gengur hægt áfram á fjórum fótum, þangað til hann finnur það sem hann leitaði að - skærgrænan stein sem glitraði á í sólskininu sem brotnaði svo glæsilega í gegnum krúnublöð trésins úr hverju apinn hafði stokkið.

Og þegar apamaðurinn tekur upp steininn og starir á hann, finnur hann fyrir stundaránægju, honum finnst að líf hans sé fullkomið þessa einu stundu og að allt líf eftir þetta verði gott, því hann á græna steininn.

Síðan hvarflar að honum: En hvað ef það eru tveir grænir steinar?

Svo apinn leggur af stað að leita sér að öðrum grænum stein. Apinn leitar lengi, og hann finnur margt annað stórkostlegt sem honum hafði ekki dreymt um - þangað til hann kemur að skógi annars ættbálks af öpum, sem hann sér að hafa safnað miklu fleiri steinum og pjátri en hann - og raðað því í fallega hrúgu í ofanlág.

Við þetta verður apinn afskaplega reiður, reiðir steininn til höggs, finnur forsvarsmann apabæjarins og brýtur á honum höfuðkúpuna og hirðir steinahrúguna. Apinn er drepinn á flótta sínum úr skóginum, og hans er hefnt úr sínum eigin skógi, et cetera, og þar með er mannkynssagan byrjuð.

Við höfum nákvæmlega ekkert breyst síðan þá.