mánudagur, desember 06, 2004

Ég er illa haldinn af prófleti. Ég reyni að opna líffræði eftir Örnólf Thorlacius (hvernig stendur á því að höfundar kennslubóka hafa alltaf nöfn sem benda til þess að það sé einstaklega dauft fólk?) og augnlokin byrja að síga, stafirnir renna saman í einn graut sem vellur saman og myndar stórum stöfum orðið SVEFN eða TÖLVULEIKUR eða BÍÓMYND eða einhverja aðra andlega freistingu, að ekki sé talað um þær líkamlegu.

Hvernig er hægt að nýta tímann svona illa? Ég er inni allan daginn að reyna að lesa, en ekkert er lesið... mestallur tíminn fer í hyggespíserí eða loftsstöru. Ég hef ekki lent í neinu erfiðu prófi ennþá, en ekki líður á löngu. Saga var strembin en einkunnin er líklega ágæt þar; enska, mitt besta fag, var í dag, þ.e. málfræðiparturinn, og var það próf heilar 14 blaðsíður að lengd. Greinilegt að máladeildarnemendur eru aðeins felldir á tíma þegar að engilsaxneskri tungu er komið. Kramdi ég það, en þurfti að sitja allan tímann, í fyrsta sinn sem ég þarf þess í enskuprófi.

Enskur stíll á morgun, sem ætti ekki að reynast erfitt, en svo tekur alvaran við, líffræði sem ég hef haft hræðilegar einkunnir í enda er það fag sem ég þoli ekki. Frekar vil ég beygja sögnina veho í plusquamperfectum þriðju persónu fleirtölu heldur en að troða ofan í mig endalausri staðreyndasúpu um hvatbera. Þó er alltaf til bakareglan í líffræði; ef efi er á, giska þá á 'prótín'.

Danska er fag sem ég hef hatað frá örófi alda. Í fyrra fékk ég þó fínar einkunnir, en dönskukennsla verður samt verri með hverju árinu. Það er engin málfræði í dönsu, engin leið til að bara læra og sleppa við vesen, nei; ég verð að glósa og glósa og reiða mig á afskaplega skeikula máltilfinningu mína, auk þess sem ég þarf að lesa hina þó stórskemmtilegu bók 'Rend Mig i Traditionerne' fyrir prófdaginn. Og svo er það íslenska, fag sem verður furðulegra með hverju árinu. Svo er það helgi, í hverri ég þarf að klára klippingu á stuttmynd auk þess að læra latínu eins og brjálæðingur, reyna að troða stærðfræði einhversstaðar inn og svo fæ ég einn dag til að læra þýsku.

Oh, happy day...