mánudagur, janúar 14, 2008

Það var meira vit í legsteinum í denn

Oft er ég spurður hvað sé eiginlega gert í þessu blessaða námi sem ég er í. Mest lítið er svarið, en stundum, afar sjaldan, næstum aldrei, gerist þó eitthvað af viti. Ég skilaði nýlega lokaverkefni fyrir skásta fagið sem ég var í á síðasta misseri. Það fag heitir því ágæta nafni Grískar og latneskar orðsifjar, en í lokaverkefninu átti ég að skýra nokkrar fornar áletranir að eigin vali.

Í Rómarferðinni frægu hér síðasta sumar (sjitt, það var bara síðasta sumar! virðist lengra) heimsótti ég Capitol-safnið og sá þar í göngunum milli safnbygginganna sýningu á fornum grafskriftum. Mér þóttu sumar mjög fallegar, og tók því tvær af netinu fyrir í þessu verkefni. Ég hef nú í huga að birta þær hér, ykkur lesendum til yndisauka. Já, ég er leiðindagaur sem birtir heimavinnuna sína á blogginu. Sue me.

Áletrun 2: Frá
Dunaujvaros í Ungverjalandi

D M

AVRELIAE BARACHAE [.]IXIT

ANN XXV ET AVREL GER

MA[.]ILAE VIXIT

ANN IIII ET ALTERA

FILIA AVRELIA GER

MANILLA VI[…] ANN

II ET IMMOSTAE MATRI SU

E VIXIT ANN LX GERMAN

IUS VALENS MIL COH M HEM

ES UXORI ET MATRI ET FI

LIIS POSVIT ET SIBI V[..]US FE

CIT

D(is) M(anibus); Aureliae Barachae, (v)ixit ann(os) XXXV, et Aurel(iae) Germa(n)ilae, vixit ann(os) IIII, et altera filia Aurelia Germanilla, vi(xit) ann(os) II, et Immostae matri su(a)e, vixit ann(os) LX. Germanius Valens, mil(es) coh(ortis) m(illiariae) Hemes(enorum), uxori et matri et filiis posuit et sibi v(iv)us fecit.

Og loks bein þýðing:

Til guða undirheimsins; fyrir Aureliu Baracha, (sem) lifði í 35 ár, og Aureliu Germanilu (sem) lifði í 3 ár, og hin dóttirin, Aurelia Germanilla lifði í 2 ár, og fyrir Immostu móður sinnar (sem) lifði í 60 ár. Germanius Valens, hermaður þúsundaherdeildar Hemesenora, setti konu (sinni) og móður (hennar) og dætrum (sínum) (þennan legstein) og gerði sér (sjálfum) á meðan hann lifði.


Nördinördinörd: Það er áhugavert að sjá að Germanius Valens þessi gerir ýmsar málvillur sem maður hefði ekki búist við að sjá frá Rómverja með latínu að móðurmáli. Hann skrifar töluna fjórir IIII en ekki IV og sleppir alltaf tilvísunarfornafninu quae (sem fyrir ólatneska menn). Einnig er furðulegt hvernig þágufallið dativus commodi hverfur þegar hann minnist á yngri dótturina (..et altera filia Aurelia Germanilla…) en snýr svo aftur er hann ræðir um tengdó. Þá notar hann su(a)e í staðinn fyrir eius (sína í staðinn fyrir hennar.) Þó er eins og þetta misgóða vald hans á tungumálinu geri áletrunina enn kröftugri í einfaldleika sínum, og afar dapurt að hann sé einnig að reisa legsteininn fyrir sjálfan sig á meðan hann lifði.

Áletrun 3: Frá Aþenu.

Μινακὼ Λίβυος χρηστή.

εἴ τις ὅλως γέγονεν χρηστὴ γυνή, ἥδ’ ἐγώ εἰμ[ι]

πρός τε δικαιοσύ[ν]ην καὶ τοῖς ἄλλοισιν ἅπασιν·

οὖσα δὲ τοιαύτη χάριν οὐ δικαίαν κεκόμισμαι

οὔτε παρ’ ὧν ὤιμην οὔτ’ ἀπὸ δαιμονίου·

[…]ος ἀπὸ μητρὸς ἐμῆς καὶ πατρὸς ἄπιμι {ἄπειμι}

[.....…κρύ]πτω, οἵας χάριτάς μοι ἀπέδωκα[ν]·

[ἀνθ’ ὧν ἤμελλον π]αρὰ τῶν παίδων κομίσεσθαι.

Þessi finnst mér mjög merkileg. Hér setur skrifarinn sig í spor hinnar látnu og hefur þvílíka samúð með henni og hennar hlutskipti að maður vill næstum því kalla þetta feminískt, nokkrum þúsund árum áður en femínismi kom til sögunnar. Þetta er mín þýðing og má vera röng.

Minako frá Lýbíu, hin gagnlega;

ef einhver varð algjörlega gagnleg kona, (þá) er ég sú,

fyrir réttlætinu og öllum öðrum,

en þótt slík væri fékk ég ekki verðskuldaða ánægju,

hvorki frá þeim sem ég hélt (að ég fengi hana), né frá guðdómnum.

[…] ég er fjarri móður minni og föður

[...…fa]lið, þau gáfu mér ánægjuna eina,

[í staðinn fyrir það sem ég ætlaði] að fá frá börnunum.