sunnudagur, maí 08, 2011

Brot úr Saffó - úr ritgerð

Ég segi það satt, ég vildi að ég væri dáin.

Hún grét þegar hún fór frá mér.

Hún sagði mér margt og meðal annars þetta:

Ó, hvað við þurfum að þola!

Saffó, trúðu mér, sjálf vil ég ekkert fara.”

Ég svaraði henni þessu:

Vertu sæl og farðu af stað,

og hugsaðu til mín, því þú veist hvað við vorum hrifnar af þér.

Og ef ekki, þá skal ég minna þig á...

... og nutum okkar.

Því þú krýndir þig mörgum krönsum

úr fjólum og rósum og ... af sama stað ...

...fyrir mig,

og þú lagðir um mjúkan hálsinn

marga ofna sveiga

alla úr blómum,

og þú smurðir þig

með mikilli ... ríkri olíu

og konunglegri ... [myrru],

og á mjúku rúminu ...

mjúku ...

svalaðirðu þrá þinni...

og ekki finnst nokkur ... né nokkuð

hof ...

sem við heimsóttum ekki...

eða laut ... dans

...”

"Hér er mjög auðvelt að sjá kynferðislegt samhengi: Stúlkan farin og Saffó rifjar upp þær stundir sem þær áttu saman og hvernig þær nutu sín. Lýsingin á blómunum og krönsunum er flæðandi og stigvaxandi, og kvæðið virðist vinna sér leið niður á við á líkama hinnar horfnu stúlku: hún setur krans um höfuð sér, blómsveig um hálsinn, smyr sig með olíu og svalar loks þrá sinni á mjúku rúmi..."

föstudagur, maí 06, 2011

Mannhatur, beint og óbeint

[Þetta er reiðibréf skrifað og sent á frettir@ruv.is og pall.magnusson@ruv.is rétt í þessu. Yfirleitt þegar ég skrifa eitthvað í reiði þá sé ég eftir því síðar; sjáum til hvort svo verði nú. Í það minnsta hvet ég fólk til að gera það sama.]

Sælt veri fólkið.

Ég er langþreyttur til að trana mér fram á þennan hátt en stundum tekur steininn úr. Frétt ykkar "Hælisleitandi olli sprengihættu" á ruv.is, slóð: http://www.ruv.is/frett/haelisleitandi-olli-sprengihaettu, er ógeðsleg, og fréttaritendur virðast of saklausir til að átta sig á því af hverju. Á þetta verður að benda og menn verða að vona innilega og með öllu hjarta að viðkomendur sjái að sér og öðlist aðeins skýrari sýn á heiminn fyrir vikið.

Hér er sumsé gapandi bil milli þess sem gerðist og hvernig atburðinum er lýst.

Það sem gerðist: Hælisleitandi sér sig knúinn, í vonlausri baráttu sinni við íslenskt skrifræði, í vonleysi sínu yfir því að fá ekki, aldrei, neinstaðar að lifa með virðingu, hvorki í Íran né á Íslandi, til þess að myrða sjálfan sig á sársaukafyllsta hátt sem hægt er að ímynda sér. Þessi aðferð hefur ákveðið samhengi sem fréttaritari virðist ekki heldur átta sig á. Það var nefnilega einn sjálfsíkveikjumaður sem hratt af stað byltingunum í Túnis, Egyptalandi og Líbýu og hinum nú kraumandi óróa út um allan hinn arabíska heim. Einn sjálfsíkveikjumaður getur því valdið gífurlegum straumhvörfum í hugsun milljóna manna - og er þá ekki hægt að gefa sér að jafnvel, kannski og mögulega sé þarmeð hægt að sannfæra 300.000 manns í miðju Atlantshafi um að meðferð hennar á flóttamönnum og hælisleitendum sé hryllileg og eigi sér eina og aðeins eina hliðstæðu - meðferð heimsins, og Íslands, á landflótta gyðingum á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar?

Honum er svo rétt svo bjargað frá þessum hryllilegu örlögum, meðal annars af Rauða kross-fólki sem var annt um líf hans, lagði sig í hættu fyrir til að bjarga því og eru líklega einu Íslendingarnir sem nokkra sál virðast hafa fyrir þessum manni. Jafnvel réttilega.

Þetta er hin raunverulega saga. Hún er hræðileg og á að vekja fólk til djúprar, afar djúprar íhugunar um það hvort þetta samfélag sé í lagi og hvort það sé siðlegt að leyfa því að halda áfram óbreyttu eða óbyltu.

En!

Það sem fréttin snerist um:

Hælisleitandi - orð sem er húrrandi neikvætt gildishlaðið - gekk af göflunum, og hefði getað - ef ekki hefðu komið til vopnaðir sérveitarmenn - skaðað starfsmenn Rauða krossins!

Það er að segja Íslendinga, svo ég fylli það inn sem gefið er í skyn. Já, þeir einu sem skipta máli. "Mikil sprengihætta skapaðist, og bensínið slettist á starfsmenn Rauða krossins." Þeir voru sumsé í hættu - ekki flóttamaðurinn. Þeim var bjargað, ekki flóttamanninum: enginn meiddist, í merkingunni enginn Íslendingur, í merkingunni enginn sem skiptir máli.

Nú ætla ég ekki að ásaka þann sem skrifaði þessa frétt um að þessar séu hans skoðanir viljandi og vitandi vits. Svo er án vafa ekki. En þetta er andi orðanna og þetta er andi Íslands og Íslendinga í samskiptum sínum við flóttamenn; hvernig kemur þetta Íslendingum við? Allt er gert til að forðast það að gefa manninum eigið líf og gildi, að viðurkenna að hann hafi eitthvað að segja eða skipti neinu máli að öðru leiti en því hvernig þetta hatursfulla þjóðfélag getur grætt á eða að minnsta kosti séð sem minnst af honum. Og það er þaðan sem þessi frétt kemur.

Ég vil og bið að fréttaritendur RÚV átti sig á því - og þetta á ekki að vera stór bón, en er það greinilega - að þetta er manneskja sem hefur jöfn réttindi og jafna hugsun og allir aðrir menn. Hann gerir þetta ekki af ástæðulausu eða af gamni sínu. Allt sem hann er að sækjast eftir er að fólk komi fram við hann eins og hann skipti máli. En ekki einu sinni eftir þetta, þegar hann hefur sýnt sig tilbúinn til að drepa sig til að koma þessum skilaboðum sínum á framfæri, er RÚV tilbúið að láta honum þá aumu bón eftir.

Í von um að sem mest af þessu sé oftúlkun og hársærni,

-Þorsteinn Vilhjálmsson,
Neshaga 12, 107 RVK